Þrír orðaðir við Man City - Chelsea og Liverpool á eftir Kerkez - Fer Vlahovic til Arsenal?
   fös 19. febrúar 2010 23:55
Hafliði Breiðfjörð
Reykjaneshallarmótið: Keflavík meistari eftir sigur á Grindavík
Reykjaneshallarmótsmeistarar 2010. Keflavík.
Reykjaneshallarmótsmeistarar 2010. Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði Keflavíkur hampar bikarnum í leikslok.
Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði Keflavíkur hampar bikarnum í leikslok.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jósef Kristinn Jósefsson var fyrirliði Grindavíkur og tók við bikarnum fyrir 2. sætið.
Jósef Kristinn Jósefsson var fyrirliði Grindavíkur og tók við bikarnum fyrir 2. sætið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þór Hinriksson aðstoðarmaður Willum Þórs Þórssonar með Keflavík var að vonum sáttur með bikarana.
Þór Hinriksson aðstoðarmaður Willum Þórs Þórssonar með Keflavík var að vonum sáttur með bikarana.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík 2-1 Grindavík:
1-0 Guðmundur Steinarsson (’45+)
1-1 Orri Freyr Hjaltalín (’72)
2-1 Bjarni Hólm Aðalsteinsson (’87)
Rautt spjald: Scott Ramsay (‘90+2)

Keflavík vann Grindavík með tveimur mörkum gegn einu í úrslitaleik Reykjaneshallarmótsins og þar með hefur liðið unnið fyrstu tvö mótin sem það hefur tekið þátt í því þeir unnu fyrr í vetur Futsal mótið sem er innanhúsknattspyrna á hörðu gólfi.

Kristinn Jakobsson dómari leiksins var með fjölmennt og mjög góðmennt teymi með sér í leikinn í dag því ekki bara voru þeir Sigurður Óli Þorleifsson og Ólafur Ingvar Guðfinnsson á línunni eins og svo oft áður heldur voru Þorvaldur Árnason og Magnús Þórisson endadómarar en þetta fimm manna teymi hefur áður dæmt saman í Evrópudeildinni.

Með Keflavík lék á vinstri kantinum Ómar Karl Sigurðsson fyrrverandi leikmaður Hauka en hann kemur frá Noregi þar sem hann lék í fyrra. Hann hefur fengið að æfa með liðinu upp á síðkastið.

Að venju var um hörkuleik að ræða milli þessara nágrannaliða og ekkert var gefið eftir hvar sem menn voru á vellinum. Leikurinn var fjörugur en þó vantaði afgerandi færi.

Keflavík komst yfir undir lok fyrri hálfleiks. Marko Valdimar Stefánsson sparkaði þá fótunum undan Herði Sveinssyni framherja Keflavíkur og Kristinn dæmdi vítaspyrnu. Guðmundur Steinarsson fór á punktinn og skoraði örugglega. Staðan í hálfleik því 1-0 fyrir Keflavík.

Bæði lið tefldu fram sínum sterkustu mönnum sem voru heilir í dag og ljóst að þarna fara lið sem verða gríðarlega öflug í sumar. Þrátt fyrir sterkt byrjunarlið gat Grindavík leyft sér að hafa framherjana sterku, Grétar Ólaf Hjartarson og Gilles Mbang Ondo á bekknum en þeir komu inná eftir um klukkutíma leik.

Á 72. mínútu jöfnuðu Grindvíkingar metin. Orri Freyr Hjaltalín skoraði þá með skoti úr teignum eftir sendingu Jósefs Kristins Jósefssonar af vinstri kanti. Keflvíkingar voru mjög ósáttir og töldu að um rangstöðu hafi verið að ræða. Kristinn og teymi hans stóð hinsvegar við markið og benti á að Guðjón Árni Antoníusson varnarmaður liðsins hafi verið hluti af leiknum þó hann hafi staðið utan vallar við endalínu, því hafi ekki verið rangstaða.

Þetta var svo útskýrt frekar af dómararteyminu á fjölmennum fundi fimm dómara og leikmanna Keflavíkur úti á miðjun velli eftir leik og leikmenn Keflavíkur þökkuðu dómarateyminu fyrir smá kennnslu á reglunum.

Liðin skiptust svo á að sækja í von um að tryggja sér sigurinn og fengu alveg færin til þess. Jósef Kristinn kantmaður Grindavíkur átti til dæmis skot í þverslá og yfir og hinum megin skaut Hörður Sveinsson yfir úr dauðafæri.

Það var svo þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma að Keflavík skoraði sigurmarkið. Guðmundur Steinarsson sendi þá háan bolta inn í vítateiginn þar sem Haraldur Freyr Guðmundsson skallaði hann fyrir fætur Bjarna Hólm Aðalsteinssonar sem skoraði með föstu skoti.

Áður en yfir lauk sá Scott Ramsay svo rauða spjaldið en hann fékk þá sína aðra áminningu fyrir brot. Lokastaðan 2-1 fyrir Keflavík og ljóst að Willum Þór Þórsson fer gríðarlega vel af stað með þetta lið sem hann tók við í haust.

Í fyrramálið verða birt hér á Fótbolta.net sjónvarpsviðtöl sem voru tekin við Willum Þór Þórsson og Luka Kostic þjálfara liðanna eftir leik.

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Hraldur Freyr Guðmundsson, Alen Sutej, Brynjar Guðmundsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Guðmundur Steinarsson, Magnús Þórir Matthíasson, Hörður Sveinsson, Ómar Karl Sigurðsson (Sigurður Sævarsson ’66).

Grindavík: Óskar Pétursson, Zoran Stamenic, Auðun Helgason, Marko Valdimar Stefánsson (Gilles Mbang Ondo ’60), Alexander Magnússon, Orri Freyr Hjaltalín (Matthías Örn Friðriksson ’79), Jóhann Helgason, Scott Ramsay, Jósef Kristinn Jósefsson, Óli Baldur Bjarnason (Grétar Ólafur Hjartarson ’66), Ray Anthony Jónsson (Guðmundur Egill Bergsteinsson).

Gul spjöld: Jósef Kristinn Jósefsson, Grindavík (’34), Guðmundur Steinarsson, Keflavík (’62), Scott Ramsay, Grindavík (’66).
Rautt spjald: Scott Ramsay, Grindavík (‘90+2)
banner