Emil Hallfreðsson er hugsanlega á leiðinni til enska 1. deildarliðsins Barnsley en þetta herma áreiðanlegar heimildir Fótbolti.net á Ítalíu.
Emil, sem hefur verið orðaður við nokkur ítölsk úrvalsdeildarlið í sumar, fékk lítið að spreyta sig með Reggina þegar liðið féll úr ítölsku úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili og vill hann komast burt frá félaginu.
Samkvæmt heimildum Fótbolti.net er mögulegt að Emil skrifi undir eins árs lánssamning við Barnsley í þessari viku en ekki er útilokað að hann gangi alfarið til liðs við félagið.
Ekki náðist í Emil við vinnslu þessarar fréttar og þá neitaði talsmaður Barnsley að tjá sig um málið í samtali við Fótbolti.net í morgun.
Barnsley hafnaði í 21. sæti ensku 1. deildarinnar á síðasta keppnistímabili.
Athugasemdir