Martinelli til Sádi? - Brentford neitar að lækka sig - Alonso tilbúinn að selja - Elanga á leið til Newcastle
   sun 26. október 2008 08:26
Gunnar Gunnarsson
Chelsea - Liverpool:Liðin sem kunna ekki að tapa
uppgjör toppliðanna í ensku knattspyrnunni um helgina
Það verður sannkallaður risaslagur um helgina þegar Chelsea og Liverpool, toppliðin í ensku úrvalsdeildinni mætast á Stamford Bridge heimavelli þeirra bláklæddu. Bæði félög hafa verið algjörlega óstöðvandi í upphafi leiktíðarinnar og ekki tapað leik hvorki í deildarkeppninni heima fyrir né í Meistaradeild Evrópu.

Liðin mættust síðast í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í apríl og þar höfðu leikmenn Chelsea betur eftir hatramma baráttu. Fyrri leikur liðanna á Anfield lauk með 1-1 jafntefli eftir skelfilegt sjálfsmark Norðmannsins, John Arne Riise á loka andartökum leiksins.

Síðari leikurinn á Stamford Bridge fór einnig 1-1 og því þurfti að grípa til framlengingar en þar höfðu hinir bláklæddu sigur eftir vítaspyrnu frá Frank Lampard og Didier Drogba bætti öðru marki við skömmu síðar. Ryan Babel minnkaði muninn í 3-2 en það dugði skammt.

Chelsea er á ótrúlegri siglingu þessa dagana. Luiz Filipe Scolari sem var ráðinn knattspyrnustjóri liðsins í sumar hefur stýrt liðinu í 12 leikjum og hefur liðið aldrei tapað undir hans stjórn. Hann einfaldlega veit ekki hvað það er að tapa.

Hinir bláklæddu hafa að auki ekki tapað í 29 leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni eða síðan í desember í fyrra þegar þeir biðu lægri hlut fyrir Arsenal 1-0 á Emirates Stadium og það sem meira er liðið hefur ekki tapað síðustu 86 deildarleikjum á Stamford Bridge eða síðan Arsenal kom í heimsókn árið 2004.

Ekki nóg með að leikmenn Chelsea tapi varla leikjum, þeir fá helst ekki á sig mörk heldur. Liðið hefur haldið markinu hreinu í síðustu sex leikjum en Peter Cech þurfti síðast að hirða knöttinn úr neti sínu 21. september þegar Ji-Sung Park leikmaður Manchester United skoraði framhjá þeim tékkneska.

Ljóst er að þrjár stórstjörnur verða fjarri góðu gamni í liði Chelsea á sunnudaginn. Michael Ballack, Didier Drogba og Michael Essien verða allir fjarverandi vegna meiðsla. Einnig er óvíst með þátttöku Joe Cole og Ashley Cole en þeir þykja nokkuð tæpir fyrir leikinn.

Liverpool hefur líkt og andstæðingar þeirra Chelsea, byrjað tímabilið með miklum glæsibrag. Piltar, Rafael Benitez hafa spilað 22 leiki frá því í byrjun júlí og hafa ekki enn þurft að játa sig sigraða.

Taplausir eru Bítladrengirnir í heilum 15 leikjum í röð í ensku deildinni eða alveg síðan 23. mars þegar þeir lutu í grasi 3-0 fyrir Manchester United á Old Trafford.

Leikmenn Liverpool hafa haft ágætis tak á hinu firnasterka liði Chelsea í gegnum árin. Slógu þá til að mynda tvívegis út í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, fyrst árið 2005 þegar Spánverjinn Luis Garcia skoraði töluvert umdeilt mark en ekki voru allir á einu máli um hvort boltinn hefði farið yfir marklínuna.

Eiður Smári fékk upplagt tækifæri undir lok þessa leiks til að jafna metin og koma Chelsea þar með í úrslitaleikinn en knötturinn fór rétt framhjá stönginni. Liverpool fór alla leið þetta ár og sigraði AC Milan í vítaspyrnukeppni eftir einn magnaðasta úrslitaleik í sögu Meistaradeildarinnar.

Aftur mættust liðin árið 2007 í undanúrslitum Meistaradeildarinnar og enn á ný fór Liverpool með sigur af hólmi í þetta sinn eftir vítaspyrnukeppni þar sem Pepe Reina markmaður þeirra rauðklæddu reyndist hetja kvölsins því hann varði tvær vítaspyrnur frá Arjen Robben og Geremi.

Þrátt fyrir þessa ágætu tölfræði gegn Chelsea þá hefur Liverpool hins vegar átt afar erfitt uppdráttar gegn þeim bláu á Stamford Bridge eins og öll lið sem þangað mæta.

Frá því að enska úrvalsdeildin var formlega stofnuð árið 1992 hefur Liverpool aðeins einu sinni unnið á Stamford Bridge. Það gerðist í janúar árið 2004 þegar rauði herinn hafði 1-0 sigur með marki frá Bruno Cheyrou.

Undir stjórn Rafael Benítez hefur Liverpool einnig gengið bölvanlega að skora á hinum ógnarsterka heimavelli Chelsea. Fyrir leikinn í Meistaradeildinni í apríl hafði liðið ekki náð að skora í undanförnum átta heimsóknum á Brúnna í þau fjögur ár sem hinn spænski þjálfari Liverpool hefur verið við stjórnvölinn.

Hvað sem allri tölfræði líður, þá hjálpar það ekki Liverpool að þeirra helsti markaskorari Fernando Torres verður ekki tiltækur í þennan stórleik á sunnudaginn vegna meiðsla.

Óvíst er með þátttöku Robbie Keane en hann meiddist lítillega í jafnteflisleik gegn Atletico Madrid í Meistaradeildinni. Steven Gerrard og Xabi Alonzo kenndu sér einnig meins eftir þann leik en eru taldir leikfærir.
Athugasemdir
banner