Þá er komið að öðrum slúðurpakka úr íslenska boltanum í haust en fyrsti íslenski slúðurpakkinn birtist undir lok síðasta mánaðar. Í slúðurpakkanum kemur fram helsti orðrómurinn sem gengur í bænum en við ítrekum að þetta er bara orðrómur, ekkert er staðfest fyrr en frétt með fyrirsögn sem hefur orðið (Staðfest) innan sviga birtist hér á Fótbolta.net.
Félög mega ræða strax við leikmenn með samþykki núverandi félags þeirra en leikmenn sem renna út á samningi á árinu eða um áramót má byrja að ræða við beint 16. október og þá þarf ekki að ræða við núverandi félag leikmannsins.
Slúðurpakkinn er einungis til að hafa gaman af og ef menn hafa ábendingar varðandi pakkann eða um slúður hafið þá samband á [email protected].
Félög mega ræða strax við leikmenn með samþykki núverandi félags þeirra en leikmenn sem renna út á samningi á árinu eða um áramót má byrja að ræða við beint 16. október og þá þarf ekki að ræða við núverandi félag leikmannsins.
Slúðurpakkinn er einungis til að hafa gaman af og ef menn hafa ábendingar varðandi pakkann eða um slúður hafið þá samband á [email protected].
FH: Ekki er ennþá ljóst hvort að danski varnarmaðurinn Tommy Nielsen verði áfram hjá FH og þá er Tryggvi Guðmundsson orðaður við önnur félög. Zlatko Krikic, ungur leikmaður HK, er orðaður við FH-inga.
KR: Alfreð Finnbogason, efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins, er orðaður við KR en hann er þó einnig eftirsóttur af erlendum félögum. Helgi Sigurðsson er sagður vera á óskalista KR sem og David Disztl, framherji KA. Bjarni Ólafur Eiríksson varnarmaður Vals gæti farið í KR og Hafsteinn Briem, miðjumaður HK, er einnig á óskalista KR-inga sem eru tregir til að selja Guðmund Pétursson til Breiðabliks.
Fylkir: Agnar Bragi Magnússon, miðvörður Selfyssinga, gæti gengið aftur til liðs við uppeldisfélag sitt Fylki. Árni Freyr Guðnason hjá ÍR og Jón Vilhelm Ákason hjá ÍA eru á óskalista Fylkis og þá er félagið að reyna að fá Ásgeir Aron Ásgeirsson frá Fjölni.
Fram: Óvíst er með framtíð Paul McShane og Heiðars Geirs Júlíussonar. Þá gæti Auðun Helgason lagt skóna á hilluna en Framarar eru þó að reyna að fá hann í þjálfunarstöðu hjá félaginu. Jökull Elísabetarson miðjumaður Víkings R. er orðaður við Fram sem og Stefán Jóhann Eggertsson hægri bakvörður HK og Brynjar Gauti Guðjónsson leikmaður Víkings frá Ólafsvík.
Breiðablik: Miðjumaðurinn efnilegi Björn Daníel Sverrisson gæti komið til Blika frá FH. Blikar vilja líka fá Steinþór Frey Þorsteinsson aftur frá Stjörnunni og Milos Milojevic, leikmaður Hamars, hefur æft með Blikum undanfarið og ekki er ólíklegt að hann komi til liðsins. Þá ætla bikarmeistararnir að kaupa Guðmund Pétursson en hann hefur verið í láni frá KR.
Keflavík: Hafa áhuga á að fá Ásgeir Þór Ingólfsson frá Haukum en að öðru leyti hefur lítið heyrst af Keflvíkingum.
Stjarnan: Guðmann Þórisson, varnarmaður Breiðabliks, er á óskalista Stjörnunnar og þá bendir allt til þess að Atli Jóhannsson komi til liðsins frá KR. Vinstri bakvörðurinn Hafsteinn Rúnar Helgason gæti aftur á móti verið á förum frá Stjörnunni.
Valur: Helgi Sigurðsson er farinn frá Val og þeir Pétur Georg Markan og Atli Sveinn Þórarinsson gætu einnig farið auk þess sem markvörðurinn Kjartan Sturluson verður líklega seldur. Blikarnir Alfreð Finnbogason og Arnór Sveinn Aðalsteinsson eru á óskalista Vals og þá hefur Viktor Bjarki Arnarsson verið orðaður við félagið líkt og Heiðar Geir Júlíusson leikmaður Fram. Atli Jóhannsson og Brynjar Gauti Guðjónsson úr Víkingi Ólafsvík hafa einnig verið orðaðir við Valsmenn.
Grindavík: Paul McSane gæti komið aftur til Grindavíkur frá Fram en hann er efstur á óskalista félagsins. Árni Freyr Guðnason hjá ÍR, Hafsteinn Rúnar Helgason hjá Stjörnunni og Brynjar Gauti Guðjónsson hjá Víkingi Ólafsvík eru einnig á óskalista Grindvíkinga.
ÍBV: Augustine Nsumba og Andrew Mwesigwa eru væntanlega á förum frá ÍBV. Eyjamenn eru að skoða hvort möguleiki sé á að fá Tryggva Guðmundsson frá FH og Hafstein Briem miðjumann HK.
Selfoss: Guðmundur Benediktsson, nýráðinn þjálfari Selfyssinga mun væntanlega fá reynslubolta með sér til félagsins. Sigurvin Ólafsson, Sigurbjörn Hreiðarsson og Tryggvi Guðmundsson hafa verið nefndir í því samhengi. Árni Freyr Guðnason leikmaður ÍR er einnig á óskalista Selfyssinga eins og hjá mörgum öðrum liðum og þá eru nýliðarnir að leita að miðverði en Guðmann Þórisson hefur verið nefndur í því samhengi.
Haukar: Ætla að styrkja sig fyrir Pepsi-deildina næsta sumar og nokkur nöfn hafa heyrst í því sambandi. Guðmundur Viðar Mete, varnarmaður Vals, ku vera búinn að semja við Hauka og þá er Magnús Björgvinsson framherji Stjörnunnar líklega á leið í Hafnarfjörðinn. Kjartan Sturluson, markvörður Vals, Þórður Ingason, markvörður Fjölnis, Hákon Hallfreðsson, miðjumaður FH, Ásgeir Aron Ásgeirsson, varnarmaður Fjölnis og Jóhann Ragnar Benediktsson miðjumaður Fjarðabyggðar hafa einnig verið orðaðir við Hauka. Þá gæla Haukar við að Þórhallur Dan Jóhannsson hætti við að hætta en hann ætlar að skoða stöðuna í vetur.
Fjölnir: Pétur Georg Markan er á leið aftur til Fjölnis eftir eitt ár í herbúðum Vals. Magnús Ingi Einarsson fyrirliði Fjölnismanna mun væntanlega leggja skóna á hilluna. Ásgeir Aron Ásgeirsson er eftirsóttur en Fjölnismenn eru að reyna að berjast fyrir því að halda honum. Þá hefur markvörðurinn Þórður Ingason áhuga á að ganga til liðs við félag í Pepsi-deildinni.
Þróttur R.: Erlingur Jack Guðmundsson og Guðfinnur Þórir Ómarsson munu koma í sitt gamla félag frá ÍR. Ingvar Þór Ólason, leikmaður Fram, gæti einnig gengið til liðs við Þrótt að nýju og þá sem spilandi aðstoðarþjálfari.
HK: Almir Cosic gæti lagt skóna á hilluna. Hafsteinn Briem er eftirsóttur og þá gæti Rúnar Már Sigurjónsson einnig verið á förum.
Þór: Eyþór Atli Einarsson leikmaður Fjölnis er orðaður við Þórsara.
ÍR: Þórhallur Dan Jóhannsson, varnarmaður Hauka, er á óskalista ÍR. Þórhallur Dan hefur lýst því yfir að hann sé hættur en ÍR-ingar ætla að reyna að fá hann til að hætta við þá ákvörðun.
Víkingur R.: Helgi Sigurðsson er sterklega orðaður við Víking. Steinþór Freyr Gíslason gæti einnig komið frá Val og Dennis Danry frá Þrótti auk þess sem Víkingar hafa áhuga á Árna Frey Guðnasyni og Hermanni Aðalgeirssyni.
Grótta: Ólafur Páll Johnson, leikmaður Fjölnis, gæti gengið til liðs við Gróttu en hann er uppalinn hjá nágrönnunum í KR.
Njarðvík: Helgi Bogason er að gera upp hug sinn hvort hann haldi áfram með Njarðvík. Rafn Markús Vilbergsson markahæsti leikmaður félagsins verður líklega ekki áfram og bakvörðurinn Alexander Magnússon mun einnig vera á förum. Reynsluboltinn Gestur Gylfason ætlar hins vegar að taka eitt ár í viðbót.
Afturelding: Kristján Guðmundsson, fyrrverandi þjálfari Keflvíkinga, er orðaður við þjálfarastöðuna í Mosfellsbæ.
Víkingur Ólafsvík: Hinn efnilegi Brynjar Gauti Guðjónsson er eftirsóttur en fregnir herma að hann verði jafnvel áfram í herbúðum Ólafsvíkinga.
Reynir S.: Kristján Óli Sigurðsson hætti hjá Reyni undir lok móts en hann stefnir á að fara aftur í efstu deild. Ólafur Ívar Jónsson og Magnús Ólafsson eru hættir hjá Reyni en félagið er að reyna að fá Hörð Inga Harðarson frá nágrönnum sínum í Víði Garði.
BÍ/Bolungarvík: Zeljko Sankovic er orðaður við þjálfarastöðuna hjá BÍ/Bolungarvík en hann er einnig með tilboð frá Norðurlöndunum.
Höttur: Hattarmenn eru ennþá í þjálfaraleit. Eysteinn Húni Hauksson, fyrrum leikmaður Grindvíkinga, verður ekki næsti þjálfari liðsins en hann hafði verið orðaður við þjálfarastöðuna á dögunum.
Víðir: Jóhann Birnir Guðmundsson, leikmaður Keflvikinga, hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá Viði en hann er úr Garðinum.
Völsungur: Jóhannes Kristinn Gunnarsson mun halda áfram sem þjálfari Völsungs. Kjartan Páll Þórarinsson, markvörður Aftureldingar, er orðaður við liðið og þá vilja Völsungar halda Hermanni Aðalgeirssyni sem kom frá Fjölni og lék með liðinu síðari hluta sumars.
KV: Eggert Rafn Einarsson, bakvörður úr KR, er orðaður við KV líkt og Skúli Jónsson leikmaður Þróttar. Axel Ingi Magnússon leikmaður Fylkis er líka orðaður við KV en í sumar var hann í láni hjá Aftureldingu og Viði.
Athugasemdir