Njarðvík 1 - 1 KA:
1-0 Einar Helgi Helgason ('15)
1-1 Dean Martin ('75)
1-0 Einar Helgi Helgason ('15)
1-1 Dean Martin ('75)
Njarðvíkingar tóku á móti KA á Njarðtaksvelli í blíðskaparveðri í kvöld. Njarðvíkingar voru sprækari í byrjun leiks og voru óheppnir að komast ekki yfir á 5. mínútu þegar að Ísak Örn Þórðarsson fékk háan bolta yfir vörn gestanna en náði ekki að leggja boltanum fyrir sig og skaut framhjá markinu.
Gestirnir vildu fá vítaspyrnu á 9. mínútu þegar að David Disztl féll inn í teig eftir viðskipti við Rafn Vilbergsson en dómarinn sá ekkert athugavert og lét leikinn halda áfram. David Disztl skoraði svo með skalla eftir sendingu frá hægri kantinum en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.
Njarðvíkingar voru baráttuglaðir og létu deigan ekki síga og uppskáru mark á 15. mínútu þegar að Einar Helgi Helgason fékk boltann inn fyrir vörnina og lagði hann í vinstra hornið framhjá markmanninum. Gestirnir vöknuðu aðeins við þetta en sköpuðu sér þó engin alvöru færi.
Ólafur Jón Jónsson fékk upplagt færi til að auka muninn eftir að Ben Long hafði prjónað sig í gegnum vörnina en Ólafur skaut beint á Sandor Matus í marki gestanna sem varði boltann í horn. Gestirnir voru beittari í síðari hálfleik og voru staðráðnir í því að jafna metin. Á 60. Mínútu fékk Hallgrímur Mar Steingrímsson flott færi vinstra megin í teig Njarðvíkur eftir vandræða gang í vörninni en skot hans fór rétt framhjá fjærstönginni.
Gestirnir sóttu stíft með vindinn í bakið og uppskáru mark á 76. mínútu eftir aukaspyrnu vinstra megin fyrir miðjum vallarhelmingi Njarðvíkur. Hár bolti barst inn í teiginn þar sem að Dean Martin henti sér fram og skallaði knettinum í markið og jafnaði hlut sinna manna.
Njarðvíkingar vöknuðu við þetta og sóttu fram en gestirnir voru ávallt vakandi fyrir skyndisóknum sem þeim varð þó ekkert ágegnt úr. Lokatölur 1-1.