Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   þri 05. maí 2009 08:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 6.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjötta sætinu í þessari spá voru Haukar sem fengu 142 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Hauka.


6.sæti: Haukar
Búningar: Rauð treyja, rauðar buxur, rauðir sokkar.
Heimasíða: http://www.haukar.is/

Haukum er spáð sjötta sæti 1. deildarinnar en í því sæti höfnuðu þeir í fyrra. Ljóst er að brugðið getur til beggja vona í Hafnarfirðinum. Tímabilið í fyrra var nokkuð sérstakt hjá liðinu. Það lék feykivel fyrri hluta tímabils en svo fór nýjabrumið og seinasta part sumars stóð vart steinn yfir steini í spilamennsku þess.

Haukar hafa misst nokkra leikmenn sem spiluðu stórt hlutverk í fyrra. Davíð Ellertsson hélt í Víkina, Ómar Karl Sigurðsson til Noregs og þá er Edilon Hreinsson genginn í raðir Gróttu. Denis Curic verður ekki áfram með liðinu en hann var markahæstur í liðinu í fyrra. Haukar virðast ætla að treysta á Andra Janusson í markaskorun en hann raðaði inn mörkum í 3. deildinni en spurning er hvernig honum gengur í þeirri fyrstu.

Síðustu ár hafa Haukar náð að halda ákveðnum kjarna í leikmannahópnum og hafa í sínum röðum nokkra virkilega hæfileikaríka leikmenn. Varnarlega vantar alls ekki reynsluna þar sem Þórhallur Dan Jóhannsson ber fyrirliðabandið og stýrir vörninni. Á miðjunni er Hilmar Trausti Arnarsson í lykilhlutverki en hann býr yfir mjög góðri spyrnutækni. Hilmar Geir Eiðsson hefur spilað á vængnum hjá liðinu en þar fer góður leikmaður sem skapar oft mikinn usla.

Allir leikir Hauka í Lengjubikarnum voru mjög jafnir fyrir utan lokaleikinn gegn FH. Liðið náði meðal annars að vinna úrvalsdeildarlið ÍBV en í eina 1. deildarslagnum í riðlinum gerði það jafntefli við Víking Ólafsvík. Haukar er lið sem er aldrei hægt að bóka sigur gegn og má að mörgu leyti segja að þeir séu eitt stærsta spurningamerki deildarinnar, eru til alls vísir. Liðið leikur heimaleiki sína á gervigrasi en í fyrra virtist það ekki gefa þeim mikið aukalega, þeir fengu 14 stig þar eða jafnmörg og á útivöllum.

Af yngri leikmönnum liðsins má nefna Ásgeir Þór Ingólfsson sem leikmann sem spennandi verður að fylgjast með. Hann var valinn efnilegasti leikmaður 2. deildarinnar þegar Haukar unnu hana 2007 og gaman verður að sjá hvort hann haldi áfram að stíga skref í rétta átt. Góðvinur hans, Úlfar Hrafn Pálsson, er einnig skemmtilegur leikmaður sem leikið hefur í bakverðinum en hann er fæddur 1988.

Styrkleikar: Haukar hafa mikla reynslu varnarlega og eru með ágætis blöndu af reynsluboltum og svo ungum sprækum leikmönnum í sínu liði. Sérstaklega góður reynsluskammtur aftarlega á vellinum. Liðið getur spilað ansi vel saman þegar það dettur í gírinn enda með samheldinn hóp og flestir leikmanna spiluðu upp 2. flokkinn hjá Haukum.

Veikleikar: Breiddin gæti orðið vandamál enda er hún ákaflega lítil og liðið má vart við neinum skakkaföllum. Ekki er mjög mikill hraði í vörninni og gætu þeir lent í vandræðum gegn snöggum sóknarmönnum. Eftir góða byrjun í fyrra þá hrundi leikur liðsins og ljóst að meiri stöðugleika þarf í liðið.

Þjálfari: Andri Marteinsson er að sigla inn í sitt þriðja tímabil með liðið. Hann náði mjög góðum árangri á fyrsta tímabili sínu og vann 2. deildina. Á síðasta tímabili má síðan segja að liðið hafi lokið keppni á pari, hafnaði í sjötta sæti deildarinnar. Andri er 43 ára og er einn af leikjahæstu mönnum efstu deildar frá upphafi en hann lék yfir 200 leiki í deildinni með liðum eins og Fylki, KR, FH og Víkingi og þá lék hann einnig 20 A-landsleiki.

Lykilmenn: Þórhallur Dan Jóhannsson, Hilmar Trausti Arnarsson og Hilmar Geir Eiðsson.


Komnir: Andri Janusson frá Álftanesi, Guðjón Pétur Lýðsson frá Álftanesi, Gunnar Ásgeirsson frá Hamri.

Farnir: Ómar Karl Sigurðsson til Noregs, Atli Jónasson til KR, Davíð Ellertsson til Víkings R., Marco Kirsch til Þýskalands, Edilon Hreinsson til Gróttu, Denis Curic til Austurríki.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. Haukar 142 stig
7. Þór 132 stig
8. ÍR 109 stig
9. Leiknir R. 81 stig
10. Afturelding 61 stig
11. Fjarðabyggð 52 stig
12. Víkingur Ólafsvík 44 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner