Slot opinn fyrir sölu á markvörðum - Isak efstur á lista Arsenal - Meint risatilboð í Yamal - Guler og Charles til Arsenal? - Thuram og Marmoush til...
banner
   fim 07. maí 2009 07:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 10. sæti
Mynd: BÍ/Bolungarvík
Mynd: BÍ/Bolungarvík
Mynd: BÍ/Bolungarvík
Mynd: BÍ/Bolungarvík
Mynd: BÍ/Bolungarvík
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tíundaa sæti í þessari spá var BÍ/Bolungarvík sem fékk 83 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um BÍ/Bolungarvík.


10. BÍ/Bolungarvík
Búningar: Bláir og svartir.
Heimasíða: http://www.umfb.is

BÍ/Bolungarvík leikur nú í fyrsta skipti í sögu hið sameinaða félags í 2. deild á komandi leiktíð. Liðin tvö hafa áður verið sameinuð en þá undir merkjum KÍB en árið 2001 eftir að liðið féll niður í 3. deild ákváðu félögin að slíta sameiningunni og léku næstu fjögur árin undir sínum merkjum. Árið 2006 ákváðu liðin aftur að sameina félögin og þá undir nafni BÍ/Bolungarvíkur. Sú sameining virðist hafa gengið nokkuð vel á undanförnum árum og náði hámarki í fyrra þegar liðið tryggði sér á glæsilegan hátt sæti í 2. deild.

Stóra breytingin á liði BÍ/Bolungarvíkur frá því í fyrra er sú að Slobodan Milicic, sem kom liðinu upp á síðustu leiktíð, mun ekki þjálfa liðið í ár. Í hans stað er kominn nýr maður í brúnna en sá er Dragan Kazic, fyrrum aðstoðarmaður Milan Stefáns Jankovic hjá Grindavík. Hans verk verður að festa BÍ/Bolungarvík í sessi í 2. deild sem er gífurlega mikilvægt fyrir knattspyrnuna á Vestfjörðum.

Einhverjar mannabreytingar hafa orðið á liðinu en markvörður liðsins frá því í fyrra, Halldór Skarphéðinsson hélt til Færeyja í byrjun árs og í hans stað fékk liðið uppalinn markvörð sem leikið hefur með FH undanfarin ár, Róbert Örn Óskarsson. Það er hvalreki fyrir liðið að hreppa Róbert sem mun án efa verða liðinu mikill styrkur í sumar. Sigþór Snorrason er snúinn aftur á heimaslóðir eftir tveggja ára dvöl hjá Leikni. Sigþór er fjölhæfur leikmaður og með eindæmum vinnusamur. Ljóst að koma hans mun styrkja sveit Dragan Kazic mikið.

Síðastur en þó alls ekki sístur í þessari upptalningu er Pétur Geir Svavarsson. Pétur er uppalinn Bolvíkingur sem lék með Fjarðabyggð síðari hlutann á síðustu leiktíð en hann hefur skorað grimmt þegar hann hefur leikið fyrir vestan. Hann skoraði 7 mörk í þeim 8 leikjum sem hann spilaði fyrir BÍ/Bolungarvík áður en hann fór í Fjarðabyggð. Ef hann er í góðu standi er ljóst að hann mun verða þyngdar sinnar virði í gulli.

Það eru margir athyglisverðir leikmenn í liðinu en félagið hefur að mestu leyti verið byggt upp af heimamönnum. Andri Rúnar Bjarnason skoraði grimmt fyrir liðið í fyrra en 13 mörk í 15 leikjum sýna að þar er á ferð efnilegur leikmaður. Goran Vujic verður algjör lykilmaður í sóknarleik liðsins en hann skoraði einnig 13 mörk í 15 leikjum í fyrra.

Árangur liðsins í Lengjubikarnum var með ágætum. Liðinu gekk erfiðlega að skora en aftur á móti var varnarleikur liðsins til fyrirmyndar. Sóknarleikur liðsins ætti aftur á móti að styrkjast mikið við komu Goran Vujic sem lék aðeins tvo leiki með liðinu í Lengjubikarnum.

Styrkleikar: Heimavöllur liðsins mun verða þeirra helsti styrkleik í sumar. Á síðustu leiktíð tapaði liðið aðeins einum leik fyrir vestan en það var úrslitaleikur 3. Deildar þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Hömrunum/Vinum. Hvort sem leikið er á Ísafirði eða á Bolungarvík er stemningin góð og erfitt fyrir lið að fara vestur. Samstaðan í liðinu gæti fleytt liðinu langt í sumar.

Veikleikar: Þrátt fyrir ágætis árangur á útivelli í sjálfu sér á síðustu leiktíð gætu veikleikar liðsins verða fólgnir í útivellinum. Mikið er um löng ferðalög fyrir liðið og í fyrra hlaut liðið 14 stig í 7 útileikjum í sínum riðli í 3. deildinni. Í ár verða ferðalögin jafnvel enn lengri og leikirnir mun erfiðari.

Þjálfari: Dragan Kazic þreytir sína frumraun sem þjálfari hér á landi en hann var aðstoðarmaður Milan Stefáns Jankovic hjá Grindavík. Ef hann er eitthvað í líkingu við lærimeistara sinn er ljóst að um hvalreka er að ræða fyrir félagið.

Lykilmenn: Goran Vujic, Sigþór Snorrason og Róbert Örn Óskarsson.

Komnir: Brynjar Þór Ingason frá Fylki, Sigþór Snorrason frá Leikni R., Pétur Geir Svavarsson frá Fjarðabyggð, Róbert Örn Óskarsson frá FH.

Farnir: Dimitar Madzunarov til Makedóníu, Halldór Ingi Skarphéðinsson í Hvöt, Stefan Duvnjak til Austurríkis.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. BÍ/Bolungarvík 83 stig
11. ÍH/HV 63 stig
12. Hamar 51 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner