Liverpool berst við spænsku risana um Wharton - Nkunku orðaður við Liverpool - Rodrygo í enska boltann?
   lau 05. júní 2010 20:27
Fótbolti.net
Umfjöllun: Dramatík undir lokin í sólinni fyrir norðan
Guðmundur Oddur Eiríksson skrifar frá Þórsvelli
Dean Martin spilandi þjálfari KA-manna með boltann.
Dean Martin spilandi þjálfari KA-manna með boltann.
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
David Disztl á ferðinni og Ásgrímur Albertsson sækir að honum.
David Disztl á ferðinni og Ásgrímur Albertsson sækir að honum.
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Hallgrímur fagnar jöfnunarmarkinu rétt fyrir leikslok.
Hallgrímur fagnar jöfnunarmarkinu rétt fyrir leikslok.
Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
KA 3 – 3 HK
1-0 David Disztl (‘1)
1-1 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (’26)
1-2 Aaron Palomares (’51)
2-2 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’61)
2-3 Hólmbert Aron Friðjónsson (’86)
3-3 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’92)

Það voru magnaðar aðstæður þegar KA og HK hófu leik á Þórsvellinum í dag. Glampandi sólskin, rennisléttur völlur, Vinir Sagga hjá KA-mönnum eldhressir og allt til alls fyrir annan leik þessara liða á fjórum dögum. Fyrri leikinn hafði KA unnið í framlengingu svo HK-ingar áttu harma að hefna í dag.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti og voru það KA-menn sem hófu sókn á fyrstu mínútu leiksins. Boltinn barst þá frá vinstri kantinum yfir á Dean Martin sem átti frábæra sendingu inn í teiginn, markmaður HK kom út á móti og David Dizstl átti ekki í vandræðum með að skalla boltann yfir Ögmund í markinu. Algjör óskabyrjun fyrir KA-menn, 1-0 yfir eftir minna en mínútu leik.

Aðeins tveimur mínútum seinna fékk David aftur góða sendingu inn fyrir vörn HK-inga frá Hallgrími Mar. David kom boltanum á Andra Fannar en hann fór illa að ráði sínu og skaut boltanum rétt framhjá einn á móti markmanni.

Það var ekki fyrr en eftir níu mínútur að HK fengu sitt fyrsta almennilega færi. Þeir náðu ekki að skapa mikið og uppskáru horn úr sókn sinni. Ekkert gerðist úr hornspyrnunni en stuttu síðar barst boltinn á hægri kantinn og kom skot upp úr þurru frá hægri kantinum en sem betur fer fyrir KA-menn þá rúllaði boltinn eftir markslánni og yfir á hinn kantinn.

Eftir fyrstu færi HK-inga fóru þeir að lifna ennþá meira við. Á nítjándu mínútu spiluðu þeir vel á milli sín og Aaron Palomares senti boltann fyrir á Guðmund Stein en skalli hans fór framhjá marki KA-manna.

KA-menn sem höfðu dottið aðeins niður í fimmtán mínútur eða svo fengu færi á 24. mínútu leiksins. Þá vann Haukur Heiðar boltann í vörninni og sendi upp kantinn á David Disztl sem hélt boltanum vel og senti út á Dean Martin sem kom á ferðinni. Hann sendi boltann fyrir á Hallgrím sem skallaði boltann rétt yfir.

Við þetta vöknuðu HK-ingar aftur. Þá spiluðu HK-ingar á milli sín og sendu boltann út á hægri kantinn. Þaðan barst boltinn inn á markteig KA-manna þar sem Guðmundur Steinn var mættur og stangaði boltann örugglega í netið. Fín sókn hjá HK-ingum og staðan orðin 1-1 eftir tæpan hálftíma.

Lítið gerðist í fyrri hálfleik síðustu fimmtán mínúturnar. KA-menn voru líklegri til þess að skora og fengu tvö fín færi. Í fyrra skiptið fékk Guðmundur Óli boltann út eftir aukaspyrnu frá Andra Fannari sem HK-ingar komu í burtu. Í seinna skiptið skapaðist nokkur hætta en þá átti Dean Martin frábæra aukaspyrnu inn á teig HK-inga og Haukur Hinriksson var þar mættur en skallaði boltann í stöngina.

Seinni hálfleikur byrjaði rólega. Bæði lið fengu færi en náðu ekkert að skapa úr því og varnarliðið náði alltaf að hreinsa burt. Þegar sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleik hófst loksins baráttan almennilega. Aaron Palomares fékk þá sendingu inn á teiginn og fékk nægan tíma og skoraði örugglega framhjá Sandor í markinu.

Við mark HK-inga efldust KA-menn aðeins og byrjuðu að sækja af krafti. Dean Martin átti þá fínan sprett upp kantinn og sendi boltann fyrir á David Disztl. Hann lagði boltann út á Stein Gunnarsson en skot hans var laust og beint á Ögmund í marki HK-inga. Stuttu síðar átti Dean skalla rétt framhjá eftir flotta sendingu frá Dan Stubbs.

Eftir rúmlega klkukkutíma leik komust KA-menn í fína sókn. Haukur Heiðar brunaði þá upp hægri kantinn og sendi fyrir. Andri Fannar og Disztl létu boltann fara og þar var mættur Hallgrímur Mar sem afgreiddi boltann snyrtilega í netið. Flott sókn hjá KA-mönnum og staðan 2-2.

HK-ingar héldu samt áfram að sækja og voru til alls líklegir. Þeir fengu fínt færi og skutu í stöng eftir flotta sendingu frá miðjunni. KA-menn vildu meina að hann hafi verið rangstæður en svo var ekki að mati dómarans.

Á 86. mínútu fengu HK hornspyrnu. Boltinn datt inn á markteig KA-manna sem náðu ekki að hreinsa boltann burt. Þar var mættur hinn 17 ára gamli Hólmbert Aron Friðþjófsson sem setti boltann laglega í hornið á marki KA-manna. Kópavogsbúar komnir yfir og stutt eftir svo þeir fögnuðu gríðarlega.

Eftir þetta mark HK-inga virtist þetta vera komið hjá þeim en svo var ekki. KA-menn sóttu hart að marki HK í uppbótartíma og náðu að koma boltanum inn í teig HK-inga. Þar var mikið basl og endaði með því að boltinn datt fyrir Hallgrím sem afgreiddi boltann frábærlega í netið og skoraði sitt annað mark í leiknum.

Þar með lauk öðrum leik liðana á fjórum dögum og í bæði skiptin var um mikla skemmtun að ræða. Baráttuleikir og mörg mörk og menn sjá klárlega ekki eftir því að hafa mætt á völlinn í blíðunni á Akureyri.
banner