Hólmar Örn Rúnarsson miðvallarleikmaður Breiðabliks er leikmaður 11. umferðar Landsbankadeildar karla hér á Fótbolta.net. Hólmar Örn átti frábæran leik með Keflavík gegn Fram á Laugardalsvelli en 2-0 sigur Keflavíkur í leiknum tryggði þeim toppsætið í deildinni nú þegar mótið er hálfnað.

Hólmar Örn Rúnarsson er 26 ára gamall. Hann hóf feril sinn hjá Keflavík og hefur leikið 95 leiki í efstu deild hér á landi og skorað í þeim 12 mörk. Hann gekk í raðir Silkeborg í Danmörku 31. ágúst 2006 en sneri aftur heim í Keflavík degi áður en Landsbankadeildin hófst í maí. Hann hefur leikið níu leiki með liðinu í deildinni í sumar og skorað í þeim tvö mörk..
Næsti leikur Keflavíkur í deildinni er gegn Val en liðin mættust einnig í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar í maí og þar hafði Keflavík stórsigur, 5-3 eftir að hafa komist í 5-1. Þrátt fyrir það á Hólmar von á stórleik á laugardaginn klukkan 14:00 á Vodafonevellinum á Hlíðarenda.
,,Þetta verður hörkuslagur. Það er mikið í húfi fyrir bæði lið, við getum losað okkur vel frá Val með sigri og þeir geta komist nær okkur ef þeir taka þrjú stig," sagði Hólmar. ,, Mér finnst þetta vera stórleikur. Þetta var ekkert létt í fyrstu umferðinni, við þurftum að hafa fyrir því en náðum að nýta færin vel. Valur var ekkert verri aðilinn og voru meira með boltann, en við náðum að nýta færin okkar vel í þeim leik. Ég vona að við náum að halda áfram að skora mörk og hafa gaman. Valsarar eru með hörkulið og eru á uppleið núna."
Hólmar kom inn í deildina korteri fyrir mót í maí eftir að hafa leikið í Danmörku frá í ágúst 2006. Hvernig finnst honum deildin núna þegar hann er kominn heim að nýju? ,,Mér finnst deildin nokkuð sterk. Ég held hún sé svipuð og ég bjóst við. Það er mikið af flottum leikmönnum hérna heima og þetta er ekkert grín."
Pumasveitin, stuðningsmannahópur Keflavíkur hefur alltaf vakið mikla athygli og fékk stuðningsmannaverðlaunin í maí. Hólmar segir hópinn mjög mikilvægan fyrir liðið.
,,Það er alltaf að bætast jafnt og þétt í Puma sveitina og þeir eru alltaf að reyna að fá þennan almenna stuðningsmann með sér í að syngja og tralla. Þeir eru búnir að standa sig frábærlega vel og eru gífurlega mikilvægir fyrir okkur. Það er vonandi að það haldi áfam að fjölga með árunum í hópnum og týnast inn fleiri og fleiri."
Orðrómur er uppi um að Keflavík muni bæta við sig einum leikmanni í félagaskiptaglugganum, Jóhanni Birni Guðmundssyni leikmanni Gais í Svíþjóð. Hólmar er hrifinn af þeim hugmyndum.
,,Það yrði stórkostlegt að fá Jóa til baka. Ég veit ekki hvernig þau mál standa en það yrði klárlega mjög sterkt fyrir okkur að fá hann. Samkeppni er af hinu góða og ég held að það sé ekkert lið hér heima sem myndi hafna því að fá mann eins og Jóhann Birni."
Keflavík er með sigrinum á Fram komið í toppsæti deildarinnar með þriggja stiga forskot á FH sem er í öðru sætinu. ,,Það vilja öll góð lið stefna á að vera á toppnum og við erum engin undantekning á því, það er gaman að vera þarna," sagði Hólmar Örn Rúnarsson að lokum.
Sjá einnig:
Leikmaður 10.umferðar - Ólafur Páll Snorrason (Fjölnir)
Leikmaður 9.umferðar - Arnar Grétarsson (Breiðablik)
Leikmaður 8.umferðar - Guðjón Baldvinsson (KR)
Leikmaður 7.umferðar - Prince Rajcomar (Breiðablik)
Leikmaður 6.umferðar - Tommy Nielsen (FH)
Leikmaður 5.umferðar - Gunnleifur Gunnleifsson (HK)
Leikmaður 4.umferðar - Tomasz Stolpa (Grindavík)
Leikmaður 3.umferðar - Þórður Ingason (Fjölnir)
Leikmaður 2.umferðar - Pálmi Rafn Pálmason (Valur)
Leikmaður 1.umferðar - Tryggvi Guðmundsson (FH)
Athugasemdir