Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.
Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í áttunda sætinu í þessari spá var ÍR sem fékk 109 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um ÍR.
8.sæti: ÍR.
Búningar: Hvít treyja, bláar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.irsida.is/
ÍR-ingar ættu að koma fullir sjálfstrausts upp í 1. deildina eftir frábært síðasta ár. Í fyrra vann liðið Reykjavíkurmótið, Lengjubikarinn B-deild og vann svo yfirburðarsigur í 2. deildinni. Í Neðra-Breiðholtinu eru menn víst mjög bjartsýnir fyrir sumrinu enda gæti árangurinn síðan Guðlaugur Baldursson tók við ekki verið betri. Samkvæmt spánni halda ÍR-ingar sæti sínu en þeir ætla sér víst enn stærri hluti en það og stefna á efri hlutann. Þeir verða að gera sér grein fyrir að þeir eru að fara í miklu mun sterkari deild en í fyrra.
ÍR-ingar hafa misst Elías Inga Árnason, sinn helsta markaskorara undanfarin ár, en hann er genginn til liðs við ÍBV. Spurning er hvernig þeir höndla brotthvarf hans í sumar en lykilleikmenn í sóknarleik þeirra eru Guðfinnur Þórir Ómarsson og Árni Freyr Guðnason. Guðfinnur hefur verið í feiknarformi í vetur og Árni Freyr var réttilega valinn leikmaður ársins í 2. deild í fyrra. Hann lék þá á miðjunni og bjó til ófá mörkin. Lykilatriði fyrir ÍR var að halda honum í sínum röðum.
Varnarlega eru Breiðhyltingar vel mannaðir en þó hefur liðið fengið á sig mörg mörk í vetur sem er ákveðið áhyggjuefni fyrir Guðlaug. Flugmaðurinn Valur Úlfarsson er mættur aftur í vörnina en hann lék á lánssamningi hjá ÍR 2005 og vilja margir meina að hann einn og sér hafi náð að bjarga liðinu frá falli það tímabil. Valur er gríðarlega sterkur og styrkir öftustu línu ÍR mikið. Á miðjunni hefur Erlingur Jack Guðmundsson leikið lykilhlutverk í vetur.
ÍR hefur haldið sama leikmannakjarna undanfarin ár og það hefur skilað sínu en áður fyrr voru alltaf gríðarlegar breytingar milli ára. Til að þétta hópnum betur saman hefur verið leitað í smiðju kvennaboltans og hafa ÍR-ingar verið með furðufataæfingar í vetur. Liðið hefur ekki spilað á mörgum mjög ungum leikmönnum í vetur en þó er hægt að benda á Sindra Snæ Magnússon sem leikmann sem vert er að fylgjast með. Sindri er hávaxinn miðjumaður fæddur 1992 og spennandi leikmaður.
Styrkleikar: ÍR hefur ágætis breidd og haldið hópnum lítið breyttum síðustu ár. Þeir eru sterkir í skyndisóknum og eru virkilega fljótir að refsa og liðið vann marga leiki í fyrra þó það hafi ekki endilega verið sterkara liðið. Leikmenn eins og Guðfinnur og Árni Freyr geta látið varnarmenn deildarinnar líta út eins og kjána. Leikmannahópurinn er fullur sjálfstrausts.
Veikleikar: Liðið á það til að missa einbeitinguna gegn slakari liðum. Elías Ingi Árnason, markahæsti leikmaður liðsins í fyrra, er farinn og spurning hvernig það skarð verður fyllt. Ákveðið stemningsleysi hefur verið fyrir liðinu í Neðra-Breiðholti og var mætingin á leiki liðsins í fyrra oft arfadöpur þrátt fyrir frábæran árangur. Þrátt fyrir vel mannaða vörn hefur liðið fengið á sig mörg mörk í vetur.
Þjálfari: Guðlaugur Baldursson hefur náð hreint mögnuðum árangri með liðið. Leið ÍR aftur upp í 1. deildina hefur verið löng en um leið og Guðlaugur tók við kom stökkið stóra. Á sínu fyrsta ári skilaði hann þremur titlum í hús og náði aðaltakmarkinu sem var að koma liðinu upp. Virkilega klókur þjálfari sem nær vel til leikmanna.
Lykilmenn: Valur Úlfarsson, Guðfinnur Þórir Ómarsson og Árni Freyr Guðnason.
Komnir: Valur Úlfarsson frá Víkingi R., Eyþór Guðnason frá Víkingi Ó., Sigurður Heiðar Höskuldsson frá Augnabliki, Ágúst Bjarni Garðarsson frá Val (lán).
Farnir: Elías Ingi Árnason í ÍBV, Ingvi Sveinsson í Þrótt.
Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ÍR 109 stig
9. Leiknir R. 81 stig
10. Afturelding 61 stig
11. Fjarðabyggð 52 stig
12. Víkingur Ólafsvík 44 stig
Athugasemdir