Aron Einar Gunnarsson, miðjumaður Coventry, mun vera í eldlínunni í kvöld þegar að liðið mætir Portsmouth í endurteknum leik í enska bikarnum.
Í liði Portsmouth er Hermann Hreiðarsson en Aron mun í kvöld taka þátt í öðrum Íslendingaslagnum á nokkrum dögum því að um síðustu helgi sigraði Coventry lið Barnsley 3-1 þar sem að Emil Hallfreðsson var einnig í eldlínunni.
,,Það væri ekki leiðinlegt að taka bæði Emma og Hemma en þetta er annar leikur og önnur keppni," sagði Aron Einar við Fótbolta.net í gær.
,,Við erum að spila á móti úrvalsdeildarliði og við áttum okkur á því að við erum að spila á móti leikmönnum sem eru að fá mun betur borgað og eru með mun betri aðstöðu. Þetta verður erfiður leikur en við sýndum í fyrri leiknum að við getum staðið í þessum liðum."
Í fyrra sló Coventry lið Blackburn út úr bikarnum og mætti síðan Chelsea og Aron Einar vonar að liðið nái öðru bikarævintýri í ár.
,,Þessi keppni er gerð fyrir lið í neðri deildunum, það er mjög mikið af liðum sem koma á óvart eins og Leeds um daginn á móti Manchester og við höfum engu að tapa."
,,Ef við vinnum þá fáum við Sunderland heima. Það er erfitt að mæta úrvalsdeildarliðum en það er hægt að stríða þeim og sjá hvort að þau kikna undir pressu. Það er allt hægt í þessum bikar."
Portsmouth og Coventry gerðu 1-1 jafntefli þegar liðin mættust fyrr í mánuðinum en þá tókust Aron og Hermann á.
,,Við erum góðir félagar og við vorum smá að ýta og klípa. Dómarinn sagði okkur að stoppa en við sögðumst vera Íslendingar og að þetta væri ekkert alvarlegt. Þetta var bara gaman. Ég held að það verði gaman fyrir Íslendinga að sjá okkur kljást þarna."
Snjór og kuldi hefur sett mikið strik í reikninginn og haft áhrif á daglegt líf á Englandi að undanförnu en Aron kippir sér lítið upp við það.
,,Ég lýg að strákunum í liðinu að það sé þriggja metra hár snjór heima og -25 gráður. Þeir halda að maður sé voða harður og mæti í stuttermabol og stuttbuxum á æfingar en ég geri það ekki, maður má ekki drepa sig í töffaraskap."
,,Það er gaman að sjá hvað Englendingar panikka þegar að þeir sjá smá snjó. Allt verður stopp, fólk mætir ekki í vinnu og svona. Ég man þegar að ég var yngri þá var ég að klífa snjóinn til að bera út Moggann áður en ég fór í skólann þannig að ég skil ekki þetta væl í Englendingum," sagði Aron Einar að lokum léttur í bragði.
Athugasemdir