Heimild: Sky
Jose Mourinho stjóri Inter segist ekki vera sammála ummælum Rafa Benítez um að Manchester United fái sérmeðferð frá knattspyrnusambandinu.
Benítez skaut hörðum orðum að stjóra United, Sir Alex Ferguson, og sagði hann komast upp með hluti sem enginn annar stjóri kæmist upp með.
Ummæli þessi hafa valdið miklu fjaðrafoki í fótboltaheiminum og hafa margir komið með álit sitt á þessu máli.
Mourinho, sem átti ekki í mjög góðu sambandi við Benítez, hefur nú bætt við sínu áliti og segir hann að ásakanir Benítez eigi við engin rök að styðjast.
,,Ég spilaði nokkrum sinnum á Old Trafford, vann þar meðal annars nokkra leiki, og ég sá aldrei neitt skrítið þar,” sagði Mourinho við ítalska fjölmiðla.
,,Það er bara eðlilegt að dómaranum finnist hann vera undir pressu í slíku andrúmslofti fyrir framan 80.000 áhorfendur.”
Athugasemdir