Aðalsteinn Arnarsson og Paul Clapson kljást í leik Tindastóls og Aftureldingar. Paul skoraði fyrra mark Aftureldingar í leiknum.
Tveimur leikjum er lokið í annarri deild karla í dag. ÍR burstaði Völsung 5-0 á heimavelli þar sem Guðfinnur Þórir Ómarsson skoraði tvívegis. Afturelding sigraði síðan Tindastól 2-0 á Sauðárkróki. Klukkan 16:00 hófst leikur Magna og Hattar á Grenivík en nánar verður fjallað um hann á Fótbolta.net síðar í dag.
ÍR 5 - 0 Völsungur
1-0 Erlingur Jack Guðmundsson ('16)
2-0 Guðfinnur Þórir Ómarsson ('19)
3-0 Elías Ingi Árnason ('60)
4-0 Baldvin Jón Hallgrímsson ('65, víti)
5-0 Guðfinnur Þórir Ómarsson ('78)
Völsungar léku með smá golu í bakið í fyrri hálfleik og þeir hófu leikinn af krafti.
Það voru hins vegar heimamenn sem komust yfir á sextándu mínútu. Erlingur Jack Guðmundsson fékk þá boltann í teignum og skoraði með fínu skoti.
Fjórum mínútum síðar bætti Guðfinnur Þórir Ómarsson við öðru marki eftir að hafa fengið langa sendingu fram völlinn.
Elfar Árni Aðalsteinsson fékk fínt færi til að minnka muninn skömmu síðar en Þorsteinn V. Einarsson varði í marki ÍR og staðan þegar að leikmenn gengu til búningsherbergja var 2-0.
Þorsteinn þurfti þrívegis að verja í stórsókn sem Völsungur áttu í upphafi síðari hálfleiks. Eftir þetta gengu ÍR-ingar hins vegar á lagið og náðu að komast í 3-0 þegar að Elías Ingi Árnason skoraði af mjög stuttu færi í autt markið eftir fyrirgjöf frá Erlingi.
Eftir þetta héldu ÍR-ingar áfram af krafti og fengu vítaspyrnu þegar að varamaðurinn Haukur Ólafsson féll eftir samskipti sín við Ármann Örn Gunnlaugsson.
Baldvin Jón Hallgrímsson, fyrirliði ÍR-inga, heimtaði að fá að fara á punktinn enda að leika gegn sínum gömlu félögum í Völsungi. Baldvini brást ekki bogalistin á punktinum og hann skoraði af öryggi framhjá Birni Hákoni Sveinssyni.
Guðfinnur Þórir Ómarsson gerði svo fimmta og síðasta mark ÍR þegar hann lék á tvo varnarmenn og skoraði. Lokatölurnar 5-0 fyrir ÍR-ingum sem eru með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í annarri deildinni.
Ummæli eftir leik:
Elías Ingi Árnason framherji ÍR:
,,Við erum ánægðir með þrjú stig og það er gott að halda hreinu. Það var einnig gaman að Húsvíkingurinn Baldvin Jón skyldi hafa náð að skora, hann var ánægður með það og stoltur."
,,Við náðum í þrjú stig í dag og við ætlum að halda áfram þessari góðu byrjun. Við eigum leik á föstudag gegn Hamar á heimavelli þar sem við ætlum að halda áfram að sækja stig."
Tindastóll 0 - 2 Afturelding
0-1 Paul Clapson
0-2 Rannver Sigurjónsson
Bæði lið voru með fjögur stig fyrir þennan leik á Sauðárkróksvelli í dag. Afturelding var sterkari aðilinn framan af fyrri hálfleik en Tindastólsmenn unnu sig síðan inn í leikinn. Staðan var hins vegar markalaus í leikhléi.
Mosfellingar komu nokkuð grimmir til leiks í síðari hálfleik og uppskáru mark sem þótti mjög umdeilt.
Rannver Sigurjónsson sendi fyrir á Paul Clapson sem skoraði en á sama tíma lá Ingvi Hrannar Ómarsson leikmaður Tindastóls meiddur á vellinum eftir að hafa fengið höfuðhögg.
Leikmenn Tindastóls voru skiljanlega ekki sáttir og töldu að dómarinn hefði átt að stöðva leikinn en markið stóð og staðan orðin 1-0 fyrir Mosfellingum.
Tindastólsmenn björguðu nokkru síðar á línu frá Magnúsi Einarssyni en eftir það sóttu heimamenn stíft og Halldór Jón Sigurðsson átti meðal skalla rétt framhjá.
Þegar fimm mínútur voru eftir náðu Mosfellingar hins vegar að komast í 2-0. Rannver Sigurjónsson var með boltann fyrir utan teig og hann var ekkert að tvínóna við hlutina heldur skoraði með laglegu skoti sem fór yfir Gísla Eyland Sveinsson markvörð og í slánna ogi nn.
Tindastólsmenn sóttu áfram síðustu mínúturnar og Róbert Jóhann Haraldssson, spilandi þjálfari liðsins, fékk meðal annars dauðafæri en skot hans af markteig fór yfir.
Lokatölurnar 2-0 fyrir Aftureldingu sem er þar með í öðru sæti með sjö stig. Tindastólsmenn eru hins vegar með fjögur stig í sjötta sætinu.
Athugasemdir