Sænska úrvalsdeildarliðið IFK Gautaborg er eitt fjölmargra liða á höttunum eftir Jóhanni Berg Guðmundssyni, miðjumanni AZ Alkmaar í Hollandi.
Samkvæmt heimildum Fótbolti.net í Svíþjóð fylgdust útsendarar frá IFK Gautaborg með Jóhanni í tveimur leikjum U-21 árs landsliðsins í undankeppni EM í haust, gegn Norður-Írum heima og að heiman.
Jóhann, sem er þriðji markahæsti leikmaður undankeppninnar til þessa eftir að hafa skorað fimm mörk í fimm leikjum, er einnig undir smásjá liða í Englandi, Danmörku og Þýsklandi.
Hins vegar má telja ólíklegt að hann yfirgefi herbúðir AZ Alkmaar að svo stöddu en hann hefur verið að spila vel með varaliði félagsins að undanförnu.
Þrír Íslendingar eru á mála hjá IFK Gautaborg, þeir Ragnar Sigurðsson, Hjálmar Jónsson og Theodór Elmar Bjarnason.
Athugasemdir