Eins og áður hefur komið fram á Fótbolta.net er norska úrvalsdeildarliðið Stabæk með Pálma Rafn Pálmason, leikmann Vals, í sigtinu og hafa útsendarar frá félaginu fylgst grannt með honum í sumar.
,,Pálmi er áhugaverður leikmaður og það er hugsanlegt að við munum reyna að fá hann hingað til Stabæk," sagði Tom Schelvan, yfirmaður íþróttamála hjá Stabæk, í samtali við Fótbolta.net í dag en hann fylgdist m.a. með Pálma í leik með Val fyrr í sumar og þótti mikið til hans koma.
Stabæk er á höttunum eftir miðvallarleikmönnum og er Pálmi Rafn einn nokkurra sem félagið er með undir smásjánni.
Schelvan lagði á það áherslu að engar viðræður hafi farið fram við Val og að enn sé langur vegur í að Stabæk geri tilboð í Pálma Rafn, verði það raunin á annað borð.
,,Við höfum ekki átt í neinum viðræðum við forráðamenn Vals því málið er einfaldlega ekki komið á það stig. Ætlunin er að skoða Pálma nánar áður en við tökum ákvörðun um framhaldið."
Eins og Fótbolti.net greindi frá fyrr í dag fylgdust útsendarar frá belgíska stórliðinu Anderlecht með Pálma Rafni í leik Vals gegn Fram á sunnudaginn.
Schelvan segir að þrátt fyrir áhuga annarra liða á Húsvíkingnum muni Stabæk eftir sem áður fara rólega í sakirnar.
Þess má geta að forráðamenn Stabæk hafa að undanförnu átt í viðræðum við Bröndby um kaup á danska miðjumanninum Martin Retov.
Retov gekk hins vegar í raðir þýska liðsins Hansa Rostock í gær og aukast því líkurnar nokkuð á því að Stabæk leiti til Pálma Rafns.
Útsendarar frá sænska meistaraliðinu IFK Gautaborg fylgdust einnig með Pálma Rafni á sunnudaginn en Håkan Mild, yfirmaður íþróttamála hjá félaginu, neitaði að tjá sig um málið í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir