Freyr Luca Carrella skrifar úr Breiðholti
Leiknir 2-0 Njarðvík
1-0 Kjartan Andri Baldvinsson (’59)
2-0 Ólafur Hrannar Kristjánsson (’62)
1-0 Kjartan Andri Baldvinsson (’59)
2-0 Ólafur Hrannar Kristjánsson (’62)
Leiknismenn hafa byrjað síðustu tímabil illa en náðu í öll stigin á heimavelli sínum gegn Njarðvík í dag. Varamennirnir Kjartan Andri Baldvinsson og Ólafur Hrannar Kristjánsson skoruðu mörk Breiðhyltinga í 2-0 sigri.
Lykilmenn vantaði í bæði lið. Markvörðurinn Ingvar Jónsson tók út leikbann hjá Njarðvík og Gunnar Einarsson, spilandi aðstoðarþjálfari Leiknis, var einnig í banni.
Leikurinn fór fram á gervigrasvelli Leiknis þar sem aðalvöllur Leiknis er ekki tilbúinn eftir veturinn. Fyrri hálfleikurinn var einstaklega leiðinlegur. Njarðvíkingar voru þó betra liðið á meðan Leiknir náði ekki flæði í sína spilamennsku. Heimamenn virkuðu stressaðir.
Lítið var um færi í fyrri hálfleiknum en það besta fékk Ólafur Jón Jónsson sem skallaði framhjá marki Leiknis. Sigursteinn Gíslason, þjálfari Leiknis, hélt greinilega góða ræðu í hálfleiknum því allt annað Leiknislið mætti til leiks í seinni hálfleik.
Heimamenn áttu leikinn í seinni hálfleiknum og varamaðurinn Kjartan Andri braut ísinn á 61. mínútu. Hilmar Árni Halldórsson slapp í gegn og renndi knettinum á Kjartan sem átti ekki í vandræðum með að skora. Njarðvíkingar vildu fá dæmda rangstöðu en Hákon Þorsteinsson, aðstoðardómari, var ekki á sama máli.
Aðeins þremur mínútum síðar skoraði síðan Ólafur Hrannar með laglegum skalla eftir hornspyrnu Arons Fuego Daníelssonar. Njarðvíkingar þurftu að færa sig framar á völlinn en þeir mættu í Breiðholtið með varnarleik að leiðarljósi.
Leiknismenn fengu nokkur dauðafæri til að skora þriðja mark sitt sem ekki nýttust en fögnuður þeirra í leikslok var innilegur enda hefur liðið átt í vandræðum með að ná í stig í byrjun síðustu tímabila. Sigurinn var sanngjarn, Leiknisliðið spilaði hörkuvel í seinni hálfleiknum en var ansi lengi í gang.
Innkomur Kjartans og Ólafs höfðu mikið að segja en sá fyrrnefndi gekk til liðs við Leikni frá Fylki í vetur og gat líklega ekki óskað sér betri byrjunar í fyrsta leik með Breiðhyltingum á Íslandsmóti.
Það ber að hrósa dómara leiksins, Gunnari Sverri Gunnarssyni, sem dæmdi prýðilega. Hann var vel staðsettur og með góð tök á leiknum.