Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fótbolta.net munu Skagamenn væntanlega tilkynna í fyrramálið að Guðjón Þórðarson er hættur þjálfun liðsins og allt bendir til þess að tvíburabræðurnir Arnar og Bjarki Gunnlaugsson taki við þjálfun liðsins.
Arnar lék með FH í 4-0 sigri á HK í Landsbankadeildinni í kvöld en Bjarki sem hefur almennt verið í leikmannahópnum hjá FH var ekki í honum að þessu sinni. Bjarki var samkvæmt heimildum Fótbolta.net í Kópavoginum og sá ÍA steinliggja 6-1 gegn Breiðablik.
Guðjón Þórðarson sagði í samtali við fjölmiðla eftir tapið að hann ætlaði ekki að segja starfi sínu lausu. ,,Það er ekki í mínu eðli að gefast upp og hefur aldrei verið. Það er langt síðan ákveðnir aðilar fóru að tala um að víkja mér úr starfi en lausnirnar fela í því að vinna og leita lausna," sagði hann í kvöld en nú er ljóst samkvæmt heimildum Fótbolta.net að hann hættir með liðið og var tilkynnt um það seint í kvöld af félaginu.
Þá má búast við því að Bjarni Guðjónsson sonur Guðjóns sé einnig á förum frá félaginu en tilboð hafa borist í hann innanlands og líklegt að hann fari annað áður en félagaskiptaglugginn lokar 31. júlí næstkomandi.
ÍA er í næst neðsta sæti Landsbankadeildarinnar með 7 stig úr tólf leikjum, hafa aðeins unnið einn af leikjum sínum, gert fjögur jafntefli og tapað sjö leikjum.
Gísli Gíslason formaður rekstrarfélags meistara- og 2. flokks ÍA sagði seint í kvöld við Fótbolta.net að engin tíðindi væru af þjálfaramálum félagsins að sinni er eftir því var leitað.
Arnar og Bjarki tóku við þjálfun ÍA á miðju tímabili 2006 er Ólafur Þórðarson hætti þjálfun liðsins. Undir stjórn þeirra þótti liðið spila skemmtilegan sóknarbolta, gengi liðsins snerist við og eftir að hafa verið í basli fram að komu þeirra bjargaði liðið sæti sínu í deildinni, endaði í 6. sæti með 22 stig.
Að tímabilinu loknu var þeim tilkynnt að starfskrafta þeirra yrði ekki óskað áfram og Guðjón Þórðarson tæki við. Arnar og Bjarki gengu þá í raðir FH þar sem þeir hafa verið sem leikmenn þar til núna þegar þeir fara væntanlega til ÍA.
Athugasemdir