Chelsea býst við að landa Guehi - Risaverðmiði á Isak - Mikill áhugi á Mateta
   lau 12. júní 2010 17:34
Fótbolti.net
Umfjöllun: Völsungur náði stigi í Vesturbænum
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
KV 1 - 1 Völsungur
1-0 Örn Arnaldsson
1-1 Bjarki Baldvinsson

Knattspyrnufélag Vesturbæjar tók á móti Völsungi í roki og rigningu í dag. Liðin voru í neðstu sætum 2. deildar fyrir leikinn og eygðu fyrsta sigur sumarsins.

Heimamenn voru talsvert sterkari í upphafi leiks og fór þar fremstur í flokki vinstri kantmaðurinn Örn Arnaldsson, sem fékk mikið pláss á vængnum. Eftir nokkur þokkaleg færi dró til tíðinda á 37. mínútu. Þá fékk KV aukaspyrnu vinstra megin vítateigsboga af um 25 metra færi og fyrrnefndur Örn stillti sér upp. Hann snéri boltann fallega yfir vegginn og í nærhornið. Óverjandi fyrir Steinþór Auðunsson markvörð Húsvíkinga og heimamenn komnir í 1-0.

Stuttu áður en Jan Eric Jessen, dómari leiksins, flautaði til hálfleiks átti sér stað skrautlegt atvik. Sóknarmaðurinn Hrannar Steingrímsson í liði gestanna braut þá ljótt á Andra Fannari Helgasyni markverði KV en slapp með viðvörun. Eitthvað var hann hátt undinn því sekúndum síðar lenti hann í frekari stimpingum og hrækti loks á Guðmund Pétur Sigurðsson, bakvörð KV, beint fyrir framan Tómas Orra línuvörð. Tómas kallaði Jan Eric til sín sem sá sig tilneyddan til að sýna Hrannari rautt spjald. Heimamenn fóru því inn í klefa marki yfir, manni fleiri og með mjög góð tök á leiknum.

Allt annað var þó upp á teningnum í síðari hálfleik og morgunljóst að Húsvíkingar ætlu að selja sig dýrt. Strax í upphafi hálfleiksins áttu þeir stórgott færi og minnstu munaði að þeir jöfnuðu strax metin. Þrátt fyrir liðsmuninn náði KV ekki að byggja upp almennilegar sóknir, en miklu munaði um mjög góða frammistöðu Arons Jósefssonar í vörn Norðanmanna, sem átti stórleik.

Þegar tók að líða á síðari hálfleikinn komu heimamenn sér þó aftur inn í leikinn. Björn Ívar Björnsson var nálægt því að skora og hörkuskot Arnar Arnaldssonar sleikti stöngina.

Það var svo á 81. mínútu sem jöfnunarmark gestanna leit dagsins ljós, nokkuð óvænt þó. Þá læddu þeir hinum smávaxna Bjarka Baldvinssyni lúmskt í gegnum vörnina og hann kláraði færið glæsilega fram hjá Andra Fannari í markinu.

KV blés þá til sóknar til að reyna að bjarga stigunum þremur sem virtust unnin en allt kom fyrir ekki. Magnús Helgason, varamaður, komst þó næst því með hörku skoti langt fyrir utan teig sem small í slánni.

Góður dómari leiksins, Jan Eric, flautaði loks af eftir stuttan uppbótartíma. Völsungar mega vera mjög sáttir við stigið miðað við gang leiksins og að hafa spilað síðari hálfleikinn manni færri. Þeir börðust eins og ljón og gætu sótt fleiri stig í sumar. Heimamenn voru eyðilagðir í leikslok, enda misstu þeir unninn leik niður í jafntefli í annað sinn á stuttum tíma, en KS-Leiftur náði að krækja í stig á síðustu andartökum síðasta heimaleiks liðsins. Aðspurður sagði Páll Kristjánsson, formaður KV, eftir leikinn: „Það munaði mjóu, við vildum endilega vinna þennan leik“.

Áhorfendur: 68
Aðstæður: Völlurinn rennisléttur og fínn, sterkur hliðarvindur og úrhellisrigning
Dómarar: Jan Eric Jessen, Tómas Orri Hreinsson og Hörður Aðalsteinsson – Mjög góðir
Eftirlitsdómari: Garðar Örn Hinriksson
Besti maður vallarins: Guðmundur Pétur Sigurðsson
banner
banner
banner