KR og Halmstad hafa í dag átt í viðræðum varðandi kaup sænska félagsins á Jónasi Guðna Sævarssyni fyrirliða Vesturbæinga.
Halmstad hefur haft augastað á Jónasi síðan í byrjun sumars og góður skriður er nú kominn í samningaviðræður milli félaganna.
Halmstad gerði tilboð á dögunum sem KR-ingum þótti alltof lágt en núna virðist ekki vera langt í að félögin nái saman.
,,Við reiknum með að heyra aftur frá þeim í kvöld eða á morgun," sagði Rúnar Kristinsson yfirmaður knattspyrnumála hjá KR við Fótbolta.net í dag.
,,Þetta hefur verið á mjög góðu viðræðustigi eftir að þeir hækkuðu tilboð sitt. Við erum farnir að ræða saman á góðum nótum og þetta lítur ágætlega út fyrir Jónas og okkur."
Rúnar telur líklegra en ekki að félögin muni ná saman um kaupverð á endanum.
,,Ég tel líklegra að samningar náist en annars veit maður aldrei. Menn geta fengið flugu í hausinn einn góðan veðurdag og hætt við allt saman," sagði Rúnar.
Athugasemdir