Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.
Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjöunda sætinu í þessari spá var Þór sem fékk 132 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Þór.
7.sæti: Þór
Búningar: Hvít treyja, rauðar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.thorsport.is/
Þórsarar höfnuðu í 8. sæti í fyrra og spáð er að þeir verði á svipuðum slóðum þetta árið. Krafan um úrvalsdeildarbolta er þó orðin ansi hávær á Akureyri og góður árangur í yngri flokkum hlýtur að fara að skila sér í betri meistaraflokkum. Þór hefur spilað mikið á ungum leikmönnum sem hafa lagt mikið inn á reynslubankann síðustu ár og pressan eykst því með ári hverju.
Hlynur Birgisson er hættur hjá Þór og verður spilandi þjálfari hjá Draupni í 3.deildinni í sumar en þjálfarinn Lárus Orri Sigurðsson hefur hinsvegar tekið sína skó úr hillunni og gæti spilað eitthvað með í sumar. Þá vegur reynsla Aleksander Linta þungt. Sóknarmaðurinn Hreinn Hringsson er orðinn 35 ára en er samt í fínu standi og virkar léttari en undanfarin ár. Þessir reynsluboltar eru síðan að mestu umkringdir ungum og efnilegum leikmönnum.
Þórsarar þurfa ekki að hafa áhyggjur af markmannsmálum sínum í sumar enda baráttan um þá stöðu ansi hörð. Björn Hákon Sveinsson sem kom frá Völsungi verður að öllum líkindum aðalmarkvörður en hann á þó við meiðsli að stríða sem stendur og byrjar líklega ekki mótið. Búast má við að Árni Skaftason eða Atli Már Rúnarsson verja því markið í fyrstu leikjum.
Varnarmaðurinn Óðinn Árnason er kominn aftur í Þór eftir fimm ára veru í efstu deild og er hann liðinu gríðarlegur styrkur. Varnarleikurinn ætti ekki að vera vandamál hjá Þórsurum í sumar en þar hafa þeir fína breidd þar. Fyrst til að byrja með mun Þór leika heimaleiki sína á Akureyrarvelli en mun síðan færa sig yfir á Þórs-svæðið þar sem verið er að reisa nýjan heimavöll.
Þór hefur nokkra mjög spennandi unga og efnilega leikmenn. Atli Sigurjónsson er miðjumaður sem býr yfir mikilli tækni og góðum sendingum. Hann er fæddur 1991 eins og Gísli Páll Helgason, annar athyglisverður leikmaður, sem hefur verið fyrirliði U18 landsliðsins. Gísli er virkilega klár spilari sem býr yfir góðum hraða og gæti verið hættulegur á hægri vængnum.
Styrkleikar: Þór er fjölskylduklúbbur þar sem ákveðin samheldni ríkir og aldrei skal vanmeta hana. Liðið á marga virkilega unga og spræka stráka og reynslubolta innan um. Formið á reynsluboltunum skiptir liðið miklu máli og þá hafa ungu leikmennirnir öðlast meiri reynslu og ættu að vera sterkari en í fyrra. Heimavöllurinn hefur oft reynst Þórsurum vel.
Veikleikar: Varnarleikurinn hefur verið ákveðið vandamál hjá Þór síðustu ár en Óðinn Árnason ætti að geta spaslað upp í það að miklu leyti og þá er Atli Jens Albertsson í lykilhlutverki. Breiddin á miðjunni er ekki mjög mikil og miðjan gæti verið veikur hlekkur í sumar. Þórsliðið hefur marga unga leikmenn og gæti verið brothætt ef byrjunin er slæm.
Þjálfari: Lárus Orri Sigurðsson er að sigla inn í sitt fjórða ár sem þjálfari Þórsliðsins og hlýtur að vera komin aukin pressa á hann að liðið fari að gera atlögu að úrvalsdeildarsæti. Hann hefur einnig spilað með liðinu ásamt því að þjálfa og mun jafnvel gera það að einhverju leyti þetta árið þó hann verði líklega í aukahlutverki inná vellinum.
Lykilmenn: Óðinn Árnason, Atli Jens Albertsson og Hreinn Hringsson
Komnir: Óðinn Árnason frá Fram, Atli Már Rúnarsson frá Magna, Björn Hákon Sveinsson frá Völsungi, Eiríkur Páll Aðalsteinsson frá Magna, Sveinn Elías Jónsson frá KA..
Farnir: Kristján Sigurólason til Stryn Noregi, Belmondo Khumba Mbangha til Kýpur, Gunnar Líndal Sigurðsson til Noregs, Sean Webb til Englands, Hlynur Birgisson hættur.
Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. Þór 132 stig
8. ÍR 109 stig
9. Leiknir R. 81 stig
10. Afturelding 61 stig
11. Fjarðabyggð 52 stig
12. Víkingur Ólafsvík 44 stig
Athugasemdir