Annari umferð í Pepsi-deild karla lauk í gærkvöldi. Hér að neðan má sjá helstu atvik og lið umferðarinnar.
Mark umferðarinnar: Ívar Björnsson
Ívar Björnsson leikmaður Fram skoraði stórkostlegt mark þegar Fram náði að vinna upp tveggja marka forystu gegn Breiðablik. Ívar fékk boltann inn í teig Blika og snéri baki í markið, hann lyfti boltanum upp og snéri sér og setti boltann fallega í markið. Frábærlega gert hjá Ívari.
Leikur umferðarinnar: KR - Selfoss
Annan leikinn í röð ætluðu KR-ingar sér að slátra nýliðum deildarinnar en eins og í 1. umferð tókst það ekki. Lars Ivan Molskred markvörður liðsins fékk að líta rauða spjaldið snemma leiks og Selfyssingar fengu vítaspyrnu sem Ingólfur Þórarinsson skoraði úr. Jón Daði Böðvarsson kom svo gestunum yfir. Agnar Bragi Magnússon fékk svo rauða spjaldið fyrir grófa tæklingu, KR-ingar náðu að minnka muninn en nýliðar Selfoss sóttu þrjú stig í Vesturbæinn.
Augnablik umferðarinnar: Sigurmark í grannaslag
Björn Daníel Sverrisson var hetja FH í sigrinum á Haukum. Björn Daníel skoraði eina mark leiksins á 83. mínútu. Leikurinn stóð alls ekki undir væntingum enda voru miklar væntingar gerðar. Björn skoraði hinsvegar fallegt mark framhjá sínum gamla félagi, Daða Lárussyni.
Innkoma umferðarinnar: Guðmundur Magnússon (Fram)
Guðmundur Magnússon leikmaður Fram kom inná fyrir Hjálmar Þórarinsson en hann hafði verið besti maður liðsins lengi vel í leiknum og kom því skiptingin töluvert á óvart. Þorvaldur Örlygsson vissi þó vel hvað hann var að gera því Guðmundur minnkaði muninn í 2-1 og var sterkur og líklega stærsta ástæða þess að Framarar jöfnuðu leikinn.
Umdeildasta atvik umferðarinnar: Rautt spjald á Pedersen annan leikinn í röð?
Martin Pedersen leikmaður Vals hefði með réttu átt að fá rauða spjaldið annan leikinn í röð gegn ÍBV í gær. Eyþór Helgi Birgisson tæklaði Pedersen sem brást illur við og sló til hans og hefði Magnús Þórisson átt að reka hann af velli. Í 1. umferðinni traðkaði þessi danski bakvörður á Gunnari Már Guðmundssyni leikmanni FH en var ekki vikið af velli.
Ummæli umferðarinnar: Guðmundur Steinarsson (Keflavík)
,,Það er gull í Hagkaupspoka að eiga mann eins og Jóhann á bekknum," sagði Guðmundur Steinarsson eftir 0-1 sigur hans manna í Keflavík á Grindavík í gær en Jóhann Birnir Guðmundsson skoraði sigurmarkið.
Þjálfari umferðarinnar: Guðmundur Benediktsson (Selfoss)
Guðmundur á þennan heiður fyllilega skilinn, ekki bara það að vinna KR á KR-vellinum heldur var þetta fyrsit sigur Selfoss í efstu deild. Guðmundur fær líka stóran plús fyrir klæðnað sinn á hliðarlínunni en þar er öllu tjaldað til.
Lið umferðarinnar:
Albert Sævarsson (ÍBV), James Hurst (ÍBV), Jón Guðni Fjóluson (Fram), Orri Freyr Hjaltalín (Grindavík) Guðjón Árni Antoníusson (Keflavík), Ásgeir Börkur Ásgeirsson (Fylkir), Ingólfur Þórarinsson (Selfoss), Alfreð Finnbogason (Breiðablik, Hilmar Geir Eiðsson (Haukar), Sævar Þór Gíslason (Selfoss), Jón Daði Böðvarsson (Selfoss)