Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
   fim 26. júní 2008 20:39
Mist Rúnarsdóttir
Umfjöllun: Íslenska landsliðið rótburstaði Grikki
Byrjunarlið Íslands.
Byrjunarlið Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska liðið fagnar marki.
Íslenska liðið fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmfríður skorar þriðja mark sitt.
Hólmfríður skorar þriðja mark sitt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Katrín Ómarsdóttir þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn.
Katrín Ómarsdóttir þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stúkan var þéttsetin.
Stúkan var þéttsetin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland 7 - 0 Grikkland
1-0 Sara Björk Gunnarsdóttir
2-0 Hólmfríður Magnúsdóttir
3-0 Margrét Lára Viðarsdóttir
4-0 Hólmfríður Magnúsdóttir
5-0 Hólmfríður Magnúsdóttir
6-0 Margrét Lára Viðarsdóttir
7-0 Katrín Ómarsdóttir

Íslenska kvennalandsliðið lék í dag síðasta heimaleik sinn í undankeppni Evrópumótins. Það er skemmst frá því að segja að íslensku stúlkurnar fóru á kostum gegn slökum Grikkjum og unnu yfirburðasigur, 7-0.

Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti og geystist í sókn um leið og þýski dómarinn Anja Kunick flautaði til leiks. Fyrir leikinn hafði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, gefið það út að íslenska liðið myndi reyna að raða mörkum á það gríska þar sem markatala gæti skipt liðið miklu máli.

Áhorfendur þurftu ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu en það kom strax á 4. mínútu leiksins. Margrét Lára Viðarsdóttir stakk boltanum inn fyrir grísku vörnina þar sem Sara Björk Gunnarsdóttir tók við honum, lék á Ekaterini Falida í gríska markinu og setti boltann í markið.

Íslenska liðið hélt áfram að pressa og Sara Björk var nálægt því að skora aftur áður en Hólmfríður Magnúsdóttir kom Íslandi í 2-0. Markið kom á 13 mínútu leiksins en þá komst Margrét Lára upp að endalínu hægra megin og lagði boltann fyrir markið þar sem Hólmfríður var vel staðsett og setti boltann í netið.

Leikurinn í dag var leikur kattarins að músinni og íslenska liðið fékk fjöldan allan af færum. Gríska liðið átti sitt fyrsta markskot á 22 mínútu en það var slappt og fór yfir markið. Mínútu síðar átti Margrét Lára skot í stöng eftir frábært spil á vinstri vængnum og fyrirgjöf frá Ólínu G. Viðarsdóttur.

Skemmtilegt flæði einkenndi leik íslenska liðsins í leiknum en boltinn gekk vel á milli leikmanna sem voru voru að vinna vel fyrir hvora aðra. Íslenska liðið bryddaði upp á nýjungum í hornspyrnum og aukaspyrnum og skapaði það þónokkra hættu. Fyrst tók Edda Garðardóttir stutta hornspyrnu á Dóru Maríu Lárusdóttur sem lagði boltann út í skot fyrir Margréti Láru en skot hennar fór yfir. Stuttu síðar tók Margrét Lára aukaspyrnu stutt í fæturnar á Dóru Maríu sem lyfti boltanum skemmtilega inn í teig og á Hólmfríði sem hitti boltann illa og skaut framhjá.

Þriðja mark leiksins kom á eftir tæplega hálftímaleik og það skoraði Margrét Lára með laglegu vinstrifótarskoti úr teignum en boltinn flaug í fjærhornið. Íslenska liðið hélt bara áfram og áfram og hafði ótrúlega yfirburði á vellinum. Hálfleikstölur voru 3-0 en hefðu hæglega getað verið 10-0. Slíkir voru yfirburðir íslenska liðsins.

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri. Íslenska liðið byrjaði af miklum krafti. Eftir 5 mínútna leik í síðari hálfleik gerði Sigurður Ragnar breytingu á liði sínu en Katrín Ómarsdóttir kom inná miðjuna fyrir Dóru Stefánsdóttur.

Ekki þurfti að bíða lengi eftir marki frekar en í fyrri hálfleik en á 54. mínútu kom Hólmfríður Íslandi í 4-0. Dóra María Lárusdóttir átti frábæra fyrirgjöf utan af hægri kanti sem Hólmfríður stangaði í netið. Glæsilegt mark hjá íslenska liðinu.

Hólmfríður var aftur á ferðinni þremur mínútum síðar en þá fullkomnaði hún þrennuna. Markið kom eftir misskilning og arfaslaka vörn Grikkja en Hólmfríður var fyrst að átta sig þegar boltinn skoppaði í teignum og skallaði hann í netið.

Í kjölfarið var önnur breyting gerð á íslenska liðinu en Erla Steina Arnardóttir kom inná miðjuna fyrir Eddu Garðarsdóttur. Báðir varamennirnir, Erla Steina og Katrín áttu svo þátt í sjötta marki Íslands. Erla Steina sendi boltann á Dóru Maríu sem lagði boltann út í skot fyrir Katrínu sem hamraði hann viðstöðulaust í netið. Katrín hefur nú skorað í þremur landsleikjum í röð.

Sjöunda og síðasta mark Íslands skoraði Margrét Lára Viðarsdóttir af miklu harðfylgi eftir góðan einleik. Margrét Lára heldur áfram að bæta markamet íslenska landsliðsins en hún er nú komin með 42 mörk í 43 leikjum!

Greta Mjöll Samúelsdóttir kom inná fyrir Söru Björk þegar 16 mínútur voru eftir og íslenska liðið hélt áfram að sækja. Fleiri mörk voru þó ekki skoruð og lokatölur því 7-0.

Lið Grikklands var arfaslakt í dag en það verður ekki tekið af íslenska liðinu að það lék hreint frábærlega. Það spilar enginn betur en andstæðingurinn leyfir og gríska liðið fékk einfaldlega „breik“. Áhorfendur á Laugardalsvelli í dag voru 5323 og létu vel í sér heyra.



Ísland (4-5-1): Þóra Björg Helgadóttir (M), Ásta Árnadóttir, Katrín Jónsdóttir (F), Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir, Dóra María Lárusdóttir, Edda Garðarsdóttir (Erla Steina Arnardóttir 59), Dóra Stefánsdóttir (Katrín Ómarsdóttir 50), Hólmfríður Magnúsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir (Greta Mjöll Samúelsdóttir 74), Margrét Lára Viðarsdóttir.

Ónotaðir varamenn: Sif Atladóttir, Rakel Hönnudóttir, Sandra Sigurðardóttir (M), Embla Sigríður Grétarsdóttir.

Grikkland(4-5-1): Ekaterini Falida (M), Kyriaki Kynosidou, Eleni Kakampouki, Maria Kavroeidaki (Aristea Theodoraki, 37), Anthoula Arvanitaki, Anastasia Papadopoulou (Eftychia Michailidov 90), Kalomoira Kontomichi, Magdalini Tsoukala, Panagiota Chalkiadaki (Alkaterini Tsiapanou 61), Eirini Vlasiadou, Maria Adamaki.

Ónotaðir varamenn: Anastasia Velli, Dimitra Lymperidou Velisari, Valeria Filippidou, Melina Kotta.

Gul spjöld: Engin.

Maður leiksins: Hólmfríður Magnúsdóttir
Dómari: Anja Kunick, Þýskalandi
Áhorfendur: 5323
Aðstæður: Frábærar. Sólskin og létt gola.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner