Arnar Grétarsson fyrirliði Breiðabliks er leikmaður 9. umferðar Landsbankadeildar karla hér á Fótbolta.net. Arnar fór fyrir sínum mönnum sem náðu að vinna upp tveggja marka forskot Keflavíkur og jafnaði Arnar leikinn með frábæru marki.

Arnar Grétarsson gekk í raðir Breiðabliks um mitt sumarið 2006 eftir að hafa verið hjá Lokeren í nokkur ár. Hann var svo gerður að fyrirliða sumarið 2007 og hefur verið einn albesti miðjumaður landsins frá því að hann kom til landsins. Arnar hefur spilað 72 leiki með landsliði Íslands og í þeim hefur hann skorað tvö mörk. Arnar fór frá Breiðablik árið 1996 og gekk þá til liðs við Leiftur á Ólafsfirði sem hann lék með sumarið 1997. Þaðan fór hann svo til AEK í Grikklandi þar sem hann lék í þrjú ár. Árið 2000 gekk hann svo í raðir Lokeren í Belgíu þar sem hann var til ársins 2006.
,,Ég var ánægður með spilamennskuna, það voru ansi margir ungir strákar sem voru að spila, Finnur (Orri Margeirsson) var að spila, Arnór var og hann er ekki mjög gamall en er samt einn af lykilmönnum í liðinu svo eru með Kidda litla vinstra meginn, Jóa og Gumma og svo koma Haukur og Alfreð inná, það sýnir bara hvað við eigu marga unga og efnilega leikmenn."
,,Það er í raun ekki hægt að taka neinn út úr liðinu, mér fannst allir vera að standa sig frábærlega og það er svolítið grátlegt að taka ekki þrjú stigin."
Blikar voru tveimur mörkum undir og náðu að jafna leikinn og Arnar segir það sýna góðan karakter.
,,Það er klárlega sterkur karakter að koma til baka og það hefði verið frábært hefði Jói náð að setja´nn þarna í lokinn en á móti kemur þá hefðum við getað fengið kjaftshögg þarna í lokinn. Það má segja að þetta jafntefli hafi verið sanngjarnt þar sem að þeir voru komnir 2-0 yfir en í heildina fannst mér við vera sterkari aðilinn."
Eftir annað mark Keflavíkur refi Arnar sína menn áfram með góðum árangri.
,,Þeir fá svolítið af færum í byrjun seinni hálfleiks, við vorum hálf dofnir þarna fyrstu fimm til tíu mínúturnar. Eftir það náum við að rífa okkur upp og náum að minnka muninn í 2-1 fljótlega eftir að þeir skora annað markið, svo er bara pressa á þá í langan þangað til að ég jafna leikinn og eftir það jafnast þetta þrátt fyrir að við hefðum sótt meira þá voru þeir að koma hratt á okkur. Ég held að þetta hafi verið mjög skemmtilegur leikur á að horfa."
Leikur Blika í gær minnti margan á það hvernig liðið spilaði í fyrra, liðið lét boltann ganga og sótti mikið.
,,Sér í lagi í fyrra þá vorum við að spila skemmtilegan bolta í fyrra og við höfum sýnt það annað slagið í sumar. Ég held að þetta hafi verið okkar besti leikur í sumar þar sem spilið var mjög gott frá byrjun til enda, sem er mjög jákvætt."
Arnar vonast eftir því að Marel Baldvinsson fari að skora en hann hefur ekki enn náð að skora í sumar.
,,Eina sem maður bíður eftir er að fleiri menn fari að pota inn mörkum, það gæti orðið gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að fá Marel í gang, leið og hann potar fyrsta markinu þá held ég að hann sé kominn af stað og það gæti gert gæfumuninn. Svo eins og Jói, hann er búinn að vera mikið í færum og spila vel fyrir liðið en það eina sem vantar er að skora," sagði Arnar sem segir það muninn á Blikum og toppliðunum,
,,Það er kannski munurinn á okkur og t.d FH og Keflavík og fleiri lið þar hafa nokkrir leikmenn verið að skora sem skiptir miklu máli. Til dæmis FH, ég veit ekki hvað margir hafa verið að pota inn hjá þeim sem skiptir töluveðru máli, meðan kannski einn eða tveir sem eru að skora langflest mörkin þá verður það miklu erfiðara fyrir liðið að vera í toppbaráttu nema að þessir einstaklingar séu að skora það mikið eins og er að gerast hjá KR þar sem Björgólfur er að skora og skora, það er ótrúlegt hvað þeirra lið hrekkur í gang og hvað það getur gert. Áður var markaþurrð hjá þeim en svo hrekkur einn í gang og þá eru þeir búnir að vinna fjóra leiki."
Í gær komu sex leikmenn úr 2. flokki Breiðabliks við sögu, fjórir voru í byrjunarliðinu og tveir komu inná en fjórir lykilmenn liðsins voru fjarverandi vegna leikbanna og meiðsla.
,,Ég hef nú alltaf haft gríðarlega trú á þessum ungu strákum og mér finnst framtíðin í Kópavoginum mjög björt, ég er mjög hrifinn af mörgum þessum strákum. Það er gríðarlegur karakter í þeim og þeir eru góðir í fótbolta, það er ekki bara kraftur, það er líka hugsun og þeir eru sterkir á boltann, ég hafði ekki miklar áhyggjur fyrir þennan leik. Auðvitað vill maður alltaf vera með sitt sterkasta lið það gefur augaleið en þegar menn fá sénsinn þá er það oft þannig að þeir gefa aðeins extra í þetta og það getur oft komið liðinu til góða."
Arnar hefur í undanförnum leikjum verið að spila með Guðmundi Kristjánssyni á miðju liðsins en Guðmundur var á láni hjá Haukum í byrjun sumars en hefur verið að koma sterkur inn.
,,Ég er mjög hrifinn af Guðmundi, hann er leikmaður sem á mikla framtíð fyrir sér. Líkamlega sterkur, skynsamur, duglegur og með mikla spyrnutækni. Ég held að hann eigi eftir að ná mjög langt og klárlega gerir hann mann miklu betri því hann er það öflugur og vinnur það mikið fyrir liðið að það er gríðarlega gott að spila hliðina á svona sterkum strák."
Arnar lagði upp fyrra marki Blika þegar hann lék á þrjá varnarmen Keflavíkur og gaf boltann fyrir þar sem Nenad Zivanovic náði að pota honum yfir línuna.
,,Það gerast ótrúlegir hlutir stundum, þeir hljóta að hafa verið óvenju hægir þarna sem ég fór framhjá. Þetta gekk upp, líka þegar menn eru komnir inn í teiginn og annað þá vilja menn ekki að taka neina sénsa og svo var flott að Nenad (Zivanovic) var þarna eins og hrægammur og náði pota honum inn, þetta sýnir ekta markaskorara sem þefa svona upp."
,,Hann er búinn að skora fjögur mörk fyrir okkur og er annar markahæstur á eftir Prince þannig að það er mikill styrkur, þetta er svona týpískur markaskorari. Hann hefur oft á tíðum verið að skora frekar úr erfiðu færunum heldur en svona. Þetta var kærkomið fyrir okkur, við þurftum líka að setja fljótt á þá eftir að þeir að skoruðu annað markið."
Markið sem Arnar skoraði var af dýrari gerð og líklega eitt af mörkum sumarsins.
,,Maður hittir hann nú ekki oft svona, maður sá það í sjónvarpinu að þá er þetta af löngu færi. Ég var að vísu heppinn að ég náði að “Kontra” boltann því ná nær maður meiri ferð á hann, ég hitti hann alveg frábærlega," sagði Arnar sem segist skora meira á æfingum en í leikjum.
,,Ég skori nú oft á æfingum en kannski ekki svona. Maður hefur nú gert þetta áður erlendis en þetta er eitthvað sem maður getur talið á annarri hendi, þegar maður skorar svona mörk. Það var gaman að horfa á eftir boltanum, því fljótlega eftir að maður hitti hann þá sá maður í hvað stefndi."
Blikar eru með 12 stig eftir níu leiki, liðið hefur unnið þrjá leiki, gert þrjú jafntefli og tapað þremur og eru í sjöunda sæti.
,,Ég er náttúrulega óhress með byrjunina, það vantar stöðuleika í okkar, þetta er upp og niður og við höfum ekki verið að ná okkar leik eins og við gerðum í gær. Alltof fáir leikir þar sem við erum að ná að spila fótbolta en í raun og veru er niðurstaða stigana er kannski ekki sanngjörn, það voru þarna leikir sem við áttum að fá meira út úr."
,,Við erum ekki að horfa á efri hlutann núna, núna er bara næsta skref að komast áfram í bikarnum gegn Val, svo er það bara að taka einn leik fyrir í einu í deildinni og koma okkur upp í miðjuna og ef það gengur þá er hægt að skoða hvort við getum komið okkur í efri hlutann, það er nú ekki mörg stig í þriðja sætið en samt nokkur stig. Við þurfum að fara að vinna leiki og tala nú ekki um ef við myndum ná að vinna tvo leiki í röð en tölfræðin er ekki með okkur þar," sagði hinn afar geðþekki Arnar Grétarsson að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Sjá einnig:
Leikmaður 8.umferðar - Guðjón Baldvinsson (KR)
Leikmaður 7.umferðar - Prince Rajcomar (Breiðablik)
Leikmaður 6.umferðar - Tommy Nielsen (FH)
Leikmaður 5.umferðar - Gunnleifur Gunnleifsson (HK)
Leikmaður 4.umferðar - Tomasz Stolpa (Grindavík)
Leikmaður 3.umferðar - Þórður Ingason (Fjölnir)
Leikmaður 2.umferðar - Pálmi Rafn Pálmason (Valur)
Leikmaður 1.umferðar - Tryggvi Guðmundsson (FH)
Athugasemdir