Slot opinn fyrir sölu á markvörðum - Isak efstur á lista Arsenal - Meint risatilboð í Yamal - Guler og Charles til Arsenal? - Thuram og Marmoush til...
   fös 15. maí 2009 11:30
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 2. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Á morgun hefst keppni í annarri deildinni og því er ekki seinna vænna en að birta tvö efstu liðin í spánni. Í öðru sæti í þessari spá var Njarðvík sem fékk 226 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Njarðvík.


2. Njarðvík
Búningar: Græn treyja, grænar buxur, grænir sokkar.
Heimasíða: http://www.umfn.is

Njarðvík mætir til leiks að nýju í deildina eftir að hafa fallið úr 1. deildinni á síðustu leiktíð. Marko Tanasic tók við liðinu á miðju tímabili í fyrra og um leið mátti sjá mikil batamerki á leik liðsins en á endanum þurfti liðið að sætta sig við fall.

Tanasic lagði greinilega mikla áherslu strax síðasta haust að halda þeim leikmönnum sem fyrir voru hjá félaginu og það virðist hafa tekist nokkurn veginn. Nokkrir leikmenn eru þó horfnir á braut og helst ber að nefna Albert Högna Arason sem er fluttur búferlum til Noregs og mun leika þar í landi. Marko Valdimar Stefánsson lék 8 leiki með liðinu í fyrra en hann gekk í raðir Grindavíkur. Stærsta skarðið skilur eflaust Aron Már Smárason eftir sig en hann hefur verið þeirra hættulegasti leikmaður undanfarin ár. Hann ákvað að stíga næsta skref og gekk í raðir Breiðabliks í vetur þar sem hann hefur fengið fá tækifæri. Vignir Benediktsson er einnig horfinn á braut en hann lék 14 leiki á síðasta tímabili en hann sneri á nýjan leik til Breiðabliks.

En það er ljóst að menn skildu eftir sig skörð og þau þurfti að fylla. Það vissi Tanasic mætavel en hann var samt sem áður skynsamur á leikmannamarkaðnum. Hópurinn sem hann hefur undir höndunum er sterkur og þar af leiðandi hafa Njarðvíkingar ekki fengið neinn haug af mönnum. Jón Þór Elfarsson fékk félagaskipti úr Keflavík en hann hefur ekki leikið mikla knattspyrnu undanfarin ár. Sonur Marko, Milos Tanasic kemur frá KS/Leiftri en hann lék 12 leiki með liðinu í 1. deildinni á síðustu leiktíð. Þá klófesti Tanasic Ólaf Jón Jónsson frá Keflavík en hann kom við sögu í 4 leikjum í Landsbankadeildinni á síðasta tímabili. Þá fékk Njarðvík gríðarlegan liðsstyrk í dag þegar að Dusan Ivkovic kom til liðsins. Dusan lék með Selfyssingum í fyrra en hann sló fyrst í gegn með KS/Leiftri árið 2007. Dusan er gífurlega öflugur varnarmaður sem mun styrkja Njarðvík gífurlega í þeirri hörðu baráttu sem framundan er í sumar í efri hluta deildarinnar.

Njarðvík lék í A-deild Lengjubikarsins í vetur og sýndi framan af skemmtileg tilþrif. Í fyrsta leik riðilsins gerði liðið jafntefli gegn Fylki og fylgdu því eftir með mjög góðu 1-1 jafntefli gegn KR þar sem Óskar Örn Hauksson jafnaði í uppbótartíma fyrir KR. Í framhaldinu tapaði liðið fyrir Leikni og fengu tvo skelli gegn Víkingi og Njarðvík. Liðið skoraði aðeins eitt mark í 5 leikjum og gæti sóknarleikurinn orðið höfuðverkur í sumar. Andstæðingarnir voru vissulega mun sterkari en þeir mæta í sumar en samt sem áður virðist liðið ekki hafa náð að aðlaga sig breyttum aðstæðum við brotthvarf Aron Más Smárasonar.

Styrkleikar: Liðið er lítið breytt frá því á síðustu leiktíð og það mun hjálpa liðinu í sumar. Samheldnin er mikil og menn þekkja hvern annan út og inn.

Veikleikar: Það gæti farið svo að sóknarleikur liðsins verði áhyggjuefni ef tekið er mið af sóknarleik liðsins í vetur. Aron Már Smárason hefur verið þeirra helsti markaskorari en hann er floginn á braut.

Þjálfari: Marko Tanasic. Sýndi hæfni sína sem þjálfari með KS/Leiftur á sínum tíma. Veit nákvæmlega hvað liðið þarf að gera til þess að komast upp úr deildinni. Liðið hefur tekið miklum framförum undir hans stjórn.

Lykilmenn: Gestur Gylfason, Ingvar Jónsson og Rafn Markús Vilbergsson

Komnir: Dusan Ivkovic frá Selfossi, Milos Tanasic frá KS/Leiftri, Ólafur Jón Jónsson frá Keflavík, Jón Þór Elfarsson frá Keflavík, Ragnar Magnússon frá Keflavík

Farnir: Albert Högni Arason til Noregs, Aron Már Smárason í Breiðablik, Marko Moravic til Króatíu, Marko Valdimar Stefánsson í Grindavík, Vignir Benediktsson í Breiðablik.


Spá fyrirliða og þjálfara:
Spá fyrirliða og þjálfara:
1. Grótta 229 stig
2. Njarðvík 226 stig
3. Hvöt 175 stig
4. Reynir Sandgerði 169 stig
5. Víðir Garði 150 stig
6. Tindastóll 127 stig
7. Höttur 126 stig
8. Magni 100 stig
9. KS/Leiftur 85 stig
10. BÍ/Bolungarvík 83 stig
11. ÍH/HV 63 stig
12. Hamar 51 stig
Athugasemdir
banner