Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   þri 14. júlí 2009 22:35
Arnar Daði Arnarsson
1.deild umfjöllun: Þór fór með sigur af hólmi í rokinu á Ásvöllum
Hreinn Hringsson með boltann í leiknum í kvöld.
Hreinn Hringsson með boltann í leiknum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Alexander Linta á sprettinum.
Alexander Linta á sprettinum.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Þórsarar fagna marki Einars Sigþórssonar.
Þórsarar fagna marki Einars Sigþórssonar.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Haukar 1 - 2 Þór
0-1 Einar Sigþórsson ('10)
0-2 Ármann Pétur Ævarsson ('70)
1-2 Hilmar Geir Eiðsson ('82)

Það munaði ellefu stigum á liðum Hauka og Þórs fyrir leik liðanna í kvöld. Haukar voru í 2.sæti deildarinnar með 20 stig en Þórsarar með 9 stig í 10.sæti. Það var mikið í húfi fyrir bæði lið í þessum leik, Haukar gátu náð Selfyssingum á stigum og með hagstæðum úrslitum upp á skipaskaga en að sama skapi var gríðarlega mikilvægt fyrir gestina frá Akureyri að innbyrða öll stigin en fyrri umferðin hjá Þórsurum hefur verið erfið í meira lagi en miklar væntingar voru gerðar í garð Þórs fyrir tímabilið.

Fyrirliði Hauka, Þórhallur Dan Jóhannsson var ekki í leikmannahópi Hauka í dag vegna meiðsla og Hilmar Trausti Arnarsson varafyrirliði Hauka einnig ekki með liðinu í dag vegna meiðsla og bar Goran Lukic því fyrirliðaband Hauka í leiknum. Andri Marteinsson þjálfari Hauka gerði tvær breytingar á sínu liði frá leiknum gegn Selfossi, en Hilmar Rafn Emilsson og Úlfar Hrafn Pálsson komu inn í liðið í stað Þórhalls og Hilmars Trausta.

Lárus Orri Sigurðsson þálfari Þórs einnig tvær breytingar á sínu liði frá sigurleiknum í síðasta leik gegn Aftureldingu en Atli Sigurjónsson og Ottó Hólm Reynisson fóru báðir úr byrjunarliðinu og í þeirra stað komu þeir Þorsteinn Ingason og Hreinn Hringsson. Atli tók út leikbann í leiknum í dag eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið undir lok leiks í síðasta leik.

Leikurinn byrjaði nokkuð rólega og lítið sem ekkert gerðist fyrstu tíu mínútur leiksins en úr fyrsta skoti leiksins kom mark frá gestunum, en þar var að verki Einar Sigþórsson eftir laglegan undirbúning frá Sveini Elíasi Jónssyni. En þrír Þórsarar sóttu á tvo varnarmenn Hauka og var Einar aleinn hægra megin í teignum og skoraði nokkuð auðveldlega framhjá Amir Mehica í marki Hauka.

Eftir markið vöknuðu Hauka örlítið til lífsins og fékk Garðar Ingvar Geirsson ágætis tækigæti til að skjóta á mark Þórsara en hann ákvað í staðin að gefa boltann út í teiginn en varnarmaður Þórs náði að bægja hættunni frá. Nokkru síðar átti Guðjón Pétur Lýðsson fínt skot fyrir utan teig en boltinn fór nokkuð framhjá.

Mikill vindur var að marki Þórsara í fyrri hálfleik og var erfitt fyrir bæði lið að halda boltanum sín á milli, langar sendingar Þórsara fóru oftar en ekki langt upp í loftið og á sama skapi fóru langar sendingar Hauka oftast lengra en ætlast vera til og enduðu oftast hjá Birni Hákoni Sveinssyni sem gerði vel eftir hálftíma leik þegar Garðar Geirsson slapp einn í gegn en Björn mætti vel á móti og náði að hreinsa frá.

Haukarnir sóttu mun meira í fyrri hálfleik eftir að hafa lent undir og lá mark hjá þeim algjörlega í loftinu en boltinn virtist ekki ætla inn og staðan í hálfleik því 0-1 Þórsurum í vil. En Þórsarar gerðu vel í því að loka á Haukana og beita svo skyndisóknum sem urðu ekkert ýkja margar enda eins og fyrr segir fóru sendingar Þórs oftar en ekki upp í loftið og fengu Haukarnir boltann að ný.

Eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik fór Atli Jens Albertsson af velli vegna meiðsla og inn á fyrir hann kom Matthás Örn Friðriksson. Ekkert gerðist fyrstu 20.mínúturnar í seinni hálfleik, þangað til á 70.mínútu.

Þá gaf Einar Sigþórsson sem var hægra megin í vítateig Hauka boltann á Ármann Pétur Ævarsson sem skallaði boltann í stöngina og inn og norðanmenn því komnir í 2-0. Seinni hálfleikurinn var búinn að vera frekar tíðindalítill en Þórsarar sóttu þó aðeins meira án þess að skapa sér nein alvöru færi.

Á 82.mínútu minnkuðu Hauka hinsvegar muninn þegar Hilmar Geir Eiðsson fékk boltann innfyrir vörn Þórs eftir góða, háa og langa sendingu frá Guðjóni Pétri Lýðssyni, Hilmar Geir lagði boltann undir Björn Hákon í marki Þórs og staðan því orðin 1-2.
Haukarnir gerðu hvað þeir gátu til að jafna metin undir lokin og í uppbótartíma fékk Hilmar Rafn Emilsson boltann inn í teig Þórsara en skot hans fór hátt yfir.

Lokatölur því 1-2 fyrir Þór. Þórsararnir gerðu vel að halda forystunni og skoruðu svo annað markið sem virtist hafa gulltryggt þeim sigurinn þó að Haukar hafi náð að minnka muninn. Haukarnir spiluðu ekki nægilega vel og nýttu sér ekki nægilega vel að vera meira með boltann í leiknum og náðu ekki nægilega oft skot að marki Þórs.
Athugasemdir
banner
banner
banner