Tottenham og Newcastle hafa áhuga á Grealish - Newcastle bjartsýnt á að fá Guehi - Elanga í læknisskoðun
banner
   lau 22. maí 2010 17:19
Sigmann Þórðarson
Umfjöllun: ÍR heldur sigurgöngunni áfram
ÍR situr nú eitt á toppi 1. deildar með fullt hús stiga.
ÍR situr nú eitt á toppi 1. deildar með fullt hús stiga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
ÍR 2 – 1 KA
1-0 Karl Brynjar Björnsson (14)
1-1 Daniel Alan Stubbs (29)
2-1 Haukur Ólafsson (83)

ÍR situr nú eitt á toppi 1. deildar karla eftir sigur á KA-mönnum í Breiðholtinu í dag. Heimamenn skoruðu sigurmarkið nokkrum mínútum fyrir leikslok en mikið jafnræði var með liðunum í leiknum og hefði sigurinn alveg eins getað fallið gestunum í vil.

Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn betur og áttu skot að marki sem fór hárfínt framhjá strax á fyrstu mínútu. KA-menn héldu pressunni á heimamenn framan af leik en ÍR-ingar unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn.

Það var svo eftir kortérs leik að ÍR-ingar fengu hornspyrnu sem endaði hjá Árna Frey Guðnasyni sem skaut boltanum í átt að marki fyrir utan teig. Í mannþvögunni inni í teignum komst Karl Brynjar Björnsson til boltans og stýrði honum fram hjá Sandor Matus í markinu og kom heimamönnum yfir með fyrsta færi þeirra í leiknum.

KA-menn létu ekki deigan síga og komust í færi skömmu eftir markið. Þá fékk David Disztl sendingu inn fyrir sofandi vörn heimamanna en Þorsteinn Einarsson bjargaði vel með frábæru úthlaupi.

Stuttu síðar snérist dæmið við en þá fékk Björn Viðar Ásbjörnsson sendingu inn fyrir vörn gestanna en Sandor varði vel í markinu og svo aftur eftir skot frá Kristjáni Ara Halldórssyni stuttu síðar.

Eftir tæpan hálftíma leik náðu gestirnir svo að jafna metin en þar var að verki Daniel Alan Stubbs sem skoraði með skalla eftir laglega fyrirgjöf frá hægri frá Hauki Heiðari Haukssyni.

Árni Freyr fékk svo síðasta færi ÍR-inga í hálfleiknum en skot hans úr teignum fór rétt framhjá markinu. KA-menn fengu einnig færi áður en að hálfleiknum kom en Þorsteinn sá við þeim í markinu í tvígang. Í fyrra skiptið eftir skalla upp úr hornspyrnu og svo eftir hörkuskot frá Andra Fannari Stefánssyni rétt utan teigs.

Fátt markvert gerðist fyrsta hálftíma síðari hálfleiks. Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu á miðjunni og sóknartilburðir liðanna strönduðu á varnamönnum eða fjöruðu út eftir slæmar sendingar.

Það var svo um kortéri fyrir leikslok að Guðmundur Óli Steingrímsson var rekinn af velli fyrir grófa tæklingu á Hauk Ólafsson. Leikurinn breyttist í raun ekki mikið eftir það. Það var ekki að sjá á KA-mönnum að þeir væru manni færri og heimamenn náðu ekki að nýta sér liðsmuninn að neinu ráði.

Sjö mínútum fyrir leikslok kom svo sigurmarkið en það gerði varamaðurinn Haukur Ólafsson. Axel Kári Vignisson átti þá sendingu inn í teig gestanna. Janez Vrenko varnarmaður KA hikaði við að hreinsa boltann en þá náði Haukur til hans og kom honum framhjá Sandor í markinu. Klaufalegt mark en það tryggði ÍR-ingum stigin þrjú og topp sætið eftir fyrstu þrjár umferðirnar.
banner