Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   mið 02. desember 2009 09:30
Þórður Már Sigfússon
Heimild: Eurosport.se 
IFK Gautaborg staðfestir að félagið fylgist með Jóhanni Berg
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Eins og Fótbolti.net greindi frá á sunnudag er Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður AZ Alkmaar, undir smásjá sænska úrvalsdeildarliðsins IFK Gautaborg og fylgdust útsendarar félagsins með miðjumanninum knáa í leikjum með U-21 árs landsliðinu í haust.

Sænskir fjölmiðar fóru á stúfana og grennsluðust fyrir um málið í kjölfar fréttar Fótbolti.net og staðfesti Stefan Rehn, þjálfari IFK Gautaborgar, í samtali við vefmiðilinn Eurosport.se í gærkvöldi að félagið hafi fylgst með Jóhanni en ekkert meira verði aðhafst að svo stöddu.

Jafnframt er þess getið að félagið hafi augastað á Gylfa Þór Sigurðssyni, miðjumanni Reading, en mjög ólíklegt verður að teljast að eitthvað meira verði úr þeim áhuga þar sem hann er nýbúinn að skrifa undir nýjan samning við enska liðið auk þess sem hann hefur verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu.

,,Það er rétt að við fylgdumst með (íslenska) U-21 árs landsliðinu í haust. Ég hef heyrt um þessa leikmenn en þetta er ekki forgangsmál og ég hef ekki séð þá spila persónulega,” sagði Rehn í samtali við Eurosport.se.

Þrír íslenskir leikmenn eru á mála hjá IFK Gautaborg en þeir eru Ragnar Sigurðsson, Theodór Elmar Bjarnason og Hjálmar Jónsson.

Sjá einnig:
Jóhann Berg undir smásjá IFK Gautaborgar

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner