Danski varnarmaðurinn Tommy Nielsen átti frábæran leik með FH sem lagði Fjölni 2-0 í Landsbankadeild karla í gær en lið hans var manni færri í klukkutíma og Tommy átti stóran þátt í að stöðva sóknaraðgerðir Fjölnis í leiknum. Hann hefur verið valinn leikmaður 6. umferðar í deildinni hér á Fótbolta.net.

Miðvörðurinn Tommy Nielsen gekk í raðir FH skömmu fyrir Íslandsmótið 2003 og hefur átt fast sæti í vörn liðsins æ síðan og hefur verið lykilmaður í liðinu sem á þeim tíma sem hann hefur verið hjá félaginu unnið Landsbankadeildina þrisvar sinnum og VISA bikarinn tvisvar auk þess að lenda tvisvar í öðru sæti Landsbankadeildarinar.
Hann er nú á sinni sjöttu leiktíð með FH og hefur leikið 84 leiki með liðnu í Landsbankadeildinni og skorað í þeim níu mörk.
Áður en hann gekk til liðs við FH hafði hann leikið með AGF í Danmörku en kom til FH ásamt danska framherjanum Allan Borgvardt fyrir tímabilið 2003 en þá hafði FH verið spáð vandræðum í deildinni. Áhrif Tommy og Borgvardt á FH liðið urðu svo þau að liðið hefur alltaf endað í fyrsta eða öðru sæti síðan þá.
FH liðið hefur byrjað mótið virkilega vel og nú þegar sex leikir eru búnir á mótinu hefur liðið aðeins fengið á sig mark í einum þeirra sem var gegn Þrótti og endaði 4-4. ,,Ég er mjög ánægður með tímabilið, fyrir utan einn leik höfum við verið fullkomnir. Það er mjög gott," sagði Nielsen.
Sjálfur hefur hann átt stóran þátt í velgengninni í ár eins og áður en hann virðist ógnarsterkur þetta árið og hefur sýnt frábær tilþrif í vörninni hjá FH liðinu það sem af er tímabilinu.
,,Ég er kannski í aðeins betra formi en ég hef verið, allavega betra en í fyrra. Þá var ég ekki hérna yfir veturinn en annars er þetta bara eins og hin árin. Mér fannst sumarið 2003 vera best hjá mér því þá kom ég beint frá Danmörku þar sem ég hafði æft tvisvar á dag yfir allan veturinn og svo var ég líka fimm árum yngri," sagði hann.
Á þeim sex árum sem Tommy Nielsen hefur verið í FH hefur verið nokkuð rót á samherja hans í miðvarðarstöðunni hjá FH. Sverrir Garðarsson var fyrstu tvö árin en meiddist og Auðun Helgason var þriðja árið en meiddist eftir það og þá var það Ármann Smára Björnsson sem lék honum við hlið. Á síðustu leiktíð sneri Sverrir aftur en fór svo utan í atvinnumennsku í vetur og nú leikur hann við hlið Freys Bjarnasonar sem hafði verið bakvörður í vörninni öll árin á undan.
,,Ég hef verið með nokkrum þarna en það er eitt sem þeir eiga sameiginlegt og það er að þeir hafa allir verið góðir leikmenn svo það hefur ekki skapast vandamál," sagði Tommy Nielsen. ,,Það er ekki erfitt í upphafi leiktíðar því það er langt undirbúningstímabil yfir veturinn hérna á Íslandi og því venst maður þeim. Auðun var með mikla reynslu líka svo það gekk vel með honum og ég var með Sverri í tvö ár og svo kom hlé og svo annað ár og í annað skiptið þekktum við hvorn annan vel. Núna spila ég með Frey og ég hef spilað með honum öll árin, reyndar í annarri stöðu en samt, það var ekkert mikið vandmál."
FH er á toppi Landsbankadeildarinnar eftir að hafa unnið fimm af sex leikjum sínum á tímabilinu og gert eitt jafntefli. Liðið er með 13 mörk í plús eftir að hafa skorað 17 mark og fengið á sig fjögur, öll gegn Þrótti.
,,Ég átti von á góðum úrslitum en við höfðum lent í meiðslum í vetur og hópurinn var svolítið yngri og óreyndari en hafði verið árin á undan," sagði Nielsen. ,,Ég vonaðist eftir góðri byrjun svo við gætum komist í gang, eins og við höfum verið að gera, en maður veit aldrei hvað hefði gerst ef við hefðum ekki byrjað vel. Ég er svolítið ánægður með hvernig við byrjuðum."
,,Ég veit ekki hvort ég hafi átt von á svona góðri byrjun en ég vissi alveg að ef allir væru klárir þá værum við með gott lið. Við fengum svo hungrið aftur, við höfðum kannski misst það svolítið í fyrra svo við náðum ekki að halda titlinum. Nú viljum við virkilega fá titilinn aftur, hvort sem við fáum hann aftur eða ekki veit ég ekki en við munum allavega reyna okkar besta og við sjáum það þegar við æfum og spilum leiki og það er ástæða þess að við erum að spila vel. "
Eftir sex ár á Íslandi hefur Tommy Nielsen komið sér vel fyrir á Íslandi þar sem hann leikur fótbolta með FH og vinnur á golfvellinum í Hafnarfirði því samhliða. En er hann að verða Íslendingur eftir allan þennan tíma?
,,Ég er að nálgast það en ég er líka stoltur Dani svo ég verð aldrei 100% Íslendingur," svaraði hann. ,,Mér líkar vel hérna en ég held að ég gleymi aldrei dönsku rótunum. Ég fór ekkert héðan í vetur en veturinn þar á undan var ég í Skotlandi. Undanfarið hef ég farið héðan annan hvorn vetur, fyrstu tvo veturna fór ég aftur heim til Danmerkur, svo var ég á Íslandi þriðja veturinn og svo var ég í Skotlandi þar áður og núna á Íslandi. Þetta hafa verið þrír vetur á Íslandi og þrír í útlöndum. Í Skotlandi var ég að læra að vera vallarstjóri og ég vinn núna í dag við það hjá golfklúbbnum Keili."
En hvernig gengur þá með tungumálið eftir öll þessi ár hér á landi? ,,Íslenskan er að verða betri en í svona viðtali er hún ekki nægilega góð. Ég get alveg talað íslensku og skil hana að mestu. Ef það er bara ég og einhver annar sem hefur þolinmæði þá gengur fínt að tala hana en hún er ekki fullkomin, það er mjög erfitt að læra íslenskuna fullkomnlega. En þeim meira sem maður talar hana þeim betur lærir maður hana."
Ólafur Jóhannesson hafði tekið við FH fyrir sama tímabil og Tommy Nielsen gekk í raðir FH en síðasta haust varð breyting í þjálfarateyminu þar sem Ólafur hætti og tók síðar við íslenska landsliðinu en Heimir Guðjónsson varð aðalþjálfari.
,,Óli vann frábært starf hérna en hann hafði verið í fimm ár og það er alltaf gott að fá smá breytingar eftir svona tíma," sagði hann. ,,Það var gott fyrir hann að skipta, hann fékk frábæra áskorun að taka við íslenska landsliðinu og hann þurfti það. Og við þurfum að fá eitthvað nýtt og Heimir er líka maður sem vill spila fótbolta eins og Óli svo það er mjög gott. Heimir er góður drengur og hvernig við æfum og hvernig hann vill spila fótbolta. Auðvitað eru breytingar því þeir eru tveir mismunandi aðilar. En við spilum enn fótbolta á jörðinni en ekki í loftinu."
Þrátt fyrir að vera á 36. aldursári hefur Tommy Nielsen haldið áfram að standa sig mjög vel í vörn FH og aldurinn hefur ekkert truflað hann í því að á þessari leiktíð hefur hann verið að hlaupa uppi hröðustu framherjana í deildinni jafnvel þegar stutt er eftir af leikjunum.
,,Ég er kannski bara reyndari, ég veit hvenær ég á að hlaupa og hvenær ekki," sagði hann. ,,Ég er örugglega ekki hraðari en ég hef verið heppinn með það að ég hef ekki misst hraða. En auðvitað hefur maður misst hann að einhverju leiti miðað við hvernig maður var þegar maður var 25 ára. Ég held mér bara í formi yfir vetrartímann og vona að ég lendi ekki í neinum alvarlegum meiðslum og ég hef verið heppinn með það. Ég lendi í meiðslum en ekki stórum og reyni svo að halda mér í formi allt árið. Maður lendir alltaf í einhverju þegar maður er 35 ára en ekki neinu alvarlegu."
Næsti leikur FH er gegn Breiðablik á Kópavogsvelli næstkomandi mánudagskvöld klukkan 20:00. Tommy býst við erfiðum leik.
,,Við eigum alltaf erfiða leiki gegn Breiðablik. Þeir vilja líka spila fótbolta og gera það vel. Venjulega er mjög gaman að taka þátt í þessum leikjum en líka að horfa á þá. Svo ég vona að það verði svolítið af fólki sem mætir til að sjá góðan fótboltaleik og auðvitað vona ég að við vinnum. Ég hlakka til þessa."
Sjá einnig:
Leikmaður 5.umferðar - Gunnleifur Gunnleifsson (HK)
Leikmaður 4.umferðar - Tomasz Stolpa (Grindavík)
Leikmaður 3.umferðar - Þórður Ingason (Fjölnir)
Leikmaður 2.umferðar - Pálmi Rafn Pálmason (Valur)
Leikmaður 1.umferðar - Tryggvi Guðmundsson (FH)
Athugasemdir