Völsungur 2-3 Þróttur
0-1 Margrét María Hólmarsdóttir (’11)
1-1 Hafrún Olgeirsdóttir (’33)
2-1 Sigrún Sigurgeirsdóttir (’36)
2-2 Eyrún Kristín Eyjólfsdóttir (’69)
2-3 Soffía Ummarin Kristinsdóttir (‘112)
0-1 Margrét María Hólmarsdóttir (’11)
1-1 Hafrún Olgeirsdóttir (’33)
2-1 Sigrún Sigurgeirsdóttir (’36)
2-2 Eyrún Kristín Eyjólfsdóttir (’69)
2-3 Soffía Ummarin Kristinsdóttir (‘112)
Úrslitaleikur í C-deild Lengjubikarsins fór fram á gervigrasinu í Laugardal fyrr í dag. Í úrslitum mættust lið Þróttar og Völsungs en liðin unnu sína riðla í mótinu.
Þróttarar hófu leikinn betur og komust yfir á elleftu mínútu. Markið skoraði markahrókurinn Margrét María Hólmarsdóttir en hún fékk sendingu frá Valgerði Jóhannsdóttur, prjónaði sig fram hjá varnarmönnum Völsungs og lagði boltann í netið.
Eftir markið tók leikurinn að jafnast út. Mikil barátta var hjá báðum liðum. Þróttur fékk fleiri færi en Völsungar beittu skyndisóknum og náðu að jafna leikinn eftir rúmlega hálftíma leik. Völsungar léku þá upp hægri kantinn og sendu fyrir markið þar sem Hafrún Olgeirsdóttir mætti og setti boltann í netið. Setja má spurningarmerki við varnarleik Þróttar þarna en markvörðurinn var kominn langt úr stöðu og það sama má segja um miðverðina sem voru hvergi nærri.
Lið Völsungs efldist við markið og þær grænu náðu forystunni þremur mínútum síðar þegar þær komust inn fyrir vörn Þróttar og Sigrún Sigurgeirsdóttir setti boltann framhjá Rósu Björk í markinu.
Í síðari hálfleik vörðust leikmenn Völsungs skipulega og lokuðu vel á Þróttara sem áttu erfitt með að skapa sér opin færi. Leikurinn breyttist þó heldur betur þegar Eyrún Kristín Eyjólfsdóttir kom inná í vinstri bakvarðarstöðuna. Hún fékk boltann fyrir utan vítateig Völsungs og hamraði hann í netið með fyrstu snertingu sinni. Virkilega vel gert hjá henni, staðan orðin 2-2 og þetta hleypti lífi í lið Þróttar.
Þróttarar sóttu meira síðustu 20 mínútur venjulegs leiktíma en sterk vörn Völsungs stóð fyrir sínu og leikurinn fór því í framlengingu.
Í framlengingunni héldu Þróttarar áfram að sækja en Völsungar áttu nokkrar hættulegar skyndisóknir. Soffía Ummarin Kristinsdóttir skoraði mark eftir aukaspyrnu um miðjan fyrri hálfleik framlengingarinnar en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Það var svo þegar átta mínútur lifðu leiks sem að Soffía skoraði löglegt mark með laglegu skoti af vítateigslínunni og yfir Önnu Halldóru sem hafði átt mjög góðan leik í marki Völsungs. Staðan orðin 3-2 og þannig var hún út framlenginguna og Þróttur því Lengjubikarmeistari í C-deild 2010.
Lið Völsungs: Anna Jónína Valgeirsdóttir(m), Anna Halldóra Ágústsdóttir, Ásrún Ósk Einarsdóttir, Berglind Jóna Þorláksdóttir, Dagný Björk Aðalsteinsdóttir, Hafrún Olgeirsdóttir, Sigrún Sigurgeirsdóttir, Helga Björk Heiðarsdóttir, Jóhanna Margrét Gunnarsdóttir (Heiðdís Hafþórsdóttir ’70), Jóney Ósk Sigurjónsdóttir, Sigrún Björk Aðalgeirsdóttir (f) (Sólveig Guðrún Aðalsteinsdóttir ‘115).
Lið Þróttar: Rósa Björk Sigurgeirsdóttir (m), Hallveig Ólafsdóttir (Sunna Rut Ragnsdóttir ‘104), Karlotta Halldórsdóttir, Fríða Þórisdóttir, Diljá Ólafsdóttir, Kristrún Rose Rúnarsdóttir (Arna Pétursdóttir ’81), Valgerður Jóhannsdóttir (Eyrún Kristín Eyjólfsdóttir ’65), Soffía Ummarin Kristinsdóttir, Ástrós Linda Ásmundsdóttir (Kristín Einarsdóttir ’46), Margrét María Hólmarsdóttir, Hrefna Huld Jóhannesdóttir (Harpa Lind Guðnadóttir ’70).
Ónotaðir varamenn: Særós Sigþórsdóttir, Gabriela Jónsdóttir.
Dómari: Guðrún Fema Ólafsdóttir
Aðstoðardómarar: Einar Logi Jóhannsson og Bryndís Sigurðardóttir
Þórdís Inga Þórarinsdóttir, ljósmyndari Fótbolta.net, var á staðnum og hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá leiknum: