Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mið 29. apríl 2009 08:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 12.sæti
Mynd: Alfons Finnsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Gunnar Örn
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tólfta sætinu í þessari spá var Víkingur Ólafsvík sem fékk 44 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Víking Ólafsvík.


12.sæti: Víkingur Ólafsvík
Búningar: Blá treyja, bláar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.vikingurol.tk/

Ólafsvíkingar enduðu í sæti fyrir ofan fallsæti í fyrra en ef spá þjálfara og fyrirliða fyrir komandi tímabil rætist mun það verða þeirra hlutskipti að falla í ár. Aðalsmerki liðsins hefur verið gríðarlega þéttur og öflugur varnarleikur undir stjórn Ejub Purisevic en nú er hann hinsvegar hættur þjálfun liðsins og inn kemur maður með aðrar áherslur.

Stór hluti af þeim erlendu leikmönnum sem léku með liðinu í fyrra eru horfnir á braut og kemur það í hlut heimamanna og yngri stráka að fylla þeirra skörð. Einnig hafa Víkingar misst leikmenn eins og Brynjar Víðisson og Eyþór Guðnason sem léku nánast alla leikina í fyrra og þá er ólíklegt að varnarjaxlinn Elinbergur Sveinsson leiki með liðinu en hann hefur ekkert verið að æfa í vetur.

Víkingi Ólafsvík hefur ekki gengið vel á undirbúningstímabilinu og tapað æfingaleikjum gegn liðum í neðri deildum og þá hlaut liðið aðeins eitt stig í Lengjubikarnum. Víkingum hefur gengið bölvanlega að skora mörk en í Lengjubikarnum skoruðu þeir aðeins tvö mörk í fimm leikjum og ljóst að þeir þurfa að finna markaskóna hið snarasta ef ekki á illa að fara í sumar. Liðið hefur virkað sem öguð varnar-vél undanfarin ár og verður erfitt fyrir nýjan þjálfara að halda þeim hætti af jafn miklum krafti.

Í liði Víkinga eru nokkrir spennandi leikmenn sem vert er að fylgjast með í sumar. Brynjar Gauti Guðjónsson er gríðarlega efnilegur leikmaður fæddur 1992 sem er þegar farinn að leika stórt hlutverk með liðinu og þá er jafnaldri hans, Brynjar Kristmundsson, einnig í stóru hlutverki. Þetta eru strákar sem ættu að láta mikið að sér kveða á næstu árum.

Styrkleikar: Heimavöllurinn hefur verið mikil gryfja fyrir Ólafsvíkinga undanfarin ár og gríðarlega mikilvægt fyrir þá að svo verði áfram. Liðið fékk 19 af 24 stigum sínum í fyrra á heimavelli. Varnarleikurinn hefur verið aðalsmerki liðsins undanfarin ár en lykilmaður varnarinnar er Dalibor Nedic. Fyrir aftan vörnina er vítabaninn Einar Hjörleifsson sem er klárlega í hópi sterkustu markvarða deildarinnar.

Veikleikar: Lykilmenn eru farnir frá liðinu og þá hefur verið ákveðið púsluspil að halda uppi æfingum í vetur þar sem þjálfari liðsins hefur ekki verið búsettur á Snæfellsnesinu. Breiddin í leikmannahópnum er lítil sem engin og liðið má alls ekki við neinum skakkaföllum. Sóknarleikurinn hefur verið höfuðverkur og liðið lítið skorað á undirbúningstímabilinu.

Þjálfari: Kristinn Guðbrandsson er tekinn við stjórnartaumunum en hann hefur undanfarin ár verið aðstoðarmaður Kristjáns Guðmundssonar hjá Keflavík. Þetta er hans fyrsta ár sem aðalþjálfari og verður fróðlegt að sjá hvernig honum tekst til og hvort hann haldi áfram með sömu áherslur og Ejub Purisevic. Hann hefur fengið tvo leikmenn frá Keflavík að láni og ekki ólíklegt að þeim eigi eftir að fjölga áður en félagaskiptaglugganum lokar.

Lykilmenn: Einar Hjörleifsson, Dalibor Nedic og Hermann Geir Þórsson.


Komnir: Predrag Milosavljevic frá Hamri, Andri Freyr Hafsteinsson frá Snæfelli, Garðar Eðvaldsson frá Keflavík (lán), Viktor Guðnason frá Keflavík (lán).

Farnir: Brynjar Víðisson í HK, Eyþór Guðnason í ÍR, Gísli Freyr Brynjarsson í ÍA, Miroslav Pilipovic til Slóveníu, Aljaz Horvat til Slóveníu, Josip Marosevic til Króatíu, Suad Begic.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. Víkingur Ólafsvík 44 stig
Athugasemdir
banner
banner