mán 04. maí 2009 20:52
Alexander Freyr Tamimi
Meistari meistaranna: FH með sannfærandi sigur á KR
Davíð Þór Viðarsson fyrirliði FH hampar bikarnum.
Davíð Þór Viðarsson fyrirliði FH hampar bikarnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Meistarar meistaranna 2009, FH.
Meistarar meistaranna 2009, FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi Guðmundsson skoraði tvö mörk og fór svo strax útaf meiddur. Hér er  hann með bikarinn ásamt Aroni Eiríkssyni.
Tryggvi Guðmundsson skoraði tvö mörk og fór svo strax útaf meiddur. Hér er hann með bikarinn ásamt Aroni Eiríkssyni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrirliðarnir eigast við. Jónas Guðni Sævarsson  skoraði mark KR. Hér er hann ásamt Davíð Þór Viðarssyni.
Fyrirliðarnir eigast við. Jónas Guðni Sævarsson skoraði mark KR. Hér er hann ásamt Davíð Þór Viðarssyni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH 3 – 1 KR
1-0 Tryggvi Guðmundsson (´28)
2-0 Tryggvi Guðmundsson (´36)
3-0 Björn Daníel Sverrisson (´58)
3-1 Jónas Guðni Sævarsson (´77)

Íslandsmeistarar FH urðu í dag meistarar meistaranna þegar þeir báru 3-1 sigur úr bítum gegn bikarmeisturum KR í baráttuleik. Eftir að FH komst í 3-0 var á brattann að sækja fyrir KR-inga og þó svo að þeir hafi náð að klóra í bakkann tókst þeim ekki að knýja fram framlengingu.

Hollenski varnarmaðurinn Mark Rutgers spilaði sinn fyrsta alvöru leik fyrir KR síðan hann gekk til liðs við félagið frá FC Utrecht í heimalandinu og komst hann ágætlega frá leiknum. Ásamt honum voru tveir aðrir útlendingar í liði KR, samlandi hans Prince Rajcomar og Portúgalinn Jordao Diogo.

Heimir Guðjónsson þjálfari FH leyfði nokkrum ungum leikmönnum að spreyta sig í bland við þá reynslumeiri og var hinn 19 ára Viktor Guðmundsson á meðal þeirra.

Mikil barátta var í leiknum frá fyrstu mínútu og byrjuðu KR-ingarnir betur. Þeir voru meira með boltann en tókst þó ekki að skapa sér nein afgerandi tækifæri. FH-ingar beittu skyndisóknum þegar þeir náðu boltanum með misgóðum árangri en þeir áttu þó eitt skot sem fór naumlega yfir þegar stutt var liðið af leiknum.

Á 21. mínútu komst Skúli Jón Friðgeirsson í frábært færi einn gegn Daða Lárussyni eftir frábæra stungusendingu frá Jónasi Guðna Sævarssyni. Skúli fór þó ekki nægilega vel að ráði sínu og fór skot hans beint á Daða sem kom askvaðandi á móti honum. Án efa besta færi leiksins hingað til en hann hafði einkennst af miklu miðjuspili og ótrúlegum fjölda misheppnaðra sendinga.

FH-ingar sóttu aðeins í sig veðrið þegar líða tók á leikinn og á 28. mínútu kom Tryggvi Guðmundsson liðinu yfir með góðu skoti í vinstra hornið eftir að hann komst í gegnum vörn KR-inga eftir góðan undirbúning frá Matthíasi Vilhjámssyni.

Einungis mínútu síðar munaði engu að Atli Guðnason kæmi Íslanseisturunum í 2-0 þegar hann átti frábæran skalla eftir góða fyrirgjöf frá vinstri. Aftur á móti varði Stefán Logi Magnússon skalla hans meistaralega aftur fyrir í horn sem ekkert varð úr.

Leikurinn opnaðist töluvert eftir markið og fóru skotin að ríða af á báða bóga. Ekkert þeirra var þó virkilega ógnandi fyrir markverði liðanna fyrr en á 36. mínútu þegar FH fékk aukaspyrnu á stórhættulegum stað eftir að Grétar Sigfinnur Sigurðsson braut á sér rétt fyrir utan teig og uppskar í kjölfarið gulaspjaldið. Spyrnuna tók Tryggvi Guðmundsson og knötturinn fór yfir varnarvegginn og steinlá í markinu. Gersamlega óverjandi fyrir Stefán Loga í markinu og staðan 2-0. Strax eftir markið var Tryggva skipt út af eitthvað löskuðum og í hans stað kom Hákon Hallfreðsson.

Það var á brattann að sækja fyrir KR sem reyndu allt hvað þeir gátu til að skapa sér færi en þó án árangurs. Staðan var því enn 2-0 fyrir FH þegar flautað var til leikhlés þrátt fyrir að KR-ingar hefðu almennt verið sterkari í fyrri hálfleiknum.

FH komu sterkir inn í síðari hálfleik og voru þeir hársbreidd frá því að skora þriðja markið strax á upphafsmínútunum. Þegar tæpur klukkutími var liðinn af leiknum gerði FH nánast út um leikinn þegar aukaspyrna frá Viktori Guðmundssyni rataði beint á kollinn á Birni Sverrissyni sem skallaði knöttinn í netið.

FH var nær því að bæta við mörkum heldur en KR var að minnka muninn en þó fór það svo að fyrirliðinn Jónas Guðni Sævarsson skoraði fyrsta mark Vestubæinganna þegar 77 mínútur voru liðnar af leiknum. Varamaðurinn Guðmundur Pétursson hafði þá átt fínan sprett upp völlinn sem endaði með skoti sem Daði Lárusson varði, en Jónas kom keyrandi og fylgdi knettinum eftir í netið. Staðan 3-1 og var ótímabært að afskrifa KR.

Örfáum mínútum síðar var Bjarni Guðjónsson hársbreidd frá því að minnka muninn niður í eitt mark með þrumuskoti utan teigs en knötturinn fór rétt framhjá. Flestir stuðningsmanna KR héldu að boltinn hefði farið inn en þeir áttuðu sig þó á því nokkrum sekúndum síðar að svo var því miður ekki.

Þrátt fyrir fína baráttu í KR liðinu urðu mörkin í leiknum ekki fleiri og voru lokatölur því 3-1 fyrir FH og var þetta í heildina verðskuldaður sigur. Þeir fara því inn í Íslandsmótið sem hefst um helgina sem bæði Lengjubikarsmeistarar og meistarar meistaranna og verða þeir án alls vafa í titilbaráttunni í ár.

KR getur þó dregið margt jákvætt út úr þessum leik þrátt fyrir tapið og verður forvitnilegt að sjá hvernig þeir munu standa sig gegn Fjölni sunnudaginn kemur.

Byrjunarlið FH: Daði Lárusson, Hjörtur Logi Valgarðsson, Viktor Ö. Guðmundsson, Guðmundur Sævarsson, Björn Daníel Sverrisson, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Davíð Þór Viðarsson, Pétur Viðarsson, Tryggvi Guðmundsson (38. Hákon Hallfreðsson), Matthías Vilhjálmsson (70. Brynjar Benediktsson), Atli Guðnason (76. Guðni Páll Kristjánsson).

Varamenn: Gunnar Sigurðsson, Aron Eiríksson, Guðni Páll Kristjánsson, Hákon A Hallfreðsson, Matthías Guðmundsson, Atli Viðar Björnsson, Brynjar Benediktsson.

Byrjunarlið KR:Stefán Logi Magnússon, Grétar Sigfinnur Sigurðsson, Bjarni Guðjónsson, Jónas Guðni Sævarsson, Skúli Jón Friðgeirsson, Óskar Örn Hauksson, Björgólfur Takefusa (61. Gunnar Örn Jónsson), Prince Rajcomar (73. Guðmundur Benediktsson), Mark Rutgers, Baldur Sigurðsson (61. Guðmundur Pétursson), Jordao Diogo.

Varamenn: Atli Jónasson, Guðmundur Pétursson, Gunnar Kristjánsson, Ásgeir Örn Ólafsson, Gunnar Örn Jónsson, Guðmundur Benediktsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner