Sævar Ólafsson skrifar úr Breiðholti
Leiknir R. 3 - 0 KA
1-0 Kristján Páll Jónsson ('62)
2-0 Kristján Páll Jónsson ('81)
3-0 Brynjar Benediktsson ('87)
1-0 Kristján Páll Jónsson ('62)
2-0 Kristján Páll Jónsson ('81)
3-0 Brynjar Benediktsson ('87)
Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru með allra besta móti á Leiknisvelli í dag þegar Leiknir tóku á móti norðanmönnum úr KA.
Fyrsta markverða sem gerðist í leiknum var á 10. mínútu þegar Helgi Pjetur Jóhannsson slapp einn í gegn eftir laglega sendingu Brynjars Benediktssonar. Helgi hafði nægan tíma til að athafna sig en gerði sér lítið fyrir og lagði boltann framhjá marki gestanna. Gullið marktækifæri þar í súginn hjá heimamönnum.
Fyrri hálfleikurinn var afar tíðindalítill. Jafnræði var með liðinum en heimamenn ívið meira með boltann án þess þó að skapa sér einhver opin tækifæri. KA-menn voru skipulagðir tilbaka og var leikurinn í góðu jafnvægi.
Síðari hálfleikur var öllu opnari og meira fyrir augað. Þegar rétt um 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik slapp David Ditzl innfyrir vörn heimamanna en David Diztl féll í teignum eftir viðskipti sín við Gunnar Einarsson og Brynjar Hlöðversson. Guðmundur Ársæll dómari áminnti Ditzl fyrir leikaraskap sem líkast til var réttur dómur þar sem Ditzl var í raun fallinn áður en meint snerting átti að hafa átt sér stað.
Fáeinum mínútum síðar átti Helgi Pjetur Jóhannsson góðan sprett upp völlinn og sendi boltann loks á Brynjar Benediktsson sem var á vítateigslínu gestanna í hreint ákjósanlegri stöðu beint gegn marki en móttakan klikkaði og ekkert varð úr.
KA menn komust nálægt því að komast yfir mínútu síðar þegar fyrirgjöf barst inní teig Leiknismanna vel utanaf kantinu. Daniel Alan Stubbs náði föstum skalla rétt fyrir innan vítateig en beint á Eyjólf í markinu.
Leiknismenn tóku forrystuna andartökum síðar þegar kantmaðurinnn síspræki Kristján Páll Jónsson átti afar góðan sprett upp völlinn. Leiknismenn sóttu þá hratt á vörn KA manna með Kristján í broddi fylkingar. Kristján prjónaði sig þá framhjá varnarmanni og skaut þéttingsföstu skoti að marki en Sandor Matus í marki KA varði vel, en þó ekki betur en að boltinn þeyttist uppí lofti og yfir liggjandi Matus sem gerði þó heiðarlega tilraun til að ná boltanum áður en hann endaði í markinu. Nokkur heppnisstimpill á markinu en aðdragandinn var afar góður.
Á 65. mínútu voru KA menn ansi nálægt því að jafna metin þegar Andri Fannar Stefánsson átti bylmingsskot af 30 metrunum. Skotið virtist óverjandi fyrir Eyjólf í markinu en boltinn skall í markstönginni ofanverðri og Leiknismenn önduðu léttar.
Þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum missti Brynjar Hlöðversson bolta klaufalega yfir sig og var Daniel Stubbs einn á auðum sjó og náði hörkuskoti sem virtist ætla að syngja í netinu. Eyjólfur markvörður Leiknis náði þó að koma fingri í boltann og þaut boltinn því framhjá markinu.
Leiknismenn tvöfölduðu forskot sitt svo á 79. mínútu þegar Helgi Pjetur vann návígi á vallarhelming gestanna og ógnaði í átt að marki. Helgi náði með herkjum að koma boltanum til vinstri út á Kristján Pál sem tók boltann með sér í átt að marki. Kristján lagði boltann smekklega á nærstöngina framhjá Sandor Matus.
Við annað mark Leiknis má segja að allur vindur hafi verið úr KA-liðinu. Leiknismenn nýttu sér það til fullnustu og skoruðu þriðja markið á 85. mínútu þegar títtnefndur Kristján Páll Jónsson átti fyrirgjöf frá vinstri sem sveif á fjærstöng þar sem Brynjar Benediktsson var einn og óvaldur og kláraði færið laglega með góðum skalla sem Sandor átti engin svör við.
Góður sigur Leiknis staðreynd og tylla þeir sér með sigrinum á topp 1.deildar. KA-menn virkuðu þungur og þreyttir í leiknum og virkuðu ekki í sínum besta gír í dag og má líklega leiða að því líkum að bikarleikur þeirra gegn Grindavík hafi setið í liðinu – sérstaklega þegar litið er til þess að leikur þeirra fjaraði í raun út þegar Leiknismenn bættu öðru marki sínu við.