þri 08. júlí 2008 16:15
Magnús Már Einarsson
Landsbankadeild: Leikmaður 10.umferðar - Ólafur Páll (Fjölnir)
Ólafur Páll fagnar marki ásamt liðsfélögum sínum í gær.
Ólafur Páll fagnar marki ásamt liðsfélögum sínum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M. Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M. Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M. Einarsson
Ólafur Páll Snorrason fór á kostum þegar að Fjölnir burstaði HK 6-1 í Landsbankadeild karla í gærkvöldi. Ólafur skoraði fyrsta markði og lagði upp fjögur önnur en hann hlýtur nafnbótina leikmaður tíundu umferðar hér á Fótbolta.net.

Ólafur Páll Snorrason
Ólafur Páll Snorrason er uppalinn hjá Fjölni en hann fór árið 1998 í Val. Þessi 26 ára gamli leikmaður fór haustið 1998 í Bolton og var þar til sumarsins 2001. Þá spilaði hann með Fjölni og síðan Stjörnunni áður en að Fylkir fékk hann í sínar raðir fyrir tímabilið 2003. Ólafur fór í FH árið 2005 en í fyrra var hann í láni hjá Fjölni hluta tímabilsins. Í vetur samdi hann svo við Fjölnismenn. Ólafur Páll hefur leikið fyrir öll yngri landslið Íslendinga, þar af 25 leiki með U-17 ára landsliðinu á sínum tíma en hann hefur skorað fimm mörk í 59 leikjum í efstu deild.
,,Maður reynir alltaf sitt besta og það gekk hörkuvel í gær. Ég get ekki annað en verið mjög sáttur með frammistöðu mína og liðsins í heild," sagði Ólafur Páll við Fótbolta.net í dag.

Fjölnismenn eru nýliðar í Landsbankadeildinni og því er þetta stærsti sigur liðsins í efstu deild frá upphafi. Ólafur Páll bjóst ekki við þessari markasúpu fyrir leikinn í gær.

,,Ég verð að vera hreinskilinn og ég bjóst ekki við því og ekki að við myndum skora sex mörk í einum leik í deildinni yfir höfuð, allavega ekki í sumar."

,,Við erum með hörkusóknarlið og að mínu mati eitt af topp 3-4 sóknarliðum í deildinni. Það sýndi sig bara í gær að þeir áttu engin svör við sóknarleiknum okkar."


,,Stemningin í kringum Fjölnisliðið er einstök held ég, hjá þjálfurum, stuðningsmönnum og stjórnarmönnum. Öll umgjörð í Grafarvoginum er frábær og það skilar sér bara inn á völlinn til leikmanna."

Fjölnir er sem stendur í fjórða sæti, með átján stig líkt og KR sem er í þriðja sætinu.

,,Við bjuggumst kannski ekki við því að vera í topp 3-4 þegar að mótið er að verða hálfnað."

,,Liðið í heild sinni er að mínu mati hörkugott og í hreinskilni kemur þetta mér ekki á óvart. Við erum að spila mjög vel, það eru allir að spila á getu og sýna hvað þeir geta og þetta kemur mér ekki mikið á óvart,"
sagði Ólafur Páll sem ber mikið lof á Ásmund Arnarsson þjálfara Fjölnis.

,,Þetta er einn af betri þjálfurum sem ég hef haft og einn af betri þjálfurum á landinu í dag. Hann er svakalega klókur og veit hvað hann getur fengið út úr leikmönnunum sínum þannig að það er allt að smella í Grafarvoginum."

Þrátt fyrir gott gengi hingað til er Ólafur Páll niðri á jörðinni og segir markmiðið ennþá vera að falla ekki.

,,Við förum varlega í yfirlýsingarnar. Við ætlum ekki að enda í ellefta eða tólfta sæti. Það er bara markmiðið, að lenda ekki þar."

Næsti leikur Fjölnis er á heimavelli gegn ÍA næstkomandi sunnudagskvöld.

,,Það verður hörkuleikur. Allir þeirra leikmenn sem voru í banni síðast eru komnir inn. Þeir eru í svipaðri stöðu og HK var kannski í fyrir leikinn gegn okkur í gær. Þeir eru með bakið upp við vegg og verða eiginlega að vinna."

,,Þetta er kannski leikur sem þeir horfa á og telja sig eiga að vinna, Fjölnir, litla liðið úr Grafarvogi. Við reynum bara hvað við geutm til að slá þá út af laginu,"
sagði Ólafur Páll að lokum við Fótbolta.net.

Sjá einnig:
Leikmaður 8.umferðar - Guðjón Baldvinsson (KR)
Leikmaður 7.umferðar - Prince Rajcomar (Breiðablik)
Leikmaður 6.umferðar - Tommy Nielsen (FH)
Leikmaður 5.umferðar - Gunnleifur Gunnleifsson (HK)
Leikmaður 4.umferðar - Tomasz Stolpa (Grindavík)
Leikmaður 3.umferðar - Þórður Ingason (Fjölnir)
Leikmaður 2.umferðar - Pálmi Rafn Pálmason (Valur)
Leikmaður 1.umferðar - Tryggvi Guðmundsson (FH)
Athugasemdir
banner
banner