Arsenal reiðubúið að spreða í framherja - Real Madrid ætlar að leggja fram annað tilboð í Trent - Cambiaso til Man City?
   fim 12. júní 2008 14:48
Magnús Már Einarsson
3.deild: Hvað er að frétta úr Vesturbæ?
Mynd: KV
Björn Berg Gunnarsson.
Björn Berg Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Víkurfréttir/Jón Björn
Mynd: Björn Berg Gunnarsson
Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild en á næstunni verður liðurinn á dagskrá tvisvar í viku.

Að þessu sinni höldum við í Vesturbæinn og kíkjum á stemninguna hjá KV. Björn Berg Gunnarsson, stjórnarmaður og leikmaður, svaraði nokkrum laufléttum spurningum.


Hvernig er stemmningin hjá KV þessa dagana?
Stemningin er ljómandi góð að venju. Það voraði snemma í Vesturbænum og góður andi í hópnum en stífar laugardagsæfingar á Prikinu hafa reynst ágætlega við að þjappa mönnum saman fyrir komandi átök.

Er leikmannahópurinn mikið breyttur frá því í fyrra?
Við köllum þetta ekki breytingar heldur þróun í átt að glæstri framtíð. Við höfum fengið þá Garp I. Elísabetarson og Berg Gunnarsson aftur heim eftir útlegð á Seltjarnarnesi og þá Magnús Ægisson og Arnar Þór Sigurbjörnsson af Skaganum. Björn Ívar Björnsson og Halldór Ágúst Ágústsson fengum við að láni frá KR og loks gengu fjórir leikmenn 2. flokks KR til liðs við KV fyrir tímabilið.

Nokkra vantar þó, Jóhann Gunnar Þórarinsson er í feðraorlofi og Björn Jakob Magnússon sleit krossbönd, ásamt því sem miðverðirnir tveir Hjalti Jónsson og Erik Chaillot hafa dvalist erlendis.

Félagið hefur svo pressað duglega á þá Rúnar Kristinsson og Þormóð Egilsson um að hækka örlítið meðalaldurinn í félaginu og miðla af sinni reynslu, en heyrst hefur að þeir séu spenntir fyrir stórveldinu litla í Vesturbænum (fyrst HK kallar sig stórveldi er KV það klárlega líka).

Ertu sáttur við byrjun ykkar í sumar?
Við höfum staðið okkur ágætlega og sýnt fína spilamennsku í fyrstu leikjum sumarsins, þó vissulega hafi verið leiðinlegt að detta snemma út úr bikarnum. Vörnin er óðum að smella saman og leikmenn að komast í form, en undanfarin ár hefur liðið verið seint af stað en gefið í síðari hluta móts. Ef við byggjum á þessari byrjun höfum við engar áhyggjur.

Er mikið samstarf við KR?
KV dæmir fjölda leikja og fær í staðinn að nýta æfinga- og keppnisaðstöðu KR-inga. Auk þess höfum við fengið tvo leikmenn lánaða en nánara er formlegt samstarf þó ekki, þó mjög mikil samskipti og gott samband sé milli félaganna. Stjórnarmaður í KV er formaður KR klúbbsins og stór hluti þjálfara yngri flokka KR er skráður í KV og auk þess nokkrir aðrir starfsmenn KR.

Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Leikmenn þekkjast mjög vel og eru langflestir uppaldir KR-ingar. Það er mjög jákvætt að geta leikið á heimavelli í sínu hverfi og að geta haldið þessum strákum áfram í sama félagi.

Einnig höfum við verið heppnir með leikmenn og náð á undanförnum árum að byggja hægt og rólega upp lið sem getur unnið þau bestu í deildinni.

Hvert er markmið liðsins í sumar?
Markmiðið er að komast í úrslitakeppnina og þaðan upp í 2. deild. Einnig viljum við halda áfram að byggja félagið upp í heild sinni, en síðasta vetur hóf körfuknattleiksdeild félagsins keppni og stóð sig með stakri prýði auk þess sem félagið sendi fjóra leikmenn á Íslandsmótið í borðtennis. Mestu máli skiptir þó að skemmta sér og koma íslenskri knattspyrnu á hærra plan.

Ykkur er spáð efsta sæti í A-riðli. Er sú spá raunhæf?
Miðað við það sem ég hef séð af öðrum liðum í riðlinum virðast flestir geta unnið flesta og þetta fer mjög fjörlega af stað. Við vorum klaufar að tapa gegn Ægi í 2. umferð en sömuleiðis hefur nokkur heppni dottið með okkur líka en það er góður stígandi í liðinu og það er klárt að við erum með nógu sterkt lið til að vinna þetta ef allt gengur upp. KFS hefur farið hægt af stað en eru með mjög gott lið, ásamt því sem Berserkir og Ægismenn líta vel út.

Er einhver leikmaður úr ykkar liði sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Ég hef verið duglegur í vínarbrauðunum og kem sterklega til greina, en annars lofar Björn Ívar Björnsson mjög góðu, en hann er að snúa aftur eftir langvarandi meiðsli. Einnig verður spennandi að sjá Erik Chaillot snúa aftur frá dvöl sinni í Ástralíu, þar sem hann hefur leikið knattspyrnu í vetur, en hann stóð sig afar vel á síðasta tímabili.

Páll Kristjánsson hefur svo snúið aftur eftir nokkra fjarveru, m.a. eftir að andlitið á honum brotnaði og verður mikill liðsstyrkur ef hann nær að halda sér heilum í vinstri bakverðinum.

Hvaða lið telur þú að sé sigurstranglegast í 3. deildinni í sumar?
Ásamt okkur líst mér vel á Ýmismenn. Vestfirðingar hafa verið óheppnir undanfarin ár og hljóta að koma sterklega til greina sem og Sindramenn.

Eitthvað að lokum?
Íslendingar eru ætíð velkomnir á iðagrænan KV-Park við Frostaskjól þar sem er alltaf gott veður og fallegt fólk.

Einnig minnum við á sölutjald félagsins í Austurstræt i á 17. júní, en vegna fjölda áskorana verður enn og aftur boðið upp á hina sívinsælu „KV Special“ pulsu.



Eldra úr liðnum hvað er að frétta?

1.deild:
KS/Leiftur(3.apríl)
Njarðvík (13.mars)
Selfoss (29.maí)
Stjarnan 10.júní)

2.deild:
Hamar (15.maí)
Höttur (29.apríl)
Hvöt (27.mars)
Reynir Sandgerði (23.maí)
Tindastóll (15.apríl)
Víðir Garði (23.maí)
Völsungur (6.mars)

3.deild:
Árborg (17.apríl)
Berserkir (8.apríl)
KB (13.maí)
KFR (24.apríl)
KFS (22.apríl)
Knattspyrnufélag Garðabæjar (19.mars)
Skallagrímur (20.maí)
Snæfell (5.júní)
Þróttur Vogum (6.maí)
Athugasemdir
banner