Varnarmaðurinn Janez Vrenko æfir þessa dagana með bikarmeisturum KR en þetta staðfesti Rúnar Kristinsson yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu í samtali við Fótbolta.net í dag.
Rúnar sagði að KR hafi áhuga á að skoða hann með það í huga að semja við hann. Hann sagði leikmanninn hafa æft með liðinu í gær og æfi áfram í dag og á morgun. Í kjölfarið ræðst hvort honum verður boðinn samningur.
Janez Vrenko er 26 ára gamall Slóveni sem lék með KA í 1. deildinni undanfarnar þrjár leiktíðir eftir að hafa komið til þeirra fyrir sumarið 2006. Eftir síðustu leiktíð ákvað KA að endurnýja ekki samninginn við hann.
Hann lék á þeim tíma 68 leiki fyrir KA og skoraði í þeim fjögur mörk. Hann spilaði flesta leikina sem miðvörður.
Athugasemdir