Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   sun 10. maí 2009 11:20
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 7. sæti
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M. Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjöunda sæti í þessari spá var Höttur sem fékk 126 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Hött.


7. Höttur
Búningar: Hvít treyja, svartar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.hottur.blogdrive.com/

Hetti frá Egilsstöðum er spáð 7. sætinu af fyrirliðum og þjálfurum en ef sú spá gengur eftir er það bæting frá síðasta tímabili þar sem liðið lenti í 9. sæti deildarinnar. Árangur Hattar í fyrra voru viss vonbrigði en flestir bjuggust við þeim mun sterkari en raun bar vitni. Liðið sogaðist í fallbaráttuna undir lokin þó liðið hafi aldrei verið líklegt til að falla.

Njáll Eiðsson mun þjálfa liðið áfram en hann er eldri en tvævetur í faginu og veit vel hvað þarf til að Höttur klífi upp töfluna. Njáll hefur fengið töluverðan fjölda leikmanna sem var á láni hjá Spyrni á síðustu leiktíð og hafa nokkrir þeirra leikið stóran hluta leikja liðsins á undirbúningstímabilinu. Þeir Brynjar Árnason, Ingvi Þór Georgsson og Stefán Ingi Björnsson hafa leikið töluvert með liðinu og ættu þeir að breikka þann leikmannahóp sem Njáll hefur yfir að ráða.

Liðið hefur aftur á móti misst nokkra mjög sterka leikmenn en erfitt verður að fylla skörð þeirra. Henrik Bödker sem stóð á milli stanganna í fyrra gekk í raðir Þróttar en það gerði einnig Þórarinn Máni Borgþórsson sem lék einnig stórt hlutverk síðasta sumar. Óttar Steinn Magnússon sem lék nokkra leiki í fyrra mun leika með Grindavík í sumar og þá fór danski framherjiinn Jeppe Opstrup aftur í Huginn en hann náði sér ekki nægilega vel á strik í fyrra sökum meiðsla. Þá sneri Freyr Guðlaugsson aftur til Fylkis úr láni og mun þar af leiðandi ekki leika með Hetti í sumar. Eins og sjá má er skörð hoggin í lið Hattar en í staðinn mun Njáll gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifærið í sumar.

Spilamennska Hattar í Lengjubikarnum var með ágætum og ætti að gefa liðinu byr undir báða vængi fyrir komandi sumar. Eins og áður segir er liðið byggt upp af heimamönnum sem fá tækifæri til að láta ljós sitt skína. Liðið var afar nálægt því að tryggja sér sæti í undanúrslitum B-deildar Lengjubikarsins en liðið hafnaði í 2. sæti riðilsins á eftir Fjarðabyggð. Tap gegn Völsungi í Boganum gerði það að verkum að Höttur sat eftir. Jafnteflið gegn Fjarðabyggð sýndi það að liðið getur vel bitið frá sér í sumar.

Styrkleikar: Samheldnin og baráttuandinn ætti að geta fleytt Hattarliðinu langt í sumar. Nú er liðið að mestu leyti skipað mönnum sem þekkja vel á hvorn annan og hafa leikið töluvert saman í vetur. Liðið ætti því að vera í betur stakk búið en í fyrra þegar liðið fékk menn skömmu fyrir mót.

Veikleikar: Heimavöllur liðsins gaf liðinu lítið sem ekkert í fyrra eða 12 stig. Bæjarbúar þurfa að flykkja sér að liðinu og gera heimavöll liðsins að sannkallaðri ljónagryfju ætli liðið sér stærri hluti en á síðustu leiktíð.

Þjálfari: Njáll Eiðsson þjálfar Hött þriðja árið í röð í annarri deildinni. Njáll er margreyndur þjálfari en hann hefur þjálfað Einherja, ÍR, FH, KA, Víði, ÍBV og Val hér á landi svo eitthvað sé nefnt.

Lykilmenn: Jóhann Valur Clausen, Stefán Þór Eyjólfsson og Oliver Bjarki Ingvarsson

Komnir: Benedikt Jónsson frá Spyrni, Brynjar Árnason frá Spyrni, Ingólfur Örn Ingólfsson frá Spyrni, Ingvi Örn Georgsson frá Spyrni, Jörgen Sveinn Þorvarðarson frá Spyrni, Leif Kristján Gjerde frá Spyrni, Stefán Ingi Björnsson frá Spyrni, Steinar Ingi Þorsteinsson frá Spyrni, Öystein Magnús Gjerde frá Spyrni.

Farnir: Björgvin Karl Gunnarsson til Noregs, Freyr Guðlaugsson í Fylki, Henrik Bödker í Þrótt, Jeppe Opstrup í Huginn, Jónatan Logi Birgisson til Danmerkur, Óttar Steinn Magnússon í Grindavík, Uros Hojan til Svíþjóðar, Þórarinn Máni Borgþórsson í Þrótt.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. Magni 100 stig
9. KS/Leiftur 85 stig
10. BÍ/Bolungarvík 83 stig
11. ÍH/HV 63 stig
12. Hamar 51 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner