Heimild: Heimasíða Gróttu
Oddur Karl Heiðarsson, leikmaður í 3. flokki hjá Gróttu, er þessa dagana til reynslu hjá norska úrvalsdeildarliðinu Lillestrøm.
Þessi 16 ára gamli varnarmaður þótti standa sig vel á æfingu hjá U-19 ára liði Lillestrøm og var honum í kjölfarið boðið að æfa með liðinu í heila viku.
Oddur, sem er miðvörður að upplagi, lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Gróttu í Lengjubikarnum í vor þegar hann kom inn á sem varamaður gegn KR.
Hann hefur auk þess verið valinn í æfingahóp U-17 ára landsliðsins á árinu.
Tveir íslenskir leikmenn eru á mála hjá Lillestrøm en það eru Björn Bergmann Sigurðarson og Stefán Logi Magnússon, fyrrum markvörður KR-inga.