Martinelli til Sádi? - Brentford neitar að lækka sig - Alonso tilbúinn að selja - Elanga á leið til Newcastle
   mið 21. maí 2008 21:13
Gunnar Gunnarsson
Meistaradeildin: Manchester United sigra eftir dramatíska vítaspyrnukeppni
Manchester United 1 - 1 Chelsea
1-0 Cristiano Ronaldo ('26)
1-1 Frank Lampard ('45)
Manchester United unnu 7-6 eftir vítaspyrnukeppni

Úrslitaleikurinn í Meistaradeild Evrópu fór fram á Luzhniki leikvanginum í Moskvu þar sem Englandsmeistarar, Manchester United og Chelsea börðust með kjafti og klóm um stærstu verðlaun sem hægt er að vinna í evrópskri knattspyrnu.

Í fyrsta sinn í sögu keppninnar áttust við tvö ensk félög í úrslitum og það þurfti framlengingu, vítaspyrnukeppni og bráðabana til að útkljá þessa miklu viðureign félagana.

Leikurinn fór tiltölulega rólega af stað og fátt tíðinda þar til nautabanarnir á miðjunni Paul Scholes og Claude Makelele skölluðu saman á 22. mínútu og hlutu báðir gult spjald að launum frá slóvenska dómaranum Lubos Michel fyrir þetta háskalega athæfi. Frakkinn klóraði sér í kollinum en Scholes lá blóðugur í grasinu og þurfti að fara af velli um stundarsakir.

Höfuðhöggið virtist ekki hafa mikil áhrif á hinn rauðhærða Paul Scholes sem skundaði aftur inná völl en hann kom einmitt United í úrslitaleikinn með stórglæsilegu marki í undanúrslitunum gegn Barcelona.

Það dró til tíðinda á 26. mínútu þegar títtnefndur Scholes og varnartröllið Wes Brown tóku laglegan þríhyrning sín á milli á hægri kantinum við vítateig Chelsea.

Varnarjaxlinn knái sendi ákaflega hnitmiðaða sendingu inn í vítateig þar sem besti knattspyrnumaður ársins á Englandi, Christiano Ronaldo stökk hæð sína í lofti og skallaði knöttinn í bláhornið framhjá varnarlausum Peter Cech markverði þeirra bláu.

Hinn magnaði Portúgali að skora sitt áttunda mark í Meistaradeildinni á þessu tímabili og piltar Alex Ferguson komnir með forystuna.

United menn létu hné fylgja kviði og Wayne Rooney náði glæsilegri sendingu fram á Ronaldo sem gaf fyrir markið á Carlos Tevez. Argentínumaðurinn kastaði sér fram og stangaði boltann af krafti en Cech varði meistaralega, hann hélt hins vegar ekki knettinum og boltinn barst til Michael Carrick sem þrumaði að marki en aftur tókst hinum tékkneska að sýna snilli sína milli stanganna og bjargaði Chelsea fyrir horn.

En Chelsea menn voru ekki á því að leggja árar í bát og eftir misheppnað skot frá Michael Essien sem hafði viðkomu í Serbanum, Nemanja Vidic hrökk boltinn til Frank Lampards sem þakkaði pent fyrir sig og skoraði með góðu skoti. Leikar stóðu því jafnir í hálfleik.

Leikmenn Chelsea komu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og ljóst að jöfnunarmarkið hafði gefið liðinu byr undir báða vængi og aukið sjálfstraustið.

Michael Essien fór illa með Ronaldo og vörn United á 54. mínútu en ágætis skot hans með vinstri fæti smaug yfir mark Englandsmeistaranna.

Hinn þýski Michael Ballack mátti nú ekki vera minni maður og skömmu síðar átti hann góðan sprett en skot hans fór framhjá Edwin van der Sar og marki United.

Englandsmeistarar United voru ekki eins sókndjarfir líkt og í fyrri hálfleiknum. Chelsea fékk besta tækifærið í seinni hálfleik þegar Didier Drogba átti þrumuskot utan teigs sem small í stönginni hjá United. Stóðu leikar enn jafnir þegar venjulegum leiktíma lauk og þurfti því að grípa til framlengingar.

Það voru aðeins liðnar fjórar mínútur af framlengingunni þegar Frank Lampard skaut í markslána hjá United eftir stórbrotið samspil hjá leikmönnum Chelsea.

Leikmenn Chelsea virtust miklu mun líklegri en varnarleikur United hélt og liðin urðu að útkljá viðureign sína í vítaspyrnukeppni.

Þar höfðu Alex Ferguson og liðsmenn hans betur eftir að þeirra helsti markakóngur Cristiano Ronaldo lét Peter Cech verja frá sér. Fyrirliðinn John Terry gat tryggt Chelsea sigur úr síðustu spyrnunni en skaut í stöngina. Það þurfti því bráðabana og þar mistókst Nicolas Anelka að skora og Manchester United því Evrópumeistarar 2008, einmitt 40 árum frá því að þeir unnu sinn fyrsta Evrópubikar árið 1968.

Gangur mála í vítaspyrnukeppninni:
1-0 Carlos Tevez - skoraði
1-1 Michael Ballack - skoraði
2-1 Michael Carrick - skoraði
2-2 Juliano Belletti - skoraði
2-2 Peter Cech varði frá C. Ronaldo
2-3 Frank Lampard - skoraði
3-3 Owen Hargreaves - skoraði
3-4 Ashley Cole - skoraði
4-4 Nani - skoraði
4-4 John Terry skaut í stöngina
5-4 Anderson skoraði
5-5 Salomom Kalou skoraði
6-5 Ryan Giggs skoraði
6-5 Van Der Sar varði frá N. Anelka
Athugasemdir
banner
banner