Völsungur 2 - 4 Víkingur Ólafsvík
0-1 Edin Beslija ('10)
1-1 Hafþór Mar Aðalgeirsson ('48)
1-2 Þorsteinn Már Ragnarsson ('61)
1-3 Eldar Masic ('75)
2-3 Hrannar Björn Steingrímsson ('89)
2-4 Þorsteinn Már Ragnarsson ('90+3)
0-1 Edin Beslija ('10)
1-1 Hafþór Mar Aðalgeirsson ('48)
1-2 Þorsteinn Már Ragnarsson ('61)
1-3 Eldar Masic ('75)
2-3 Hrannar Björn Steingrímsson ('89)
2-4 Þorsteinn Már Ragnarsson ('90+3)
Völsungur og Víkingur Ólafsvík mættust nú fyrr í dag í úrslitaleik B-deildar lengjubikarsins. Leikurinn fór fram í Boganum á Akureyri og höfðu nokkrir stuðningsmenn beggja liða séð sér fært um að mæta á leikinn sem átti eftir að verða hin fínasta skemmtun.
Í upphafi leiks voru Húsvíkingar sterkari aðilinn án þess þó að ná að skora mark. Það var því eiginlega nokkuð gegn gangi leiksins að Ólafsvíkingar myndu skora fyrsta mark leiksins. Edin Beslija fékk þá sendingu innfyrir vörn Völsunga og lagði boltann af öryggi í markhornið fjær.
Það sem eftir var af fyrri hálfleik áttu Víkingar völlinn og voru þeir oft á tíðum mjög nálægt því að auka forystuna í tvö mörk. Steinþór Már Auðunsson, markvörður Völsungs, þurfti oft að taka á honum stóra sínum til að ná að verja skotin frá gestunum gulklæddu og óhætt að segja að sigur Víkings hefði orðið mun stærri ef að Steinþór hefði ekki verið vel á verði allan leikinn.
Hann kom þó engum vörnum við þegar Aleksandrs Cekulajev slapp í gegnum vörn Völsungs, lék á Steinþór og var einn gegn auðu markinu. Skot hans fór hins vegar í stöngina en ekki í netið og óhætt að segja að Húsvíkingarnir hafi verið stálheppnir þarna. Eina færi þeirra í hálfleiknum átti Hrannar Björn Steingrímsson en Einar Hjörleifsson varði skot hans glæsilega.
Strax í upphafi síðari hálfleiks náði Völsungur að jafna. Þar var á ferðinni Hafþór Mar Aðalgeirsson þegar hann lyfti boltanum yfir Einar Hjörleifsson eftir að Tomasz Luba gaf honum boltann á silfurfati.
Tíu mínútum síðar voru gestirnir komnir aftur yfir. Edin Beslija átti þá góðan sprett upp hægri kanntinn, lék á tvo varnarmenn Völsungs áður en hann lagði boltann á Þorstein Már Ragnarsson sem var einn á auðum sjó á markteigshorninu og átti ekki í erfiðleikum með að koma knettinum í netið.
Á 75. mínútu varð staðan síðan enn verri fyrir Húsvíkinga. Eftir kæruleysi inn á miðsvæðinu, töpuðu þeir boltanum til Víkinga sem brunuðu fimm upp völlinn gegn eingöngu þremur varnarmönnum Völsungs. Þrír varnarmenn eru ekki nægilega margir til að dekka fimm sóknarmenn og það fór svo að Eldar Masic náði að skora og staða Víkings orðin vænleg.
Völsungar reyndu að jafna metin en það gekk brösulega. Þegar innan við mínúta var eftir af venjulegum leiktíma skoraði Hrannar Björn Steingrímsson hins vegar stórglæsilegt mark upp úr þurru þegar hann smurði boltann upp í samskeytin, beint úr aukaspyrnu af tæplega 25 metra færi.
Það var hins vegar Víkingur Ó. sem átti lokaorðið í þessum leik. Aleksandrs Cekulajev tók hornspyrnu sem Edin Beslija skallaði beint fyrir lappirnar á Þorsteini Má Ragnarssyni sem skoraði annað mark sitt og innsiglaði öruggan sigur Víkings Ó. og eru þeir því sigurvegarar B-deildar Lengjubikarsins árið 2010.