Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   lau 27. september 2008 20:26
Eva Björk Ægisdóttir
Umfjöllun: Kvennalandsliðið fer í umspil eftir tap í Frakklandi
Eva Björk Ægisdóttir skrifar frá Frakklandi
Mynd: Fótbolti.net - Egill Tómasson
Mynd: Fótbolti.net - Egill Tómasson
Mynd: Fótbolti.net - Egill Tómasson
Mynd: Fótbolti.net - Egill Tómasson
Frakkland 2-1 Ísland
1-0 Sandrine Soubeyrand, ´6
1-1 Katrín Jónsdóttir, ´48
2-1 Candie Herbert, ´50

Í dag mættust lið Frakklands og Íslands í úrslitaleik um að komast úrslitakeppni EM í Finnlandi á næsta ári. Íslendingar þurftu aðeins jafntefli til að komast áfram.

Liðið í dag er skipað sama byrjunarliði og í leiknum á móti Grikklandi sem var spilaður á Laugardalsvelli fimmtudaginn 26. júní síðastliðinn. Íslensku stúlkurnar spiluðu í hvítum búningum í dag þar sem búningar beggja liða eru afar áþekkir.

Leikurinn í dag byrjaði af fullum krafti. Franska liðið mætti greinilega ákveðið til leiks og var það á 6. mínútu að Elodie Thomis fékk góða sendingu inn fyrir og vann horn. Hornspyrna tekin og kýldi Þóra Helgadóttir boltanum frá marki og út á vinstri kant. Þaðan kom sending út beint á Sandrine Soubeyrand sem var algjörlega alein og ódekkuð og skoraði glæsilegt mark af 30 metra færi, óverjandi fyrir Þóru Helgadóttur markvörð, 1-0.

Á 11. mínútu fékk Candie Herbert glæsilega sendingu inn fyrir teig, engin rangstaða og vippar hún boltanum skemmtilega yfir opið markið.

Á 26. mínútu vann Hólmfríður Magnúsdóttir boltann skemmtilega, sendi slaka sendingu yfir á Margréti Láru Viðarsdóttur. Markmaðurinn var alveg úr sinni stöðu og hefði verið skemmtilegt að sjá Hólmfríði láta vaða á markið.

Á 36. mínútu vann Sara Gunnarsdóttir boltann, Hólmfríður Magnúsdóttir náði boltanum og á gott skot yfir markið. Frakkar snúa vörn í sókn og á Louisa Necib stórglæsilega sendingu frá vinstri kanti yfir á hægri til Elodie Thomis. Elodie Thomis sendir boltann fyrir og eftir nokkurn barning í vörn íslenska liðsins nær Þóra Helgadóttir að verja glæsilega.

1-0 fyrir Frakkland í hálfleik og sanngjörn úrslit miðað við leikinn í fyrrihálfleik. Íslensku stúlkurnar voru augljóslega mjög stressaðar í byrjun leiks og því var ljóst að leikmenn og þjálfarar þurftu að stappað stálinu í hvert annað. Það gerðu þau greinilega því íslensku stúlkurnar komu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik, höfðu trú á sér og börðust eins og ljón á vellinum um hvern einasta bolta.

Og það gerðu þær heldur betur og uppskáru glæsilegt mark eftir ljótt brot á Hólmfríði Magnúsdóttur. Hólmfríður sem fékk ekki góðar móttökur frá frönsku leikmönnunum í dag lá á vellinum í smá stund og þurfti aðhlynningu. Edda Garðarsdóttir stillti boltanum upp á meðan, tók svo glæsilega aukaspyrnu og kom Katrín Jónsdóttir á fullri ferð og hamraði boltann í stöngina og í netið með glæsilegu skallamarki, 1-1 og íslensku stúlkurnar komnar með farseðilinn á EM.

Ekki náðu þó íslensku stúlkurnar að fagna lengi því á 50. mínútu og tveim mínútum á eftir íslenska markinu skorar Candie Herbert eftir mikinn barning í íslensku vörninni með mikilli baráttu, 2-1 og Ísland komið í umspil.

Þrátt fyrir 2-1 tap gegn gríðarlega sterku frönsku liði í dag mega íslensku stúlkurnar vera stoltar af eigin árangri. Þær eru búnar að bæta sig með hverjum leik og verður gaman að fylgjast með þeim í komandi verkefnum.

Einnig var gaman að fylgjast með stuðningsmönnum íslenska landsliðsins og heyrðist vel í þeim allan leikinn. Þau voru búin að semja fullt af skemmtilegum hvatningarsöngvum og settu mjög skemmtilegan svip á stemninguna á Stade Henri-Desgrange leikvellinum í La Roche Sur Yon í Frakklandi.

Maður leiksins: Ólína G. Viðarsdóttir.
Áhorfendur: Um 3.000 þar af 100 Íslendingar
Gult spjald: Dóra Stefánsdóttir, ´60 og verður í leikbanni í fyrri leik í umspili.
Dómari: Dagmar Damkova, frá Tékklandi.
Aðstoðardómarar: Adriana Secova, frá Tékklandi og Stéphanie Frappart, frá Frakklandi.

Athugasemdir
banner
banner
banner