Annað mark Porto hefði ekki átt að standa
Kristinn Jakobsson, FIFA-dómari, mun á þriðjudögum svara spurningum lesenda Fótbolta.net sem snúa að dómgæslu.
Kristinn mun svara spurningum lesenda á þriðjudögum en spurningar má senda á [email protected].
Hér að neðan má sjá spurningarnar sem Kristinn svarar í þessari viku.
Kristinn mun svara spurningum lesenda á þriðjudögum en spurningar má senda á [email protected].
Hér að neðan má sjá spurningarnar sem Kristinn svarar í þessari viku.
Kristinn Jakobsson
Kristinn Jakobsson hefur verið besti dómari okkar Íslendinga undanfarin ár. Kristinn hefur verið að fá stærri og stærri verkefni erlendis en hann var fjórði dómari á EM 2004 og þá dæmdi hann sinn fyrsta leik í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð. Kristinn hefur að auki dæmt fjölmarga landsleiki sem og leiki í Evrópudeild Uefa.
Spurningar og svör Kristins
Ég er hérna með fyrirspurn í dómarahornið... varðandi seinna markið sem Porto skoraði gegn Arsenal fyrr í kvöld, er það alveg löglegt að taka óbeina aukaspyrnu inn í teig bara strax, þarf dómarinn ekki að gefa varnarmönnunum tíma til að stilla upp í vegg.
Sæll Jói
Þetta var ekki lögleg framkvæmd á óbeinu aukaspyrnunni. Ef dómarinn eins og í þessu tilfelli er farinn að stýra aðburðarrásinni sem hann gerði með því að sækja knöttinn til Fabianski og vera mitt á milli leikmanna og knattarins þá er "mómentið" um hraðaframkvæmd dottið út.
Hraðaframkvæmd þýðir að leikurinn fari strax í gang aftur, dómarinn verður að hafa fullt vald á atburðarásinni, hraðaframvæmdin kallar alls ekki á ítök dómararns, ofl.ofl... Þannig að það var fjöldamargt í þessari aukaspyrnu sem var brotið.
kv.
KJ
Sæll Kristinn 1. Ég vildi spyrja þig um álit þitt á framkvæmd óbeinu aukaspyrnunnar í leik Arsenal og Porto? 2. Seinna gula spjaldið á Carrick í leik ManU og AC Milan?
Kv. Binni
Sæll Binni.
Varðandi aukaspyrnuna í leik PORTO - ARSENAL hef þegar svarað.
En vegna seinni áminningar sem Carrick fékk þá var mat dómarans að
hann hafi vísvitandi verið að tefja framkvæmd á aukaspyrnunni með því
að sparka knettinum í burtu og þá telst það vera leiktefjandi atriði -
en svo er þetta alltaf túlkunaratriði hvað er leiktefjandi og ekki...
kv.
KJ
Þegar leikmaður tekur "langt" innkast þarf viðkomandi leikmaður að taka tilhlaup. Hvar má andstæðingurinn vera til að hindra ef svo má orði komast. Er í lagi að hoppa fyrir framan leikmanninn sem er að taka innkastið og hve langt þarf hann að vera frá hliðarlínunni svo andstæðingurinn er "löglegur".
Kær kveðja Gunnar
Sæll Gunnar.
Leikmaður má ekki vera nær en 2 metrum frá hliðarlínunni þar sem innkast er tekið og má ekki hoppa fyrir framan innkastarann. Ef andstæðingurinn gerir það ber dómara að dæma óbeina aukaspyrnu eftir að knötturinn er kominn í leik og áminna leikmanninn fyrir óíþróttamannlega hegðun.
Sæll Kristinn,
Ég hef svoldið verið að velta því fyrir mér hvort markamaður megi nota harpex til að auka grip sitt á hönskum sínum. Hvað mundir þú persónulega gera í leik ef þú myndir taka eftir að markmaður væri með harpex á hönskum sínum?
Kveðja Jónas
Sæll Jónas.
Harpex er ekki leyfilegt í knattspyrnu - ég myndi áminna leikmann sem myndi nota Harpex fyrir óíþróttamannlega framkomu.
Sæll Kristinn.
Ég hef lengi verið mikill áhugamaður um fótbolta og þá sérstaklega dómgæslu. Það er ein rangstöðuregla sem mér hefur ekki fundist ganga upp í eftir breytingarnar um árið, að þegar leikmaður er rangstæður innan vítateigs og samherji fær boltann og skorar. Ég held að nær undantekningarlaust þá hefur þessi leikmaður áhrif á markamann og aðra leikmenn í kringum sig.
Væri ekki betra að það væri alltaf dæmd rangstæða innan vítateigs til að koma í veg fyrir þessa óendalega óvissu hvort rangstæður leikmaður sem ekki fær boltann hefur áhrif á leik eða ekki.
Eitt að lokum ég er mjög svo hlynntur endadómurum á stærri mótum,
hvernig leggst sú regla í þig?
Gangi þér svo vel í þínum verkefnum í sumar.
Kv Konráð.
Sæll Konráð.
Það er nú þannig með þessa blessuðu rangstöðureglu að hún er mjög oft túlkunar atriði. En þegar breyting var gerð fyrir allmörgum árum þá var breytingin aðallega hugsuð til að auka markaskor og gera íþróttina áhorfendavænni, en að sama skapi var þessi breyting mjög erfið fyrir aðstoðardómara. Reglan er skýr hvað varðar leikmann sem skorar og er ekki rangstæður þá er mark dæmt eðlilega gilt en ef að samherji hans sem hefur án efa mikil áhrif á markmann þ.e.a.s. hreinlega varnar markmanni sýn eða kemur í veg fyrir að markmaðurinn getur varist þá ber að dæma rangstöðu. Erfitt en ekki ómögulegt...
Ég hef töluverða reynslu af dómgæslu með svokallaða 5 dómarakerfi og finnst það gæða dómgæslu mikið. Það hefur verið gríðarlega góð reynsla af þessu kerfi það sem af er leikjum í Evrópudeildinni og kæmi mér ekki á óvart að þetta kerfi yrði notað í Meistaradeildinni og öðrum stórum keppnum á næstu árum.
kv.
KJ