Andri Marteinsson þjálfari Hauka var eins og hann orðaði það, nánast óánægður með hverja einustu mínútu hjá sínu liði í leiknum í kvöld gegn ÍR en hans menn töpuðu illa, 3-0. Þetta var einungis annar leikurinn hjá Haukum í sumar sem þeir skora ekki í mark og voru varla nálægt því í leiknum í kvöld.
,,Þetta er annað tapið okkar í sumar sem við áttum verðskuldað að tapa og báðir leikirnir eru gegn sama liði, ÍR. Ég ætla ekki að reyna útskýra hvað það er, en í báðum leikjunum þá mætti mitt lið ekki tilbúið til leiks og virkuðu eins og krakkar í höndunum á ÍR og það er eiginlega ekkert annað um það að segja nema að þetta hafi verið grútlélegt, hundleiðinlegt til áhorfðar og ég held að menn verði bara að líta í eigin barm og hugsa sinn gang," sagði Andri Marteinsson eftir leikinn, en aðspurður um sæti í Úrvalsdeildinni sagði hann þetta,
,,Auðvitað erum við áfram í sénsinum og allt það en það er jafnt fúlt að horfa upp á svona frammistöðu eins og boðið var upp á hér í dag. En við alveg eins þótt við sigrum eða töpum þá notum við næsta sólarhring á eftir annað hvort til að hlakka yfir sigrinum eða vera í fýlu og svo er það bara búið og næsta verkefni og næsti leikur og við ætlum ennþá að klára þetta og fara upp og ég vona bara að mínir menn mæti til leiks klárir og tilbúnir í næsta leik sem er gegn Víkingi, það er næsta verkefni," sagði Andri sem var nánast óánægður með allt í leiknum í kvöld, en Haukarnir fengu nokkur ágætis færi í fyrri hálfleik,
,,Ég er óánægður með nánast hverja einustu mínútu," sagði Andri hægt og rólega og með áherslu á hvern einasta sérhljóða í orðunum, ,,Við vorum að fá einhver færi en miðað við hvað þetta lið (Haukar) getur sóknarlega þá var þetta varla færi sem hægt er að tala um. Ég veit ekki hvort það hefði breytt einhverju þótt við hefðum skorað, hvort leikmennirnir hefðu vaknað eftir það, ég þori ekki að segja neitt til um það."
,,Mér fannst þetta var stórfurðulegur fyrri hálfleikur, ég sá ekki til þeirra lykilmanna í fyrri hálfleik en samt var staðan orðin 2-0 fyrir þeim eftir hálftíma leik. Ég get eiginlega ekki útskýrt þetta, við vorum eiginlega bara teknir í bólinu."
Að lokum spurðum við Andra að því hvort hann sé eitthvað smeykur um að svona lagað mundi gerast aftur í sumar hjá þeim ?
,,Við erum klárlega búnir að sýna stöðugleika í sumar, þetta skrifast bara á sem slys. Næsti leikur er bara nýr leikur ég er ekkert hræddur við að þetta gerist aftur," sagði Andri Marteinsson þjálfari Hauka sem mætir sínu gamla félagi, Víking Reykjavík í næstu umferð á Ásvöllum.
Athugasemdir