Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   fim 12. febrúar 2009 08:15
Hafliði Breiðfjörð
Tólffaldur Íslandsmeistari í tennis spilar með Breiðabliki
Arnar Sigurðsson eftir að hafa spilað æfingaleik með Breiðablik gegn FH í gærkvöld.
Arnar Sigurðsson eftir að hafa spilað æfingaleik með Breiðablik gegn FH í gærkvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stuðningsmenn Breiðabliks geta farið að styðja tennishetju.
Stuðningsmenn Breiðabliks geta farið að styðja tennishetju.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Arnar Sigurðsson margfaldur Íslandsmeistari í tennis hefur hafið knattspyrnuiðkun með Breiðablik og hefur leikið æfingaleiki með liðinu að undanförnu. Arnar varð Íslandsmeistari í tennis utanhúss síðasta sumar og það var í tólfta árið í röð sem hann tryggði sér titilinn.

Núna hefur spaðinn hinsvegar verið lagður á hilluna og Arnar hefur tekið upp á því að æfa fótbolta með Breiðablik og gæti jafnvel spilað með liðinu í Landsbankadeildinni í sumar. Hann er 27 ára gamall og hafði ekkert snert fótbolta í tólf ár þegar hann hóf að leika hann að nýju.

Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks
,,Arnar var einn af efnilegustu leikmönnum félagsins skilst mér, en ég man ekki eftir að hafa séð hann í fótbolta. Svo fór hann í tennis og varð hörkugóður þar. Hann er með góðan vinstri fót, teknískur og mjög viljugur að læra."

,,Hann er dottinn úr fótboltaformi en kom á æfingar í haust og ég gaf honum tækifæri til að prófa og hann er ennþá að."

,,Hann kemur mjög vel út í liðinu og á alveg tækifæri. Gæti alveg verið með okkur í sumar, ekki spurning. Ef menn hafa fótboltahæfileika, áhuga, nennu og vilja á að læra þá eiga þeir séns. Hann var í fótbolta áður svo hann kann þetta alveg."
Hætti í tennis vegna meiðsla á öxl
Arnar hætti fótboltaiðkun aðeins fimmtán ára gamall og sneri sér alfarið að tennis þar sem hann hefur náð frábærum árangri og orðið Íslandsmeistari undanfarin tólf ár. Nú tekur hinsvegar við fótboltaferill.

,,Ég hætti í tennis síðasta sumar og hefur alltaf langað að prófa að spila fótbolta. Ég spilaði hann þegar ég var yngri og það var alltaf draumur að komast aftur í þetta. Ég fékk að mæta á nokkrar æfingar fyrir jól og hef verið að síðan," sagði Arnar í samtali við Fótbolta.net í gær.

Hann hafði tilkynnt síðasta sumar að hann myndi ekki leika tennis áfram vegna meiðsla en hyggst þó ætla að reyna að keppa eitthvað í íþróttinni meðfram því að spila fótbolta.

,,Já ég er að mestu leiti hættur í tennis. Ég var aðeins fyrir jól í því en hef ekkert verið eftir jól. Ég ætla að reyna að halda mér við og keppa á Íslandsmótum og svona," sagði Arnar. ,,Ég er meiddur í öxlinni, það er taug sem dó og vöðvinn drapst við það. Þegar ég spila mikið verð ég slæmur og þess vegna hætti ég. Ég get ekki spilað tennis í miklu álagi og þess vegna sneri ég mér að fótbolta."

Þetta er bara ævintýri
Arnar hafði fengið smá snert af því að spila fótbolta síðasta sumar þegar hann spilaði nokkra leiki með öðru liði á vegum Breiðabliks sem heitir Augnablik og leikur í þriðju deildinni.

,,Svo er ég byrjaður hérna. Þetta er bara ævintýri. Ég ætlaði ekkert að fara í Blika, hélt þeir vildu ekki fá mann eins og mig," sagði hann og hélt áfram. ,,Svo var ég að gæla við þetta því mér fannst þeir svo grófir í þriðju deildinni og meiddi mig svo oft þar. Mig langaði til að prófa hjá Breiðablik og hringdi í Óla og spurði hvort ég mætti mæta. Mér fannst samt fjarstæðukennt að geta það en svo sagði hann bara já svo ég skellti mér."

Rosalega gaman að læra taktík
Arnar hafði spilað einn æfingaleik með Breiðablik fyrir áramót og spilaði svo hálfan leik með liðinu gegn Val í byrjun ársins. Hann spilaði svo æfingaleik gegn ÍA á dögunum og svo gegn Íslandsmeisturum FH í Kórnum í gærkvöld.

,,Ég hef bara gaman af þessu, það er gaman að þessir strákar leyfa mér að spila og eru ekki að skamma mig of mikið. Ég er bara að læra þetta og kann ekki allar þessar hreyfingar og svona. Ég hætti náttúrulega í fjórða flokki svo ég er enn að læra leikinn. Það er búið að vera rosalega gaman hjá mér að læra taktík og svona," sagði hann.

Ótrúlegt að fá að spila gegn besta liði landsins
Arnar vonast til að geta spilað áfram með Breiðablik í Landsbankadeildinni í sumar en þó er ekki enn ljóst hvort hann komist að hjá félaginu en allir leikmenn sem spila í deildinni í sumar verða að vera samningsbundnir sínu félagi.

,,Ég er ekki búinn að gera samning, það hefur enginn verið svo góður við mig," sagði Arnar. ,,En ég er að standa mig ótrúlega vel og það er ekkert útilokað. Það væri ævintýri ef ég fengi að spila leik í Landsbankadeildinni eða koma inná."

,,Ég tek bara einn dag í einu í þessu, ég er bara að læra. Að fá að spila hérna gegn besta liði landsins er alveg ótrúlegt. Þetta er draumur hvers manns sem er í annarri íþrótt og hefur horft á fótbolta í öll þessi ár, að fá að fara inná og spila með þessum köllum hérna."

Athugasemdir
banner