Guðmundur Oddur Eiríksson skrifar frá KA-velli
KA 3 - 2 HK (Eftir framlengingu)
0-1 Jónas Grani Garðarsson (‘9)
1-1 Andri Fannar Stefánsson (’35)
2-1 Guðmundur Óli Steingrímsson (’92)
2-2 Ásgrímur Albertsson (’92)
3-2 Andri Fannar Stefánsson (’96)
0-1 Jónas Grani Garðarsson (‘9)
1-1 Andri Fannar Stefánsson (’35)
2-1 Guðmundur Óli Steingrímsson (’92)
2-2 Ásgrímur Albertsson (’92)
3-2 Andri Fannar Stefánsson (’96)
Nú fyrr í kvöld áttust við KA og HK á KA vellinum í 32-liða úrslitum VISA-bikarsins. Búast mátti við hörkuleik enda um tvö góð lið að ræða og sú varð raunin. KA-menn börðust allan leikinn af krafti og eiga hrós skilið fyrir.
KA-menn byrjuðu fyrri hálfleikinn mun betur en eftir níu mínútna leik fengu HK-ingar sína fyrstu sókn í leiknum. Hörður Magnússon ékk fþá sendingu og Guðmundur Óli elti hann og krækti aðeins í lappirnar á honum. Hörður féll og vítaspyrna dæmd. Jónas Grani fór á punktinn og skoraði af þónokkru öryggi, leggur hann beint á markið.
Á þrettándu mínútu dróg svo til tíðinda. David Disztl fékk sendingu inn fyrir og er í baráttu við varnarmann HK. Disztl fellur og dómari leiksins dæmir vítaspyrnu. Það liggur þó mikill vafi á því hvort um réttan dóm hafi verið að ræða. Andri Fannar fór á punktinn en Ögmundur Ólafsson varði í markinu.
Á 35. mínútu fengu KA-menn aukaspyrnu rétt fyrir utan teig HK-inga. Andri Fannar tók spyrnuna og setur hann í varnarvegginn og þaðan í markið. Flott spyrna hjá Andra þó að hann hafi nú haft heppnina með sér í þetta skiptið. Loksins kom markið eftir að hafa lengi reynt að skapa eitthvað.
Fátt gerðist markvert síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks utan við nokkur hættulaus skot og slíkt. Staðan 1-1 í hálfleik og allt opið í fjörugum leik.
HK-ingar hófu seinni hálfleik af krafti en náðu ekki að skapa sér mikið. Með stuttu millibili fengu HK-ingar tvö góð færi eftir um klukkutíma leik. Í fyrra skiptið datt boltinn inn á sóknarmann HK en Sandor nær að verja vel. Stuttu síðar fékk Aaron Palomares boltann í teignum en skot hans ratar yfir.
Þegar um tuttugu mínútur voru búnar af seinni hálfleik lifnuðu KA-menn við. Þá fá þeir tvær hættulegar sóknir þar sem Hallgrímur Mar skallaði framhjá í fyrra skiptið eftir fínt spil og síðan átti Dan Stubbs skot sem fór í varnarmann.
Á 90. mínútu fengu HK-ingar rautt spjald þegar Atli Valsson fékk að líta sitt annað gula spjald. KA-menn héldu áfram að sækja og uppskáru horn á lokamíutunum. Þar barst boltinn út úr teignum og á Guðmund Óla Steingrímsson sem hafði nægan tíma. Hann tók boltann viðstöðulaust og smellti honum beinustu leið upp í samskeytin, frábært skot og verðskuldað mark KA-manna staðreynd.
Virtist sem sigur KA-manna væri kominn en önnur varð raunin. HK-ingar tóku miðju og spörkuðu strax fram og settu pressu, boltinn barst inn á teiginn frá kantinum og þar kom fyrirliðinn Ásgrímur Albertsson og skallaði hann í netið. HK-ingar búnir að jafna á ótrúlegan hátt og leikurinn því farinn í framlengingu.
Á 96. mínútu fengu KA-menn innkast á hægri kantinum. Haukur Heiðar og Dean Martin spiluðu vel á milli sín sem endaði með góðri sendingu frá Hauki Heiðari út í teiginn á Andra Fannar sem setur hann snyrtilega í markið. Að vísu varði Ögmundur skotið í stöngina og inn en þrátt fyrir það gott mark frá Andra.
Leikmenn HK voru orðnir pirraðir í seinni hálfleiknum og sýndu það augljóslega með spörkum, öskrum og látum. Þrátt fyrir það héldu KA-menn áfram að sækja. Þeir fengu mörg fín færi.
Framlengingin fjaraði svo út, HK-ingar reyndu hvað þeir gátu að jafna en KA-menn vörðust fimlega og náðu nokkrum hættulegum skyndisóknum þar sem þeir hefðu átt að gera betur og bæta við mörkum.
Niðurstaðan því 3-2 sigur KA-manna í framlengingu í skemmtilegum fótboltaleik sem bauð upp á allt í blíðviðri á KA-vellinum að þessu sinni en þar voru stuðningsmenn KA-manna sem kalla sig Vini Sagga gríðarlega hressir á hliðarlínunni.
KA-menn eiga farseðil í 16-liða úrslitin en HK-ingar sitja eftir með sárt ennið eftir erfiðan leik sem hefði þó í rauninni allt eins getað dottið þeim í vil en mikill hraði var oft í leiknum og fengu bæði lið nóg af færum.