
Elfar Árni Aðalsteinsson, markaskorari Völsungs, með boltann í leiknum í kvöld en hér er hann við það að sleppa í gegn.
Tveir leikir fóru fram í 2. deild karla í kvöld þar sem topplið ÍR heldur uppteknum hætti og sótti 3 stig. Í þetta sinn sóttu þeir þau á Húsavík og unnu 1-4 sigur á Völsungi. Í hinum leiknum vann Hvöt lið Hamars 2-0. Kíkjum á umfjallanir um leiki kvöldsins.
Völsungur 1-4 ÍR
0-1 Karl Brynjar Björnsson
0-2 Tómas Agnarsson
1-2 Elfar Árni Aðalsteinsson
1-3 Árni Freyr Guðnason
1-4 Árni Freyr Guðnason
Rautt spjald: Sreten Djurovic (Völsungur) og Árni Freyr Guðnason (ÍR)
Á fallegu sumarkvöldi þar sem sólskinið lék við gesti og leikmenn á Húsavíkurvelli, mættust Völsungur og ÍR.
Heimamenn mættu ákveðnir og grimmir til leiks, staðráðnir í að sækja þrjú nauðsynleg stig í baráttunni um að lyfta sér ofar á töfluna. Friðrik Mar Kristjánsson átti fínt skot rétt utan vítateigs framhjá ÍR markinu strax á 3.mínútu og fljótlega eftir það skaut Aron Bjarki Jósepsson framhjá eftir hornspyrnu heimamanna. Heimamenn pressuðu hátt og ætluðu sér greinilega að komast yfir í leiknum.
Elías Ingi Árnason fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Völsunga á 15.mínútu og snéri af sér varnarmann áður en hann lék laglega á tvo aðra og skaut en Aron Bjarki kastaði sér fyrir og varði boltann vel með fótunum. Völsungar brunuðu upp í skyndisókn þar sem Elfar Árni Aðalsteinsson átti fast skot sem Ólafur Þór Gunnarsson, markvörður ÍR, varði vel.
Aðeins tveimur mínútum síðar fengu gestirnir aukaspyrnu út á kanti. Guðfinnur Þórir Ómarsson átti flotta spyrnu á fjær þar sem varnarmaður ÍR-inga stóð einn og óvaldaður í dauðafæri og skallaði framhjá. Virkilega illa klárað.
Fyrsta mark leiksins leit svo dagsins ljós á 29.mínútu. Karl Brynjar Björnsson fékk þá boltann og sneri baki í markið. Hann lék á varnarmann Völsungs og var þá kominn einn í gegn og skoraði á nærstöngina. Markið sló Völsunga svolítið út af laginu og aðeins tveimur mínútum síðar var staðan orðin 0-2. Björn Hákon Sveinsson markmaður var þá sakaður um að hafa handleikið boltann utan teigs en hann vildi meina að boltinn hefði verið á línunni. Úr aukaspyrnunni sem gestirnir fengu skoraði svo Tómas Agnarsson.
Þá var komið að heimamönnum að girða sig í brók og spýta allhressilega í lófana. Þeir spiluðu stutt og hratt á milli sín og héldu boltanum vel og á 34.mínútu uppskáru þeir. Hallgrímur Mar Steingrímsson átti þá hnitmiðaða stungusendingu í hlaupið hjá Elfari Árna sem tók vel við boltanum, stakk Baldvin Jón Hallgrímsson af og renndi boltanum snyrtilega framhjá Ólafi Þór. Baldvin Jón kvartaði sáran við aðstoðardómarann um að þetta væri rangstaða en Eðvarð Eðvarsson haggaðist ekki og staðan 1-2 og leikurinn galopinn.
Húsvíkingar héldu áfram að pressa og virtust vaknaðir. Á 45.mínútu kemur hár bolti inn fyrir varnarlínu gestanna og þar er mættur títtnefndur Elfar Árni. Hann tók snyrtilega við boltanum og var kominn í gegn áður en hann var tekinn niður af varnarmanni rétt við vítateigslínuna. Klár aukaspyrna og rautt spjald þar sem varnarmaðurinn var aftastur en ekkert heyrðist í flautunni og leikurinn hélt áfram. Stuttu síðar var flautað til hálfleiks og mátti sjá reiða Völsunga ganga til búningsherbergja.
Seinni hálfleikurinn byrjaði vel og var mikil barátta um alla bolta. Á 51.mínútu veitti slakur dómari leiksins svo Sreten Djurovic rauða spjaldið. Meint sólatækling var orsökin en undirritaður sá atvikið ekki nógu vel. Völsungar mótmæltu dómnum harðlega og fannst hann of strangur en Bjarna dómara var ekki haggað. Í stað þess að gefast upp unnu Völsungar þó boltann strax og Elfar Árni átti hörkuskot af löngu færi sem Ólafur gerði vel í að verja í horn.
Á 59.mínútu sluppu gestirnir í gegn og gerði Björn Hákon virkilega vel í því að verja fínt skot þeirra. Í næstu sókn á eftir fær Björn Hákon boltann til baka og svo virðist sem enginn hætta sé á ferðum þótt Elías Ingi mæti í pressu. Lélegt útspark Björns fer þó ekki lengra en í fæturna á Guðfinn Þóri sem staddur er við vítateiginn og reynir að leika á Björn. Björn ver boltann út þar sem Árni Freyr Guðnason er mættur og skorar örugglega. Köld vatnsgusa framan í sprækt Völsungsliðið og staðan orðin 1-3.
Manni færri gerðu Völsungar þó allt sem í þeirra valdi stóð til þess að koma sér aftur í leikinn. Á 65.mínútu kemur hár bolti fram völlinn þar sem að Bjarki Baldvinsson teygir laglega alla sína sentimetra og gnæfir yfir Baldvin Jón Hallgrímsson, skallar boltann áfram inn í vítateig til þess eins að hann stoppar á hendi varnarmanns ÍR-inga. Hróp og köll og org virkuðu ekkert á Bjarna dómara sem dæmdi ekkert.
Hiti var farinn að færast bæði í leikmenn og áhorfendur og dómarinn var farinn að missa tökin á leiknum. Hann veifaði þó nokkrum sinnum gula spjaldinu og í mörgum tilvikum við, að sem virtist, litlar sakir. Á 79.mínútu kláruðu ÍR-ingar leikinn svo endanlega. Árni Freyr tók stutta hornspyrnu og fékk boltann aftur. Hann lét vaða í fast skot utan af kantinum sem endaði í markvinklinum fjær. Virkilega fallegt mark sem hann mun eflaust muna lengi eftir.
Eftir markið tók við mikil miðjubarátta og enn ætluðu heimamenn ekki að gefast upp. Engin sérstök færi sköpuðust þó en á 93.mínútu fékk Árni Freyr sitt seinna gula spjald, að því er virtist fyrir kjaft, og þar með það rauða. Sveinbjörn Már tók þá aukaspyrnu fyrir Völsung á fjærstöngina þar sem Aðalsteinn Jóhann mætti og skallaði en Ólafur Þór varði glæsilega. Leikurinn fjaraði svo út og lokaflautið gall.
Gaman var að sjá baráttuna sem einkenndi heimamenn. Þeir gáfu allt í leikinn og þótt að uppskeran hafi verið rýr þá gáfust þeir aldrei upp þótt mætt hefðu ofjörlum sínum. Bæði liðin eru vel spilandi og það sést alveg greinilega á spilanda ÍR-liðsins hvers vegna þeir eru verðskuldað og taplausir í efsta sætinu. Lifandi og fjörugur leikur að baki.
Fótbolti.net, Húsavík - Ingvar Björn Guðlaugsson.
Hvöt 2-0 Hamar
1-0 Óskar Snær Vignisson ('21)
2-0 Trausti Eiríksson ('39)
Hvöt tóku á móti Hamarsmönnum frá Hveragerði á Blönduósi í dag og mátti búast við hörkuleik þar sem stutt er á milli þessara liða i deildinni.
Hamarsmenn byrjuðu betur og uppskáru vítaspyrnu á 10. minútu þegar Milan Djurovic slapp i gegn og virtist felldur. Heimamenn voru mjög ósáttir með dóminn og uppskáru gult spjald fyrir mótmæli. Predrag Milosavljevic fór á punktinn en Nezir Ohran varði slaka spyrnu hans.
Eftir þetta tóku Hvatarmenn völdin a vellinum og uppskáru mark um miðjan fyrri hálfleik þegar Óskar Snær Vignisson slapp i gegnum vörnina og lagði boltann undir Hlyn Kárason i markinu.
Heimamenn héldu áfram að pressa og uppskáru annað mark þegar Trausti Eiríksson komst i gegnum vörn Hamarsmanna af harðfylgi og lagði boltann svo í fjærhornið. Staðan 2-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var rólegri og greinilegt að Hvatarmenn ætluðu að halda fengnum hlut. Mikið var um miðjuþóf og litið um marktækifæri.
Besta færi hálfleiksins fékk þó Bjarni Pálmason leikmaður Hvatar þegar hann slapp í gegn en sending hans á Edin Ganjac var misheppnuð og færið rann út i sandinn. Niðurstaðan 2-0 og sanngjarn sigur Hvatarmanna..
Athugasemdir