Valur 0 - 2 Keflavík
0-1 Guðjón Árni Antoníusson ('51)
0-2 Brynjar Örn Guðmundsson ('84)
0-1 Guðjón Árni Antoníusson ('51)
0-2 Brynjar Örn Guðmundsson ('84)
Valsmenn tóku á móti Keflvíkingum á Vodafonevellinum í dag. Þetta var leikur í 9 umferð Pepsí deildar karla. Bæði lið hefðu með sigri í dag getað komist á topp deildarinnar ef Fram myndi ekki vinna eða gera jafntefli.
Það var ekki að sjá að Valsmenn væru í toppbaráttunni í deildinni og ættu möguleika að geta komist á toppinn því að þeir mættu varla til leiks í dag, allavegana fyrstu 20 – 30 mínútur leiksins. Á meðan léku Keflvíkingar mjög skynsamlega og pressuðu stíft og fengu fjölda hálffæra og færa í fyrri hálfleik á meðan Valsmenn fengu einungis tvö til þrjú færi í öllum leiknum.
Magnús Sverrir Þorsteinsson komst í dauðafæri á 13 mínútu eftir að nafni hans
Magnús Þórir hafði leikið vel á varnarmenn Vals, sendi boltann á Magnús sem náði flottu skoti en Kjartan gerði vel og náði að blaka boltanum yfir markið. Magnús Þórir var síðan á ferðinni þrem mínútum seinna og átti gott skot sem Kjartan varði einnig vel.
Fyrsta marktækifæri Valsmanna kom ekki fyrr en á 30 mínútu þegar Danni König komst einn á móti Ómari í markinu en skot hans var lélegt og Ómar ekki í neinum vandræðum með að verja boltann. Magnús Sverrir átti svo flott skot utan af velli á 35 mínútu og í stöngina. Hefði orðið stórglæsilegt mark ef boltinn hefði farið inn.
En ekkert mark kom í fyrri hálfleik en allt benti til þess að Keflvíkingar myndu ná að skora í dag miðað við framgöngu þeirra á vellinum og það reyndist rétt því að það voru ekki nema sex mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar Guðjón Árni Antoníusson lét lið Valsmanna líta einstaklega illa út. Hann komst inn í sendingu frá Rúnari Má á vallarhelmingi Keflvíkinga og hljóp upp allann völlinn, enginn Valsmaður mætti honum fyrr en Guðjón var að nálgast vítateiginn, þá sólaði hann þrjá liðsmenn Vals uppúr skónum og skoraði öruggt mark. Virkilega vel gert hjá Guðjóni en að sama skapi algjör sofandaháttur hjá öllu Valsliðinu.
Eftir markið að þá drógu Keflvíkingar sig til baka og voru með níu menn á sínum vallarhelming í raun það sem eftir var. Magnús Þórir meiddist í aðdraganda marksins og Brynjar Örn Guðmundsson kom í hann stað og átti eftir að setja mark sitt á leikinn. En áður en að því kom héldu Keflvíkingar áfram að láta Valsmenn líta illa út.
Á 74 mínútu átti sér stað svipuð atburðarrás og þegar Guðjón Árni skoraði en í þetta sinnið var það Magnús Sverrir sem sólaði upp allan völlinn og var kominn inn í vítateiginn og sendi hann á samherja sem var dæmdur rangstæður.
Varamaðurinn Brynjar Örn Guðmundsson fékk boltann rétt fyrir utan vítateig Valsmanna á 84 mínútu og náði flottu skoti beint í vinstra hornið og Kjartan átti ekki möguleika. Fín innkoma hjá Brynjari Erni.
Keflvíkingar hefðu getað bætt við þriðja markinu á lokamínútunum þegar Guðjón Árni átti fína sendingu fyrir markið og Sigurður Gunnar Sævarsson sem hafði komið inn á nokkrum mínútum áður skallaði boltann rétt yfir markið. En leiknum lauk með 0 - 2 sanngjörnum sigri Keflvíkinga og þeir því komnir á topp deildarinnar. Þeir spiluðu vel og skynsamlega allan leikinn á meðan Valsmenn áttu sinn allra slakasta leik sumarsins.
Spjöld: Einar Orri Einarsson Keflavík (gult) Paul Mcshane Keflavík (gult) Baldur Ingimar Aðalsteinsson Valur (gult) Reynir Leósson Valur (gult)
Lið Vals: Kjartan Sturluson, Martin Pedersen, Reynir Leósson, Atli Sveinn Þórarinsson, Gregg Ross, Sigurbjörn Hreiðarsson, Rúnar Sigurjónsson, Guðmundur Steinn Hafsteinsson, Arnar Sveinn Geirsson, Ian Jeffs, Danni König.
Varamenn: Ásgeir Þór Magnússon, Stefán Jóhann Eggertsson, Hafþór Ægir Vilhjálmsson, Baldur Ingimar Aðalsteinsson, Jón Vilhelm Ákason, Viktor Unnar Illugason, Þórir Guðjónsson.
Lið Keflavíkur: Ómar Jóhannsson, Alan Sutje, Guðjón Árni Antoníusson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Ian Paul Mcshane, Einar Orri Einarsson, Guðmundur Steinarsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Magnús Þórir Matthíasson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Bojan Stefán Ljubicic, Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Þór Magnússon, Sigurbergur Elisson, Sigurður Gunnar Sævarsson, Ómar Karl Sigurðsson.
Dómari: Jóhannes Valgeirsson ( fínn )
Aðstæður: Ágætar, 827 áhorfendur
Maður leiksins: Guðjón Árni Antoníusson Keflavík.