,,Þetta færir okkur nær markmiðinu sem sett var eftir fyrri umferðina og það er að fara upp í Pepsi-deildina. Þessir strákar hafa sannarlega áhuga og getu í að gera það og ég vona að menn klári þetta núna," sagði Andri Marteinsson þjálfari Hauka glaður í bragði við Fótbolta.net eftir 1-0 sigur liðsins á ÍA í 1.deild karla í dag.
,,Ég er ánægður með margt í leiknum en í seinni hálfleik fannst mér við hleypa þeim full mikið inn í leikinn. Mér fannst Skagamennirnir stýra seinni hálfleiknum sóknarlega en mér fannst varnarleikurinn hjá okkur vera það jákvæða því að við hleyptum þeim ekki í opin tækifæri. Við vorum að bjóða hættunni heim þannig að ég var ósáttur við það en sáttur við niðurstöðuna."
Margir ungir og sprækir leikmenn eru í liði Hauka en liðið hefur einnig reynslubolta eins og fyrirliðann Þórhall Dan Jóhannsson.
,,Þetta er gríðarlega skemmtilegur hópur. Blanda af ungum og gömlum, það má ekki gleyma gamalmennunum."
,,Það er uppskrift af góðum hópi að vera með góða blöndu af ungum og eldri þannig að þeir eldri geti miðlað til þeirra yngri. Þeir yngri læra fyrr en ella þegar að það eru fleiri aðstoðarmenn á svæðinu."
,,Það er frábær mórall í hópnum. Á sama tíma við í fyrra vorum við í niðursveiflu eftir að hafa náð ágætis skriði um miðbik móts og þá var mórallinn ekkert eins góður. Auðvitað er auðvelt að vera með hóp í höndunum sem er glaður og ánægður þegar að vel gengur. Það er þannig núna og ég ætla að njóta þess," sagði Andri að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir