Hollenski framherjinn, Prince Rajcomar átti frábæran leik þegar Blikar unnu FH í gær 4-1. Prince skoraði tvö fyrstu mörk leiksins og fiskaði svo víti í leiknum sem Arnar Grétarsson skoraði úr.

Prince Racjomar leikmaður Breiðablik kom til félagsins fyrir síðustu leiktíð og spilaði vel síðasta sumar. Hann hóf atvinnumannaferil sinn með Fortuna Sittard í næstefstu deild í Hollandi og skoraði átta mörk í 50 leikjum fyrir félagið áður en hann gekk til liðs við FC Utrecht í efstu deild í Hollandi þar sem hann lék 20 leiki. Hann var síðan lánaður til Den Bosch þar sem hann lék tímabilið 2005/2006. Hann á að baki langan landsliðsferil með yngri landsliðum Hollands þar sem hann lék frá U-14 ára landsliðinu upp í U-20 ára. Þar lék hann með Ryan Babel leikmanni Liverpool og Royston Drenthe sem núna leikur með Real Madrid svo einhverjir séu nefndir. Í sumar hefur Prince skorað fimm mörk en á síðustu leiktíð skoraði hann sex mörk í deildinni.
,,Þetta var mjög góður leikur, liðið var að spila mjög vel. VIð vorum með mikið sjálfstraust og vorum að spila vel," sagði Prince í samtali við Fótbolta.net í dag og hann var ánægður með hvernig liðið spilaði í gær.
,,Ef fólk sá hvernig við vorum að skora þessi mörk þá var það eins og við lögðum upp með að þetta væri, við viljum sækja og það gekk allt eins og það átti að gera."
Allt liðið var að spila vel hjá Breiðablik í gær en Prince var fremstur á meðal jafningja, hann skapaði mikinn usla í vörn FH og skapaði fullt af færum fyrir liðsfélaga sína.
,,Allir voru að spila, ef þú leggur þig fram og taktíkin sem þjálfarinn leggur upp með virkar þá sérðu gæðin í liðinu og hvað við getum gert," sagði Prince sem var ánægður með mörkin sem hann skoraði.
,,Að sjálfsögðu er ég ánægður með að skora tvö mörk en ég er líka mjög ánægður fyrir liðið, því þessi þrjú stig voru mjög mikilvæg því ef við hefðum tapað þá hefðum við verið neðarlega en sigurinn færði okkar ofar í töfluna og nú er þetta í okkar höndum."
Í gær spiluðu þeir Prince og Marel Baldvinsson saman í fyrsta skipti í byrjunarliði liðsins í sumar.
,,Hann er mjög góður leikmaður, það er mjög gott að spila með svona góðum leikmanni við hliðina á sér," sagði Prince sem hefur skorað mikið í sumar en ekki spilað eins vel og hann getur.
,,Ég hef skorað fimm mörk, ég byrjaði vel á móti ÍA en svo komu tveir slakir leikir og svo hefur þetta verið á uppleið en í gær var þetta aðeins í annað skiptið sem ég var ánægður með frammistöðuna mína."
Blikum hefur vantað stöðuleika í sumar en liðið hefur unnið þrjá leiki í sumar en á eftir hverjum sigurleik hefur komið tap.
,,Ef maður horfir á sumarið þá byrjuðum við mjög vel á móti ÍA en svo komu leikir gegn Þrótti, Grindavík og Fjölni en það eru lið sem við áttum í vandræðum með þrátt fyrir sigur gegn Fjölni."
Blikarnir eru óútreiknanlegir, liðið getur unnið öll lið í deildinni en getur líka tapað fyrir öllum.
,,Það er vandamál með Breiðablik að við eigum í vandræðum með þessi lið, við höfum hæfileikana en enginn veit af hverju þetta er svona."
,,Við höfum sjálfstraust núna og verðum að halda áfram því þetta var besta frammistaðan hjá okkur í sumar," sagði Prince sem telur deildina sterkari en í fyrra.
,,Það geta allir unnið alla og það geta allir tapað fyrir öllum, maður sér að FH og Keflavík eru með mestan stöðuleika en maður sá það í gær að þessi lið getað tapað stigum," sagði Prince að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Sjá einnig:
Leikmaður 6.umferðar - Tommy Nielsen (FH)
Leikmaður 5.umferðar - Gunnleifur Gunnleifsson (HK)
Leikmaður 4.umferðar - Tomasz Stolpa (Grindavík)
Leikmaður 3.umferðar - Þórður Ingason (Fjölnir)
Leikmaður 2.umferðar - Pálmi Rafn Pálmason (Valur)
Leikmaður 1.umferðar - Tryggvi Guðmundsson (FH)
Athugasemdir