Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   þri 14. júlí 2009 22:36
Arnar Daði Arnarsson
Lárus Orri: Hundleiðinlegt að spila á gervigrasi á miðju sumri
Ætluðum okkur í byrjun móts að vera blanda okkur í toppbaráttuna sagði Lárus Orri þjálfari Þórs.
Lárus Orri Sigurðsson.
Lárus Orri Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Þórsarar fagna marki í kvöld.
Þórsarar fagna marki í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Lárus Orri Sigurðsson þjálfari Þórs var að vonum sáttur með sigurinn gegn Haukum í kvöld en lærisveinar hans fóru með 2-1 sigur af hólmi í Hafnarfirðinum. Þórsarar eru með sigrinum komnir með 12 stig eftir 11 leiki.

,,Í fyrri hálfleik áttum við margar góðar sóknir sem hefðu getað skilað sér í fleiri betri sóknum og í seinni hálfleik man ég eftir einu tilfelli þegar þegar við sóttum þrír á móti einum og svo þegar við hugsum um þeirra færi, þeir fengu eitt dauðafæri undir lokin, svo ég mundi ekki segja annað en þetta hafi verið sanngjarn sigur," sagði Lárus Orri við Fótbolta.net eftir leik.

,,Við börðumst vel allan leikinn, auðvitað komust þeir meira inn í leikinn í seinni hálfleik. Málið er þegar maður er að spila á þessu blessaða gervigrasi þá er auðveldara að spila á móti vindi, það er mjög erfitt að halda boltanum inn á vellinum svo þetta var ekkert nema sanngjarn sigur."

,,Það var mjög gott að fá þetta mark svona snemma leiks og það gaf okkur meiri trú á þessu. Það er erfitt að koma hérna, Haukarnir hafa verið að standa sig vel í sumar og það er hundleiðinlegt að koma hingað á miðju sumri og spila á gervigrasi, " en eins og fyrr segir eru Þórsarar komnir með 12 stig úr fyrstu 11 leikjum sumarsins og nú hafa þeir náð tveimur sigurleikjum í röð.

,,Þetta er búið að vera brekka hjá okkur í sumar, svo það var mjög gott að enda fyrri umferðina á tveimur sigur leikjum svo við förum með 12 stig úr fyrri umferðinni sem við hefðum auðvitað viljað að hefði verið fleiri en nú bíðum við bara spenntir eftir seinni umferðinni. "

Eftir að Þórsararnir komust yfir bökkuðu þeir nokkuð mikið en Haukar sóttu með vindinn í bakið í fyrri hálfleik og fóru hreinsanir Þórsara því ekkert mikið lengra en út að miðju en þar var oftar en ekki bara Hreinn Hringsson einn og ráðvilltur, Lárus Orri sagði að hann hafi lagt upp sömu 'taktík' fyrir þennan leik eins og alla aðra,

,,Ég lagði upp með fyrir þennan leik nákvæmlega eins og alla aðra leiki, við sitjum bara þegar við eigum að verjast og reynum að sækja hratt og þegar við erum með boltann þá reynum við að halda honum og spila honum."

,,Við ætluðum í upphafi móts að vera blanda okkur í toppbaráttuna en það er ýmislegt sem hefur verið að ganga á og fótbolti er bara svona. Við erum staddir ennþá í botnbaráttu og munum berjast í henni meðan við erum orðnir 'save' frá falli," sagði Lárus sem hélt sér alveg rólegum og var alveg niður á jörðinni og sagði að það þýddi ekkert að hugsa mikið langt fram í tímann, heldur bara á næsta leik sem er útileikur gegn ÍA.

,,Við verðum bara að einbeita okkur á því sem við erum í núna, núna erum við að reyna koma okkur frá botninum og erum að berjast í því. Næsti leikur verður mjög erfiður þegar við förum upp á skaga og ég held að aldrei nokkurntímann hafi lið farið upp á skaga og átt auðveldan leik," sagði Lárus Orri að lokum við Fótbolti.net
Athugasemdir
banner
banner
banner