Einar Matthías Kristjánsson skrifar frá Selfossi
Selfoss 2-2 Haukar
0-1 Ásgeir Þór Ingólfsson ('16)
0-2 Pétur Ásbjörn Sæmundsson ('38)
1-2 Sævar Þór Gíslason (41)
2-2 Sævar Þór Gíslason ('89)
0-1 Ásgeir Þór Ingólfsson ('16)
0-2 Pétur Ásbjörn Sæmundsson ('38)
1-2 Sævar Þór Gíslason (41)
2-2 Sævar Þór Gíslason ('89)
Selfoss og Haukar gerðu 2-2 jafntefli í hörkuleik í sumarblíðunni á Selfossi að viðstöddu fjölmenni. Ásgeir Þór Ingólfsson og Pétur Ásbjörn Sæmundsson komu Haukum í 0-2 en Sævar Þór Gíslason jafnaði metin fyrir Selfoss með mörkum undir lokin á sitthvorum hálfleiknum.
Fyrri hálfleikinn byrjuðu Haukar að nokkuð meiri krafti heldur en heimamenn og pressuðu nokkuð hátt á vellinum án þess að skapa sér nein umtalsverð færi . Raunar voru það Selfyssingar sem sköpuðu fyrst einhverja teljandi hættu í leiknum er Amir Mehica markvörður Hauka missti boltann eftir horn, hann náði þó að verja laust skot Selfyssinga framhjá. Mínútu síðar áttu síðan Selfyssingar aftur horn sem Agnar Bragi skallaði hárfínt framhjá Haukamarkinu.
Á 15.mínútu fékk Hilmar Geir Eiðson boltan í vítateig Selfyssinga, þar tók hann frábæran snúning og lék með því vörn heimamanna alveg upp úr skónum, boltann sendi hann út í teiginn á Ásgeir sem átti misheppnaða sendingu og færið fór forgörðum, glæsilegir taktar hjá Hilmari engu að síður.
Strax í næstu sókn gekk þetta síðan upp hjá Haukum er Hilmar fékk boltann aftur út á vinstri kanti, kom honum þaðan fyrir markið og beint á kollinn á dauðafrían Ásgeir Þór Ingólfsson sem skallaði í markið án þess að Jóhann Ólafur í marki Selfyssinga næði að koma vörnum við, 0-1 fyrir Hauka.
Eftir þetta vöknuðu heimamenn aðeins til lífsins og fór að færa sig framar á völlinn, Haukar beittu hættulegum stungusendingum á móti og sköpuðu hættulegir sóknarmenn þeirra oftar en ekki usla í vörn heimamanna.
Á 37.mínútu áttu Selfyssingar gott spil upp að marki Hauka, þar fór eimreiðin Einar Ottó Antonsson fremstur í flokki og átti hann að endingu skot sem Amir rétt náði að verja í horn.
Í kjölfarið á horninu brunuðu Haukar upp vinstri kanntinn hinumegin á vellinum og unnu sér inn aukaspyrnu. Hana útfærðu þeir skemmtilega og spiluðu sig glæsilega í gengum vörn heimamanna, að lokum barst boltinn hægra megin í vítateig Selfyssinga þar sem Pétur Ásbjörn Sæmundsson tók við honum og setti snyrtilega í netið án þess að Jóhann Ólafur kæmi vörnum við, þó hann hafi reyndar verið í boltanum.
Þremur mínútum eftir mark Hauka fékk Guðmundur Þórarinsson hjá Selfyssingum boltann út á vinstri og kanti sendi fyrir í átt að Sævari Gísla. Sævar náði að pota aðeins í boltann áður en Amir í marki Hauka náði honum, við það skoppaði boltinn yfir Amir og Sævar komst einn í gegn og setti boltann í autt markið.
Þannig var staðan í hálfleik, 1-2 fyrir gestina sem nýttu leikhléið til að taka fyrirliða sinn Þórhall Dan útaf og settu Stefán Jónsson inn á í staðin.
Í seinni hálfleik var mun meiri kraftur í heimamönnum sem hafa að öllum líkindum fengið hressilega ræðu í hálfleik. Haukar spiluðu hinsvegar vel skipulagða vörn og gáfu Selfyssingum sjaldan opin færi. Á 60.mínútu voru heimamenn þó afar nærri því að jafna metin er Sævar Gíslason komst í gegn og reyndi misheppnaða sendingu á Arilíus Marteinsson sem var einn og óvaldaður á markteigslínunni.
Á 63.mín komst Guðjón Lýðsson einn í gegn hjá gestunum en Jóhann Ólafur varði glæsilega frá honum. Liðin héldu áfram að beita skyndiáhlaupum án þess þó að ná að skapa sér umtalsverða hættu.
Síðasta korterið óx pressa heimamann síðan jafnt og þétt og mark lá í loftinu, Jón Daði sem kom inná sem varamaður skallaði boltann að marki en Amir náði að blaka boltanum yfir. Stuttu seinna átti Jón Guðbrandsson sem einnig kom inná sem varamaður skalla í þverslá Haukamarksins.
Undir lokin fóru Haukar að reyna að tefja leikinn og halda fengnum hlut, slíkt er hættulegt þegar menn á borð við Sævar Þór Gíslason eru sjóðandi heitir í hinu liðinu og svo fór á 89.mínútu leiksins að hann jafnaði metin verðskuldað fyrir Selfyssinga, 2-2.
Markið kom út frá löngu innkasti frá Stefáni Ragnari, hann kastaði inn í teig þar sem Jón Guðbrandsson flikkaði boltanum áfram og fyrir fætur Sævars sem laumaði honum örugglega í hornið.
Markinu var gríðarlega vel fagnað af heimamönnum, en engum þó meira en arkitektunum, þeim Stefáni og Sævari, en sá fyrrnefndi afrekaði það að rota markaskorarann í fagnaðarlátunum þannig að hann lá vankaður eftir. Hann hristi það af sér og niðurstaðan varð sanngjarnt 2-2 jafntefli á Selfossvelli.
Tölfræði úr leiknum:
Selfoss marktilrunir 17
Selfoss horn 11
Haukar marktilraunir 9
Haukar horn 0
Ummæli eftir leik:
Arilíus Marteinsson leikmaður Selfyssinga:
,,Ég er ekki alveg nógu sáttur við leikinn, en þó er frábært að ná inn stigi í lokin úr því sem komið var og jafnframt að halda Haukum frá okkur. Við áttum allavega stig skilið miðað við færi t.d áttum við 11 horn, en þeir ekkert og þrisvar fór boltinn í slána hjá Haukum. Svona er reyndar karma fótboltans oft, í fyrra fórum við á þeirra heimavöll og gátum ekkert en unnum leikinn 1-3 og nú fá þeir kannski ódýr stig í staðin."
Aðspurður um góðan leik sinn í kvöld sagði Arilíus: ,,Já ég persónulega er að finna mitt gamla form, við opnuðum þá oft í fyrri hálfleik og leikmenn voru að finna mig í fótinn þá. En að sama skapi vorum við ekki nógu traustir varnarlega í fyrri. Svo eigum við seinni hálfleik alveg, en vorum ekki nógu þolinmóðir. Við vorum aðeins í því að reyna að skora jöfnunar- og sigurmark í sömu sókn."
Næsti leikur er gegn ÍA og hvernig líst Arilíusi á það verkefni? ,,Já það verður gaman að koma upp á Skipaskaga, við byrjum þann leik eins og við endum þennan. Ég held að Skjálftastrákarnir ætli að koma með okkur þangað og ég vill í lokin þakka þeim fyrir góðan dag og lýsa yfir ánægju með að þeir skuli vera komnir úr sumarfríi," sagði Arilíus með bros á vör.
Hilmar Trausti Arnarsson leikmaður Hauka:
,,Þetta var hrikalega svekkjandi. Þeir voru búnir að liggja svolítið á okkur án þess þó að skapa sér færi. Aðalhættan skapaðist í föstum leikatriðum hjá þeim úr hornspyrnum og löngum innökstum. Síðan var þetta einbeitingarleysi í lokin og boltinn dettur fyrir Sævar sem potar honum inn."
,,Það er alls ekki slæmt að fara austur á Selfoss og ná í stig, þeir eru náttúrulega í toppsætinu en miðað við hvernig leikurinn spilaðist þá var hrikalega svekkjandi að fá á þetta jöfnunarmark á sig í lokin eftir að við komumst í 2-0 í fyrri hálfleik."
,,Við ætlum að halda okkur í þessari baráttu eins lengi og mögulegt er. Við förum í alla leiki til að vinna. Við erum búnir að spila við flest öll liðin í deildinni og við sjáum það alveg að við erum síst slakari en þessi lið."
Athugasemdir